Nýja Zeroið vonbrigði fyrir mig en ánægja fyrir Pál Óskar.

 

Í lokin á tengdri frétt á mbl.is af glæsilegu atriði Lady Gaga á Ofurskálinni má sjá, að þetta flotta atriði baf heitið "Pepsi Zero Sugar Super Bowl" og var því í rauninni risavaxin og rándýr auglýsing fyrir sykurskert Pepsi. 

Ekki veit ég hvort þetta er ný gerð af Pepsi til að mæta samkeppni við nýja gerð af Coke Zero sykur, en sé þetta auglýsing fyrir Pepsi Max er magnað hve miklu er kostað til auglýsinga á vöru, sem flestir, sem á annað borð neyta svona drykkja, eru fyrir löngu búnir að velja eða hafna í samræmi við sinn smekk.

En fjöldi koffein-sykur fíklanna er slíkur að það má reyna.  

Ég bý núna nokkur hundruð metra frá Bónusverslun og Hagkaupaverslun.

Ég spara eins og kostur er við kaup á cola-drykkjum, og kaupi aðeins tveggja lítra flöskur, sem ég helli síðan úr í hálfslítra flöskur. 

Í Bónus kosta tveggja lítra flöskur með Kók og Pepsi um 200 krónur, en þær eru talsvert dýrari í Hagkaupum, þar sem hins vegar má fá tveggja lítra RC cola fyrir rúmlega 200 kall. 

Það er ekki hægt að deila um smekk í þessu efni. Páll Óskar hrósaði hástöfum nýrri gerð af Coke Zero, sem ber hetið Coke Zero sykur. 

Bendir til þess að einhverju efni, sem líkist hreinum hvítasykri, hafi verið bætt í drykkinn. 

En eftir að ég las hól Páls Óskars og fékk mér nýja Zeroið, varð ég fyrir vonbrigðum varðandi þessa breytingu. 

Ástæðan er sú að ekkert gerviefni eða orkusnauð eftirlíking getur gefið það sem hvítasykurinn með allri sinni orku og viðeigandi eftirkeim gefur. 

Hingað til hefur Coke Zero orðið fyrir valinu frá mér, af því að í þeim drykk virðist framleiðandinn hafa valið þá leið, að sækjast ekkert mikið eftir sterku eftirlíkingar-sætubragði. 

Það virðist hins vegar gert í Pepsi Max og þess vegna verður rammur eftirkeimurinn af sterku sætubragði drykksins alltof sterkur fyrir minn smekk. 

Coke light er heldur ekki á dagskrá hjá mér. 

Það kemur fyrir að í kókskorti eftir lokun Bónus sé gripin tveggja lítra Light RC cola í Hagkaupum sem neyðarúrræði. Er reynt að dreifa og fresta neyslu hennar næstu daga eftir því sem kostur er.  

Nú virðist eitthvað svipað hafa verið gert varðandi Coke Zero sykur og í gerð Pepsi Max.

Allt í einu kominn, í kjölfar sterkara sykur/sætubragðs aukinn eftirkeimur, það mikill, að það stefnir í að maður hafi hér eftir við höndina smáflösku með "The real thing", hvítasykruðu Kóki til að drekka síðasta sopann í kókdrykkjunni úr henni og fá réttan eftirkeim í lokin. 

Gaman væri að vita hvort fleiri eru sama sinnis og ég í þessu efni. Við erum að tala um hundruð milljóna fíkla. 

Sé svo, hlýtur gamla Coke Zero að koma aftur.  

Einu sinni prófuðu þeir að framleiða Coke koffeinlaust.  Auðvitað kolféll það. 

Þeir föttuðu ekki, að fíklarnir söknuðu koffeinsins, rétt eins og að kaffi án koffeins myndi kolfalla í sölu!

Niðurstaða fyrir mig: Að vísu Coke Zero sykur, úr því að hið gamla Zero er ekki lengur á boðstólum, en helst höfð tiltæk lítil flaska af kóki, Pepsi eða RC cola með koffeini og hvítasykri, sem yrði drukkinn einn sopi af í lokin á eftir nýja Zeroinu, eins og af fleyg.Honda PCX EDRÚ

Lokaspurning: Hvers konar langloka er þetta um jafn lítilfjörlegt málsefni?

Jú, ég met mig sem alkóhólista, sem aldrei hefur smakkað vín og er með einkanúmer á vespuhjólinu mínu í samræmi við það, en dreypi þó á coladrykkjum til að sefa sárasta þorstann í eins litlu magni og mér er unnt. Vísa K-N hljómar svona hjá mér, lítillega breytt í samræmi við ólíka drykkju:

Kókið blakka´´er besti matur, -

bragðið góða svíkur eigi.

Eins og hundur fell ég flatur

fyrir því á hverjum dagi.  

 

Skál!   

 


mbl.is Falinn boðskapur Lady Gaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðkvæmt orðaval.

Umræður, sem snerta hlut kynjanna í þjóðlífinu, verða oft býsna viðkvæmar, og þarf lítið til að orðaval og ummæli komi róti á huga fólks. 

Þannig skilur einn ákveðið orðaval á allt annan hátt en annar.

Orðið móðir er eitthvað það fegursta sem hugsast getur. 

Jörðin okkar er til dæmis kölluð Móðir jörð, jafnvel með stórum staf eins og hér er skrifað. 

Benedikt Jóhannesson uppskar gagnrýni þingkonu vegna orðavals síns varðandi hugtakið hagsýn húsmóðir. 

Móðir hússins er þó hliðstætt móður jörð, að því leyti að bæði húsið og jörðin eru heimili, eitthvað það dýrmætasta sem til er fyrir hverja manneskju. 

Benedikt baðst afsökunar á því að hafa ekki getað komist betur að orði þannig að enginn misskildi það sem að baki orðum hans bjó varðandi það að nefna hina hagsýnu húsmóður. 

Það hefðu ekki allir í hans sporum gert það,  og það að hann viðurkenndi að orðavalið gæti verið viðkvæmt og jafnvel óheppilegt í eyrum sumra, jafnvel kjánalegt í hans eigin eyrum um leið og hann hafði sagt þau, er því dæmi um að fjármálaráðherrann á til auðmýkt og raunsæi í bland þegar það á við.  


mbl.is „Hinar hagsýnu húsmæður“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dyrhólagat, kolludráp, brúarmælingar Rússa, dráp Geirfinns og Lúkasar.

Sannleiksgildi frétta hefur verið misjafnt frá upphafi fréttaflutnings til okkar daga svonefndra falsfrétta.

Íslensk dæmi eru fjölmörg. Um aldamótin 1900 var háð fáránleg deila um myndbirtingu annars af helstu blöðum þess tíma af sjósorfnu klettagati við Arnarstapa á Snæfellsnesi.

Deilt var um hvort myndin væri af þessu gati eða gatinu á Dyrhólaey.

Í dag væri slík deila óhugsandi, því að útlit Dyrhólaeyjar er alkunnugt.

Þegar Hermann Jónasson var lögreglustjóri í Reykjavík og orðinn að einum af helstu forystumönnum Framsóknarmanna, komst sá kvittur á flot, að hann hefði stundað ólöglegar skotveiðar við Örfirisey og skotið þar æðarkollu. Urðu harðar blaðadeilur um málið. 

Já, þetta varð að stórmáli.

45 árum síðar voru mikil málaferli um eignarhald Björns Pálssonar,  Alþingismanns Framsóknarmanna, á merinni Skjónu.

Á fjölmennri samkomu í Reykjavík var Björn spurður um það mál og líka um kollumálið.

Björn svaraði að bragði: "Ég á Skjónu en Hermann skaut helvítis kolluna."

Sjálfur afgreiddi Hermann málið á sínum tíma með snjallri vísu:

 

Ævi mín var eintóm leit

eftir villtum svani,

en ég er, eins og alþjóð veit

aðeins kollubani.  

 

Falsfréttir þrífast oft á ótta. Ein þeirra birtist í Alþýðublaðinu sumarið 1939 þess efnis að þýskir vísindamenn færu um norðausturhálendið í því skyni að mæla út hugsanleg flugvallarstæði fyrir þýsku nasistastjórnina. Sá fótur var fyrir þessari frétt, sem hefur síðar verið upplýst í tengslum við hana, að Agnar Koefoed-Hansen, þá flugmálaráðunautur ríkisstjórnar Íslands, hefði síðar beðið Halldór bónda á Brú á Jökuldal um leyfi til að gera flugvöll þar sem nú er Sauðárflugvöllur, og að smalamenn á Brúaröræfum hefðu rifið niður hlaðnar vörður í september 1939, sem þar höfðu verið settar upp.

Agnar flaug sumarið 1938 um allt land í leit að hugsanlegum framtíðarflugvallarstæðum. 

Vorið áður hafði íslenska ríkisstjórnin hafnað beiðni Hitlers um að Þjóðverjar fengju að koma sér upp aðstöðu hér á landi fyrir áætlað flug sitt yfir Atlantshaf.

Var það gert vegna ráðlegginga Agnars og vakti heimsathygli.  

Enn fyrr höfðu Íslendingar fjarlægt merki, sem hinn heimsþekkti þýski vísindamaður Wegener hafði reist á fjöllum uppi til að sanna hina stórmerku grundvallarkenningu sína um rek meginlandanna, svonefnda landrekskenningu. 

Um það leyti sem bandarískt varnarlið kom til Keflavíkurflugvallar 1951 kom frétt í dagblaðinu Tímanum um að grunsamlegar mannaferðir hefðu sést við brúarmælingar í Leirársveit og var leitt líkum að því að þar hefðu útsendarar Rússa verið á ferð til að undirbúa innrás. 

Síðar kom í ljós að þarna var Íslendingur að mæla brúarbreiddina vegna flutnings á litlum sumarbústað. 

Enn er í minnum stórbrotinn fréttaflutningur vikum saman af viðbjóðslegu drápi hundsins Lúkasar á Akureyri fyrir nokkrum árum. 

Þegar hundurinn týndi birtist síðar sprelllifandi hrundi þessi fréttaflutningur gersamlega. 

Í Guðmundar- og Geirfinnsmálum á sínum tíma voru stórfréttir fluttar í öllum fjölmiðlum af drápinu á Geirfinni í dráttarbrautinni í Keflavík þar sem tveir nafngreindir menn, sem þá sátu í ströngu gæsluvarðhaldi vikum saman, hefðu verið í hópnum sem drap Geirfinn. 

Síðar voru fluttar jafn stórbrotnar fréttir af því, að morðið á Geirfinni hefði verið framið á allt annan hátt og mennirnir tveir hvergi nærri komið, enda leystir saklausir úr fangelsi. 

Þjóðin glímir enn við það mál, því að aldrei hafa fundist neinar efnislegar sannanir fyrir því að Guðmundur Einarsson og Geirfinnur Einarsson hafi verið drepnir, og enn ekki hægt að afsanna til fulls að þeir séu á lífi.

Má vísa þar til þess þegar Íslendingur einn, sem hvarf í Bandaríkjunum, var úrskurðaður látinn, en birtist 12 árum síðar sprelllifandi á Íslandi.  


mbl.is Falskar fréttir fara á flug
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. febrúar 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband