Níunda rassskellingin hjá Hæstarétti, gætu verið fleiri?

Síðast þegar rýnt var í það hve oft Mannréttindadómstóllinn í Strassborg hefði rassskellt Hæstarétt fyrir að fara ekki eftir mannréttindasáttmálum, voru þær átta. 

Sé það rétt er þetta sú níunda. Fyrstu og frægustu rassskellingarnr voru í máli Þorgeirs Þorgeirssonar og Jóni hjólreiðamann á Akureyri, en sá síðarnefndi varð, þótt tilefnið virtist lítið, til þess að taka varð upp dóms- og réttarkerfið á Íslandi frá grunni. 

Rassskellingarnar gætu hugsanlega hafa orðið fleiri, því að það hafa ekki allir efni á því að fara með mál sín til Strassborgar. 

Sem dæmi má nefna úrskurð Hæstaréttar varðandi aðild fjölmennra félagasamtak náttúruverndar- og útivistarfólks, sem stóð í þeirri trú að nýlögtekinn Árósarsamningur hér á landi, löngu á eftir öðrum Evrópuþjóðum, myndi veita því lögaðild að lagningu Álftanesvegar.

Árósasamningurinn er einmitt með þann yfirlýsta tilgang að veita slíkum hópum og samtökum lögaðild að framkvæmdum á borð við þennan veg.

Venjulega eru úrskurðir Hæstaréttar um hliðstæð atriði stuttorðir, en í þetta sinn dugði ekkert minna en tíu blaðsíðna langloka til þess að réttlæta það óréttlæti, að tilgangur og innihald Árósasáttmálans gilti ekki um Hraunavini, Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands eða allt útivistar- og göngufólkið sem naut fyrrum þess svæðis ósnortins og tiltölulega nýs hrauns, sem var rústað á óafturkræfan hátt með þessum vegi.

Það gæti kannski orðið níunda rassskellingin ef fé og aðstaða fengist til að vísa því máli til Strassborgar. En í þess stað eiga níu einstaklingar að síðustu málaferlunum út af Gálgahraunsmálinu fullt í fangi með að greiða þann kostnað, sem þegar er orðinn af málinu.  


mbl.is Fimmta áminningin til Hæstaréttar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýðskrum er betra en populismi. Sjálfviti betra en besservisser.

Stundum á "ástkæra ylhýra" betri orð en erlendar tungur yfir ýmis hugtök. Pupullinn og það að vera "popular" er þýtt á íslensku sem alþýðan eða almúginn og að vera vinsæll. 

En stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar geta ekki náð fylgi nema að vera vinsælir, þ.e. "popular." 

Íslenska orðið "lýðskrum" lýsir betur þeirri hugsun sem útlendingar nota með orðinu populisma. 

Lýðskrumið felst í því að höfða síður til raka og staðreynda en til frumstæðra tilfinninga svo sem græðgi og ótta og að skipta fólki og þjóðum í "okkur og hina". 

Hörð þjóðernisstefna á borð við þær sem fóru með himinskautum á fjórða áratug síðustu aldar lyfti lýðskrumi í hæstu hæðir.

Að því leyti til er hægt að segja að populismanum í slíkum skilningi hafi verið hafnað í Hollandi, en á hinn bóginn hefur sést á kosningabaráttuunni að aðrir flokkar hafi orðið að sveiga stefnu sína í þjóðernisátt.

Íslenska nýyrðið "sjálfviti" lýsir fyrirbærinu besservisser betur en erlenda orðið, því að sjálfviti gefur til kynna að besservisserinn sjálfur telji sig vita allt betur en allir aðrir, auk þess sem orðið sjálfviti rímar skemmtilega á móti orðinu hálfviti og má oft á tíðum varla á milli sjá hvor er í raun meiri "hálfviti."  


mbl.is „Popúlismanum hafnað“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það eru takmörk fyrir öllu. Saga frá Látrabjargi.

Ef ferðamaðurinn, sem lést í Silfru núna síðast, lést af völdum hjartaáfalls, hefði það líklegast geta gerst á allt öðrum stað.  Ef hann hefði þurft að moka snjó eða ýta bílaleigubíl í snjónum um daginn hefði það kannski nægt til að hann fengi þetta áfall. 

Þótt að sjálfsögðu eigi að vera á tánum með það að vara ókunnuga við hættum hér á landi, og að aðgerðir ferðamálaráðherra í þá átt sé lofsverð, verður aldrei hægt að koma alveg í veg fyrir að fólk fari sér að voða. 

Það verður ´til dæmis aldrei hægt að reisa múr eða ókleifa girðingu eftir endilangri 14 kílómetra langri brún Látrabjargs, svo að dæmi sé tekið. 

Sumt af því sem fólk gerir á yngri árum, myndi það ekki láta sér detta í hug að gera síðar á ævinni. Og Látrabjarg kemur upp í hugann í því efni. 

Á árunum 1957-1960 var ég í samvinnufélagi sem reisti fyrstu 12. hæða blokkina af þremur við Austurbrún. 

Ég var sjúklega lofthræddur í byrjun, sem kom sér illa, því að starf mitt fólst í járnabindingum og við það starf þurfti stundum að ganga eftir mótunum. 

En eftir því sem hæðunum fjölgaði minnkaði lofthræðslan og á 12. hæð lá við að ég treysti mér til að hlaupa ofan á steypumótunum. 

Þegar ég fór í gerð fyrstu heimildarmyndar minnar í sjónvarpi vestur á Látrabjarg, og var þar á ferð með björgunarsveitarmönnum frá Patreksfirði, kom þessi áunna geta sér vel, svo að í eitt skiptið tók ég það upp hjá mér þegar sinna þurfti kalli náttúrunnar, að finna stað á bjarginu, þar sem hægt var að standa svo utarlega á blábrúninni og snúa baki í Breiðafjörðinn sitjandi á hækjum sér, að hægt leysa þetta mál á þann einfaldasta hátt, sem hugsast gat, - láta það, sem losna þurfti við, gossa í frjálsu falli fram af bjarginu.

Þegar ég flaug með Steingrím Hermannsson fyrir Látrabjarg á kosningaferðalagi hans 1974, barst talið að þessu þegar ég benti honum á staðinn, þar sem borinn var áburður í bjargið þremur árum fyrr, og sagði:

"Þarna er staðurinn sem ég skeit fram af bjarginu, þurfti nánast að láta hælana standa fram af brúninni, og mér var sagt að þetta hefði enginn annar gert."

"Það er ekki alveg rétt" sagði Denni.

"Nú?"

"Ég hef gert þetta líka. Var ungur og myndi ekki gera þetta núna."

"Hvar skeist þú fram af bjarginu?" spurði ég.

"Ég gerði það ekki hér heldur í Drangey."  


mbl.is „Ekki í fyrsta sinn sem aldan hrifsar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. mars 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband