Hvað um "jarðirnar þrjár" í fjarlægu sólkerfi ?

Nú vekja allar spurningar um jörðina okkar enn fleiri spurningar um "jarðirnar þrjár", reikistjörnurnar sem uppgötvast hafa í fjarlægu sólkerfi í Vetrarbrautinni. 

Ef vatn er á öllum þessum reikistjörnum kviknar spurningin um líf, og þá auðvitað um líf, líkt því sem er á okkar jörð. 

Það sem er kannski ekki síst heillandi, er spurningin um það, hvort svo þróað líf sé á þessum reikistjörnum, að á fleiri en einni þeirra búi einstaklingar, sem hafi náð tækni til þess að ferðast á milli "jarðanna".

Það er nefnilega þannig, að enda þótt leiða megi líkur að því að líf, jafn þróað og líf okkar Jarðarbúa, sé að finna á óteljandi stöðum í Vetrarbrautinni, er það vísindaleg krafa, að hægt sé að sanna það á áþreifanlegna hátt.  


mbl.is Fundu elstu steingervinga í heimi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Það þarf nú ekki mikið til, - þetta er ekki íþrótt."

Það hefur lengi loðað við að felldir eru sleggjudómar um íþróttagreinar og gert eins lítið úr þeim og iðkendum þeirra og mögulegt er. Nokkur dæmi: 

1. Það er fráleitt að kalla akstur bíla íþrótt, - er nú enginn vandi að sitja í þægindum undir stýri á bíl og dangla eitthvað í það með hendinni. 

2. Það er nú ekki mikil reisn eða vandi fólginn í því að sitja hreyfingarlaus á hesti. 

3. Það telst nú ekki íþrótt að sötra bjór í golfskálum, rölta um grasbletti og dangla í hvítar kúlur með járnstöngum. Golf er deyjandi íþrótt og frekar tómstundariðja en íþrótt, var íþrótt efnaðs fólks í upphafi og hið besta mál að hún deyi út. 

 

Sjálfur þekkti ég vel efstu fullyrðinguna frá þeim tíma þegar ég tók þátt í ralli. Þegar ég bað sleggjudómarana um skýringar á því, að í þriggja daga ralli þurfti maður að vera með hanska á höndunum til þess að stýrið nagaði sig ekki í gegnum húðina, varð fátt um svör. 

Með fullyrðingu númer 2 er verið að segja, að hjá íþróttamanni ársins á sinni tíð, Sigurbirni Bárðarsyni, hafi ekkert legið að baki hjá honum. 

Um númer 3 er það að segja að golfvellir og golfklúbbar skipta mörgum tugum á Íslandi og félagar mörgum þúsundum, og að 4000 erlendir ferðamenn borguðu sig inn á þessa golfvelli 2016. Fjölgaði um meira en helming frá árinu áður. Bestu kylfingar slá kúluna í upphafshöggi hátt í 400 metra. Enginn vandi, - hvað ræfill sem er getur gert þetta. Á að miða gildi íþróttarinnar við efnahagsástandið fyrir meira en öld?  

Hvaleyrarvöllur er meðal 15 bestu golfvalla á Norðurlöndum að mati sérfræðinga. Norðurlönd njóta sérstakrar hylli fyrir þau hundruð, ef ekki þúsundir golfvalla, þar sem hægt er að upplifa það að leika golf í stórbrotinni náttúru um miðja nótt. 

Burt með svona íþrótt segja menn samt hiklaust og telja sig búa yfir þekkingu sem réttlæti slíkar fullyrðingar. 


mbl.is Stefnt að einföldun á golfreglum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mótsagnir varðandi hervæðinguna.

Aðal liður ráðstafana Donalds Trumps til "að gera Bandaríkin mikil á ný" og "endurheimta þjóðarstolt Bandaríkjamanna" virðist þessa dagana felast í því að auka fjárútlát til hersins um tæp 10% og reisa "múrinn mikla" á suðurlandamærum BNA, og gera þetta á kostnað nánast allra annarra útgjaldaliða ríksins, nema ef vera skyldi "uppbyggingu innviða", sem er ansi loðið orðalag. Gæti kannski átt við samgöngumannvirki. 

Trump hefur gagnrýnt fyrri stjórnvöld harðlega fyrir það að vanhugsaðar hernaðaraðgerðir erlendis hafi kostað mikil útgjöld, en vill á sama tíma auka hernaðarútgjöld til þess "að tryggja öryggi Bandaríkjanna." 

Þau útgjöld eiga til dæmis að gera herinn bardagahæfari og búinn betri vígtólum, til dæmis þegar senda þarf sjóherinn á vettvang þar sem "hagsmunum Bandaríkjanna", svo sem olíuhagsmunum, sé ógnað. 

Flest ríki, sem halda uppi miklum herafla og herbúnaði, eiga í vandræðum með að halda öllum vígtólunum í viðunandi lagi og hefur komið fram að ástandið hjá öðrum herveldum, til dæmis í Evrópu, sé jafnvel verra en hjá Bandaríkjaher. Því meiri sem heraflinn og herbúnaðurinn eru, því meiri útgjöld. 

Hermálastefna Trumps, rétt eins og forvera hans, er því full af mótsögnum. 

 


mbl.is Í hvað fara allir þessir peningar?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrrverandi stjórnarandstaða hefði þingmeirihluta.

Skoðanakannanir á milli kosninga eru ekki það sama og úrslit í kosningunum sjálfum. 

Samt er áhugavert að fylgjast með sveiflum í skoðanakönnunum, og til dæmis vekur lítið fylgi við nýja stjórn og stjórnarflokkanna athygli, svona skömmu eftir kosningar og stjórnarmyndun. 

Flokkarnir, sem voru í minnihluta á Alþingi á síðasta kjörtímabili, myndu getað myndað stjórn með meirihluta á þinginu, ef úrslit kosninga yrðu í samræmi við þjóðarpúls Gallups. Samanlagt fylgi þessara flokka er 49%, en samanlagt fylgi fyrrverandi stjórnarflokka, Sjalla og Framsóknar er 39&, en 44% ef Viðreisn er talin með, sem er hæpið, því að sem kunnugt er sögðu talsmenn þess flokks eftir kosningarnar að þeir útilokuðu að vera í þriggja flokka stjórn með fyrrverandi stjórnarflokkum. 

Ástæða þess að 49% má skoða sem þingmeirihluta er sú, að atkvæði greidd flokkum með minna en 5% fylgi, falla dauð niður. 

 


mbl.is Sjálfstæðisflokkurinn áfram stærstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 2. mars 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband