Nýtt fyrirbrigði að ungt fólk skorti orðaforða.

Það er alveg nýtt fyrirbrigði hér á landi að unglingar og ungt fólk viti ekki hvað jafnvel algeng íslensk orð þýða. Það er ekki fyrr en allra síðustu ár sem þetta hefur byrjað að vera áberandi og það svo mjög, að fréttir af því berast víða að. 

Einnig færist mjög í vöxt að ungt fólk þýði enskt orðfæri beint yfir á íslensku, jafnvel í hverjum fréttatíma og tölublaði. 

Síðast í gær átti fréttamaður greinilega erfitt með að koma orðum að því að körfuboltalið eitt stæði höllum fæti í útsláttarkeppni, væri komið í ógöngur eða erfiða stöðu og afgreiddi málið með þaí að segja að liðið væri komið upp að vegg í keppninni. 

Enn annað afbrigði af því að ágæt íslensk orð hafa týnst er það að búa til misjafnlega burðug nýyrði. 

Áður hefur verið minnst á það hvernig átta mismunandi orð um skólafélaga eða skólasystkin eru nú í útrýmingarhættu fyrir hinu órökrétta heiti "samnemendur." 

Heitið er misvísandi og vandræðalegt vegna þess að hingað til hafa aðeins kennarar getað eignað sér eða tengt sig við nemendur með því að tala um nemendur sína. 

En með því að nemendur sjálfir eigi nýja tegund af nemendum, samnemendur, er verið að búa til ruglingslega stöðu. 

Ruglið er líka í gangi varðandi framburð á erlendum heitum. Þannig talaði sjónvarpsfréttamaður í gær um "eff-bé-æ" og "eff-ess-a." 

Ruglið er algert, því að ekkert samræmi er hér í neinu. Annað hvort bera menn þessar skammstafanir fram á íslensku eða ensku, - annað hvort "eff-bé-i" og "eff-ess-a" eða "eff-bí-æ" og "eff-ess-ei." 

Í fréttinni í gær var nafn FBI borið fram á blandaðan hátt en FSA á íslenskan hátt. 

Þegar farið er að bera skammstafanir fram svona sitt á hvað getur ruglingurinn orðið flókinn. 

Möguleikarnir margir:  Eff-bé-i, Eff-bí-i" "Eff-bí-æ", Eff-bé-æ.  

 


mbl.is Tala saman á ensku í skólanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er það frétt að vera ávöxtur sambands móður sinnar við föður sinn?

Stórfrétt er sögð hér á mbl.is með fyrirsögninni: "Afi hans var líka pabbi hans."

Margir hafa farið inn á fréttina til að lesa nánar um þetta ef marka má lista yfir það sem mest er lesið. 

Til þess að halda áfram að kynna sér málið þarf að smella á "Lesa meira"  

En þá fer í verra, því að upphafssetning fréttarinnar er þessi: 

"Skoski listamaðurinn John Byrnes komst að því að hann væri ávöxtur ástarsambands móður hans við föður hans." 

Ég hélt að það væri hvorki mikil frétt né óvenjulegt að svona væri í pottinn búið, því að sams konar eða að minnsta kosti svipað gilti um alla, þótt í sumum tilfellum væri kannski ekki nema um það samband að ræða, sem til þarf, þótt það væri ekki ástarsamband.  

John Byrnes er ekkert einsdæmi. Um mig og aðra er líka hægt að segja: "Hann komst að því að hann væri ávöxtur ástarsambands móður hans við föður hans." 

Eða: "Hún komst að því að hún væri ávöxtur ástarsambands móður hennar við föður hennar." 

Ég hélt reyndar að það gilti um nær alla að vera ávöxtur sambands móður sinnar við föður sinn. 

Eða öfugt, ef menn vilja hafa það þannig, - "..ávöxtur sambands föður síns við móður sína." 

Og þá mætti kannski bæta svona erindi við þekkt lag Stuðmanna: 

 

Hvað er svona merkilegt við það

að vera sonur pabba síns

og nota Black og Decker? 

Hvað er svona merkilegt við það 

að vera sonur mömmu og pabba?....

 

Á hitt er svo að líta að með því að liggja smávegis yfir texta fréttarinnar skýrist málið aðeins þótt ruglingslegt hafi orðið lengst af. 


mbl.is Afi hans var líka pabbi hans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ömurleg málaferli.

Vatnajökull er kóróna landsins og á að verða hryggjarstykkið í nýrri en þó fornri hugsun þess efnis að náttúran, og þá helst mestu náttúruverðmætin séu sama eðlis og Þingvellir, að um þjóðareign sé að ræða sem aldrei megi selja né veðsetja. 

Trú inúíta, indiána og ásatrúarmanna á borð við Ingólf Arnarson gerði náttúruna og auðlindir hennar að sérstökum lögaðila.

Ingólfur lét heimilisguði sína, Þór og Frey, sem voru greyptir í öndvegissúlurnar, friðmælast við landvættina við landtöku í Reykjavík í sérstakri fórnarathöfn. 

Ingólfur taldi að Hjörleifur hefði goldið fyrir það með lífi sínu að hafa ekki friðmælst við landvættina. 

Vegna þessarar trúar og sjónarmiða eru engir landeigendur til á Grænlandi, ekki heldur lóðareigendur. 

Þegar Vatnajökulsþjóðgarður var stofnsettur var það haft sem grunnur að fylgja þáverandi jökulrönd. 

Það er fráleitt að gera slíkt á hratt hopandi jökli og frekar hefði átt að draga þessa línu þar sem jökullinn komst lengst fram milli 1890 og 1920 þannig að þegar hann hopaði til baka, féllu þau nýju jökullón, sem mynduðust þar sem jökullinn var áður, yrðu innan þjóðgarðsins. 

Málareksturinn vegna Jökulsárlóns er ömurlegt tákn um þá tregðu sem valdaöfl hér á landi standa fyrir varðandi varðveislu og vernd mestu verðmæta landsins, sem við höfum sem landverðir einungis að láni frá afkomendum okkar og mannkyni öllu. 

 

 


mbl.is Fögrusalir töpuðu í Hæstarétti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. mars 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband