Erfitt að loka nema reglur séu sannanlega brotnar.

Svo er að skilja af fréttum af arsen mengun frá kísilverksmiðju United Silocon það þurfi að bíða út þetta ár eftir því að hægt sé að nota niðurstöður mælinga til að loka verksmiðjunni.  

Verksmiðjan hafi einfaldlega ekki starfað nógu lengi til þess að hægt sé að beita þeim reglum, sem gilda um leyfilega mengun. 

Ef þetta er rétt liggur það fyrir að ekki verði hægt að uppfylla kröfur um lokun verksmiðjunnar fyrr en á síðari hluta þessa árs í fyrsta lagi.

Þegar farið er yfir aðdragandann að uppbyggingu stóriðju í Helguvík sést hve óhemju hart var sótt að því af ráðamönnum syðra og í landsstjórninni, allt frá 2005 að koma þarna á sem allra stærsti stóriðju, helst risaálveri sem þurfti allt virkjanlegt afl alla leið frá Reykjanestá austur í Skaftárhrepp og upp á miðhálendið með tilheyrandi fórnum .

Svo mikið var talið liggja við, að ekki dugðu færri en sex skóflustungur jafnmargra ráðamanna samtímis árið 2008 til þess að hefja byggingu kerskála álversins.

Orkusölusamningur var gerður 2007 og allt komið á fulla ferð þótt það ætti eftir að búa til og semja um net virkjana, risaháspennulína og vega í hátt í tuttugu sveitarfélögum alls.

Risavaxið "túrbínutrix" var á ferð. Þeir sem andmæltu þessum ósköpum, vor kallaðir kverúlantar, öfgafólk, sem væri á móti rafmagni og atvinnuuppbyggingu og vildu fara aftur inn í torfkofana. 

Málið hefur verið í fullum gangi síðan og á fyrsta vinnudegi nýrrar ríkisstjórnar 2013 var einróma samþykkt að hafa risaálverið í forgangi. 

Í tólf ár að minnsta kosti hefur legið fyrir að mengun myndi verða frá hinu mikla óskabarni, stóriðju í Helguvík, hver sem hún yrði, og það hefði átt að vera öllum ljóst allan tímann í hverju hún myndi verða fólgin og hverjar takmarkanir yrðu settar fyrir henni. 

Ef eigendur verksmiðjunnar geta fullyrt að þeir séu réttu megin við sett mörk, geta þeir rifið kjaft eins og hingað til og bætt því við að viðsemjendur þeirra hafi vitað, að hverju þeir gengu, vitað hvað þeir vildu og fengið það sem þeir vildu. 

Þeir geta líka bent á að þeir eigi rétt á skaðabótum ef verksmiðjunni verður lokað án þess að þeir hafi brotið reglur, sem um hana gilda.

Svo er að skilja, að eigendum svona verksmiðja sé falið að setja sjálfir upp mæla og sjá um að mælingar séu gerðar. 

Það er skrýtið. Ekki er bílstjórum bíla falið að fá sér mæla og mæla útblástur bíla sinna. 

Lýsingar og myndir í blaðinu Stundinni hafa verið ljótar, en ekkert virðist hafa verið hægt að sanna. Máttleysið áberandi í því að fást við það, sem er að gerast þarna.  

Og á eftir halda áfram með smíði tveggja annarra verksmiðja og brennslu á 380 þúsund tonnum af kolum á ári! 

Um lykt er afar erfitt að dæma, því að fólk er misjafnlega lyktnæmt. Þegar mágkona mín, sem á heima í Bolungarvik, kemur til Reykjavíkur, undrast hún hina miklu fýlu, sem er í höfuðborginni og þegar hún fann hana fyrst fyrir nokkrum árum, hélt hún að einhverjir úrgangshaugar væru hérna í Grafarvoginum. 

Við Helga komum hins vegar af fjöllum, vorum fyrir löngu orðin samdauna fýlunni. 

Og kannski verður það sama uppi á teningnum í Reykjanesbæ, að þegar allir verða orðnir samdauna lyktinni úr Helguvík verða allir ánægðir. 

 


mbl.is Vill láta loka United Silicon
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kapphlaup við að aflétta og varðveita leynd?

Það að senda einhverjum dulkóðuð skilaboð getur verið hluti af því að viðhalda friðhelgi einkalífs og persónuvernd. 

En það getur líka verið aðferð til að hafa samskipti varðandi refisverða háttsemi og fela áform og framkvæmd. 

Setningin: "Það má ekki vera neinn staður, þar sem hryðjuverkamenn (skæruliðar) geti falið sig" hefur verið sögð margsinnis áður. 

Stundum vegna hagsmuna, sem snúa að friði og farsæld, og því viðfangsefni að verjast hryðjuverkum illra afla, en líka þegar þurfti að fylgjast með neðanjarðar- og andspryrnuhreyfingum í nýlendum fyrri tíma eða með hreyfingum á borð við Vietcong og andspyrnuhreyfingum gegn nasistum í löndum, sem þeir höfðu hernumið í Seinni heimsstyrjöldinni. 

Yfir síðastnefnda tilfellinu, "hryðjuverkum" andspyrnuhreyfinganna, ríkir ljómi í hugum vestrænna lýðræðisþjóða og andstyggð á kúgurunum, sem neyttu ítrustu bragða við að finna hið hugrakka andspyrnufólk. 

En hins vegar ríkir ótti og andstyggð vegna hryðjuverka síðustu ára. 

Um öll fyrrgreind tilfelli gildir hins vegar það, að sé hægt koma í veg fyrir einn tiltekinn möguleika til þess að viðhafa leynd á borð við dulkóðuð skilaboð, muni verða leitað annarra ráð til þess að viðhafa leynd og "fela sig." 

Erum við að sigla inn í tíma, þar sem baráttan milli þess að aflétta leynd og viðhalda leynd verður æ fyrirferðarmeiri. 

Illskeyttir öfgamenn á sviði trúarbragða og stjórnmála hata þá farsæld og friðsæld, sem vestræn mannúðar- og mannréttindastefna getur fær Vesturlandabúum. 

Þeirra takmark er því að eyðileggja þann frið og þá farsæld sem við og nágrannaþjóðir okkar hafa getað byggt upp. 

Ef þeim tekst að eyðileggja friðhelgi einkalífs og persónuvernd, hafa þeir sigrað. 

Það má ekki gerast. 


mbl.is Geta ekki lesið síðustu skilaboðin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margra ára þróun framundan. "Bíllinn bjargar"?

Hugsanlega hefði sjálfkeyrandi bíll, sem lenti í árekstri í Arizona á föstudag, samt lent í þessum árekstri þótt honum hefði verið stýrt af bílstjóra. 

Ástæðan er sú að talið er að bílstjóri hins bílsins, sem lenti í árekstrinum, hafi átt sök á árekstrinum. 

Þar með vaknar spurning um það hvort hinn bíllinn í árekstrinum hefði lent í árekstri ef hann hefði verið sjálfkeyrandi og þar með hlýtt biðskyldu. 

Gallinn á sjálfkeyrandi bílum er sá að þeir munu lenda í árekstrum ekkert síður en aðrir bílar.

Framundan eru ekki aðeins mörg ár sem þarf til að þróa þessa byltingarkenndu tækni að sögn þeirra sem ættu að vita það gerst.

En þar á ofan er líka framundan afar óþægilegt tímabil þar sem bílar, sem ökumenn aka, munu valda árekstrum vegna óvæntra og ófyrirséðra mistaka þeirra. 

Blanda af sjálkeyrandi bílum og venjulegum bílum er erfið að fást við þegar verið er að forrita sjálfkeyrandi bílana og endurbæta búnað þeirra. 

Á meðan eru framundan athyglisverð ár með bílum, sem eru að vísu ekki sjálfkeyrandi, en hafa svo þróað aðvörunarkerfi, að það afstýrir árekstrum. 

Í nýja Suzuki Jimny bílnum, sem er hvorki stór né dýr, er til dæmis kerfi, sem hægir sjálft á bílnum þegar hann nálgast annan bíl, sem er til dæmis fyrir framan hann í umferð, á hættulegan hátt. 

Þetta gæti komið sér vel þegar bílstjóri bíls með þessa tækni væri ekki stanslaust með hugann við aksturinn, til dæmis að kíkja á snjallsíma. 

Á móti kemur sá möguleiki að bílstjórar fari að freistast til að kíkja á símana í trausti þess að árekstravari bílsins bjargi þeim ef hætta skapast.

Í upphafi notkunar bílbelta varð til slagorðið "beltin bjarga!". Nú gætu verið að skapast aðstæður fyrir kjörorðið "bíllinn bjargar!" 


mbl.is Sjálfkeyrandi Uber lenti í árekstri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki "Bandaríki Evrópu."

Evrópusambandið á mikið undir því að vera sveigjanlegt í tengslum aðildarríkjanna eftir því sem aðstæður krefjast. Að þessu leyti er það ólíkt Bandaríkjum Norður-Ameríku, þar sem háð var mannskæð borgarastyrjöld 1861-65 sem í grunninn snerist um það að einstök ríki eða hópar ríkja gætu ekki sagt skilið við sambandsríkið.

 

Niðurstaðan varð sigur stjórnarinnar í Washington og við það hefur setið síðan. 

Síðan 1865 hefur miðstjórnarvaldi í Washington verið svo sterkt að hér á landi hafa margir notað orðið fylki um einstök ríki sem fylki vegna stöðu þeirra innan ríkisheildarinnar. 

En það er útaf fyrir sig röng þýðing, því að Bandaríki Norður-Ameríku heita ekki Bandafylki.

Svo mikið er miðstjórnarvaldið undir einum ríkisfána, að ekkert ríki Bandaríkjanna telst í hópi fullvalda þjóða eða koma til greina að eigi aðild ein og sér að alþjóðasamtökum á borð við Sameinuðu þjóðirnar.

Hið gagnstæða gildir um ESB. Öll aðildarríki þess teljast fullvalda og gjaldgengir aðilar hvert um sig að alþjóðastofnunum og samningum.

En þrátt fyrir þetta er og verður ætíð umdeilanlegt hve náin samvinna og samband aðildarríkja ESB skuli vera.

Nokkrar Evrópuþjóðir innan vébanda EFTA, Íslendingar þeirra á meðal, ákváðu að semja við ESB um svonefnt Evrópskt efnahagssvæði, þar sem reglugerðir og fjórfrelsi ESB næðu út fyrir sambandið, án þess að EES ríkin tækju beinan þátt í starfi ESB sem aðildarþjóðir.

Í viðtali við forsætisráðherra Dana, sem ég átti 2004, sagði hann áhuga Dana, Svía og Finna á því að fá Ísland og Noreg inn í ESB stafa af því, með því myndu Norðurlöndin og Eystrasaltsþjóðirnar sameiginilega eignast fleiri fulltrúa á Evróuþinginu ein einstök stórveldi og áhrif smáþjóðanna í norðaustanverðri álfunni eflast mjög. 

ESB er einn anginn af svonefndri alþjóðahyggju, sem ruddi sér til rúms eftir þær rústir sem hörð þjóðernishyggja ágengra harðstjórna hafði skilið eftir í Evrópu í Seinni heimsstyrjöldinni. 

Marshallaðstoðin, Evrópuþingið, NATO, Kola- og stálsambandið og loks ESB voru áfangar á þeirri vegferð, sem sumir segja að hafi nú beðið skipbrot og sé að líða undir lok.  

Í pistli Páls Vilhjálmssonar segir hann að rússnesk þjóðernishyggja Pútins sé ekki útflutningsvara. 

Þetta held ég að sé misskilningur eða að minnsta kosti umdeilanlegt. Þannig hreifst Hitler upphaflega að fasisma Mussolinis og vildi koma sams konar þjóðernisstefnu á í Þýskalandi, þótt hún yrði háð undir kjörorðinu "Deutschland uber alles!"

Donald Trump hefur ekki fari leynt með aðdáun sína á þjóðernishyggju Pútíns og stefnir að því að kópíera hana í stefnunni "America first!" 

Að því leyti til er stefna Pútíns orðin útflutningsvara. 

Áköf þjóðernisstefna breiddist út fyrir stríð, þar sem einstakir forystumenn einræðisrikja bundust samtökum um útþenslu og yfirráð þótt hver um sig hrópaði kjörorð heima fyrir um að allt ætti að gera fyrir viðkomandi föðurland. 

Á Íslandi tóku þjóðernissinnar, aðdáendur Adolfs Hitlers, upp kópíu af hans stefnu, tóku kjörorð ungmennafélaganna um aldamótin 1900, "Íslandi allt!", og gerðu það á Íslandi að hliðstæðu heróps nasista; "Þýskalandi allt!"

 


mbl.is Undirrituðu nýjan Rómarsáttmála
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. mars 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband