Rétt ályktað.

Það  hefur dregist ansi lengi að olíufélögin komi að málum í innreið rafbíla hér á landi. 

Einn af lykilstöðunum sem setja þyrfti upp hraðhleðslustöð er Hrútafjörður vegna legu hans gagnvart þjóðleiðum í fjórar áttir, til Borgarness, Búðardals, Hólmavíkur og Blönduóss. 

Áður fyrr voru tvö olíufélög með bensínstöðvar í Hrútafirði, en eftir að Staðarskáli var endurnýjaður og byggður á þeim stað, þar sem hann er nú, varð hann einn eftir á svæðinu. Sörli í Staðarskála

Þegar hjólað var á rafhjólinu Sörla fyrir eigin vélarafli eingöngu frá Akureyri til Reykjavíkur í hitteðfyrra var komið við og hlaðið í klukkstund í Staðarskála, og var það líklega í fyrsta skipti sem rafknúið farartæki á leiðinni milli Akureyrar og Reykjavíkur var hlaðið þar og tekið vel á móti þessum óvenjulega viðskiptavini. 

Myndin er tekin við það tækifæri.

Næst var hlaðið hjá Olís í Borgarnesi, á Bjarteyjarsandi í Hvalfirði, og í Olís í Mosfellsbæ og alls staðar góðar viðtökur.Sörli í Olís, Borgarnesi, tölva o.fl.

Á myndinni frá Borgarnesi má sjá, að á þessu hjóli var hægt að hafa meðferðis allt sem til þurfti við að vera í sambandi á netinu, tölvu, myndavélar, hleðslutæki o. s. frv. 

Samt mætti í fljótu bragði ætla að það sé ekki aðlaðandi fyrir fyrirtæki, sem byggir rekstur sinn á notkun jarðefnaeldsneytis, að þjónusta farartæki sem gengur fyrir samkeppnisorkugjafa.

En þetta er ekki svona einfalt. Þegar um bensín eða olíu er að ræða er ekkert sjálfgefið að allir bílar knúnir þeim orkugjöfum stansi til að kaupa eldnsneyti.  

En ef boðið er upp á rafhleðslustöð á bensínstöð, sem er þannig í sveit sett, að hún muni laða til sín alla rafbíla, sem eru ferðinni, er þegar búið að ná inn viðskiptavinum, sem kaupa sér veitingar.

Þess vegna er rétt ályktað hjá N1, sem er í lykilaðstöðu, að slá tvær flugur í einu höggi, gulltryggja viðskipti við ákveðinn markhóp og skapa sér jafnframt gott orðspor fyrir víðsýni með því að fara í samvinnu við ON um uppsetningu hleðslustöðva á helstu þjóðleiðum landsins.  


mbl.is Reisa hlöður við hringveginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lok á gufukatli í Eþíópíu.

Eþíópíumenn þekkja ekkert annað en alræðisstjórnir, og stjórnin, sem nú ríkir þar, er af því sauðahúsi. Íbúar landsins eru 83 milljónir eða aðeins fleiri en í Þýskalandi, en hagkerfi Eþíópíu er álíka stórt og hagkerfi Íslands, þótt íbúarnir séu 270 sinnum fleiri en Íslandi. 

Núverandi valdhafar rekja meira en aldarfjórðung aftur í tímann og hafa verið einstaklega lagnir við að halda völdunum með því að nota aðstæður í landinu sem afsökun fyrir þeim heljartökum, sem þeir hafa. 

Þeir nýttu sér til dæmis átök við Eritreu með því að viðhalda hernaðarástandi vegna átakanna löngu eftir að ástæðan fyrir því hafði horfið. 

Kynnin af landi og þjóð í tveimur ferðum þangað, 2003 ög 2006, voru ekki uppörvandi. 

Flugvél, sem ég hafði átt á árunum 1984-1987, hafði verið seld til trúboðs í Eþíópíu og mér gafst kostur á að fara með henni 2002 um landið. 

Aðeins var leyfilegt að fljúga á innan við tíu flugvélum í þessu stóra landi, sem er tíu sinnum stærra en Ísland. 

Við borgina Arba Minch var stór flugvöllur með heilmikilli flugstöð, að hluta til úr marmara, sem engin umferð var um nema ein og ein stök flugvél, og engin starfsemi var á vellinum. 

Aðeins eitt stórt fyrirtæki er í Eþíópíu, sem talist getur hátæknivætt, en það er Ethiopian Airlines, sem er þjóðarstolt landsins. 

Það er rekið með bandarískri tæknisamvinnu og stjórnarherrarnir gæta þess að koma sér í hvívetna í mjúkinn við Bandaríkin.

Þegar öfgamenn gerðust uppivöðslusamir í nágrannaríkinu Sómalíu fengu eþíópsk stjórvöld bandaríska loftherinn til þess að gera árásir á uppreisnarmenn, svo að þeir ógnuðu ekki með því að fara yfir landamærin til Eþíópíu.

Eftir að hafa brennt sig á "Arabíska vorinu" eru ráðamenn í Bandaríkjunum áreiðanlega tregir til að reyna neitt svipað aftur.

Samt væri full ástæða til þess að líða ekki lengur valdníðsluna sem beitt er í þessu stóra, fjölmenna og merkilega landi, þar sem kristni komst á 700 árum fyrr en á Íslandi og kristin menning, kennd við Kopta, er í hávegum höfð, þótt múslimar séu sterkir í landinu.

Óánægjan kraumar undir í ástandi, sem líkist því þegar þrýstingi í gufukatli er haldið með því að þrýsta lokinu niður. Þess vegna eru neyðarástand og hernaðarástand vopnin, sem stjórnvöldin nota til þess að halda fólkinu niðri.  


mbl.is Áfram neyðarástand í Eþíópíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tómt prump. Djók.

Hér um árið var mælistöð fyrir loftmengun frá Grundartanga fyrir norðaustan staðinn, en norðaustanátt er mjög algeng og oft ríkjandi vindátt á langtímum saman á svæðinu. 

Að sjálfsögðu berst engin mengun á móti vindi, þannig að mælingar á mengun sem barst í átt til Akraness voru ekki framkvæmdar í raun ef þetta voru einu mælarnir. Mælingin var sem sagt tómt prump í þeirra orða fyllstu merkingu. 

Í ofanálag var mengunarvöldunum sjálfum falið að sjá um mælingarnar. 

Ef slíkt er talið sjálfsagt væri það gott skref í sparnaðarátt fyrir ríkið að bifreiðaeigendum sé sjálfum falið að mæla útblástur bíla sinna. 

Nú virðist stefna í það að enginn muni vita hvort yfirleitt kemur nein mengun frá verksmiðju United Silicon í Helguvík af því að mengunarmælingarnar hafi verið tómt prump. 

Það var sem sagt verið að mæla mengun á tímabili þegar ríkjandi vindátt stóð frá byggðinni og enginn möguleiki var á að mengun, sem kæmi frá verksmijunni gæti mælst í Keflavík. 

"Tómt prump" er hér notað sem viðeigandi orðalag þar til annað betra finnst. Kannski orðið djók, sem Jón Gnarr notaði stundum þegar hann var borgarstjóri í Reykjavík.  


mbl.is Mistök í mælingum í Helguvík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. mars 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband