Benedikt lagði línurnar strax.

Benedikt Jóhannesson lagði línurnar fyrir núverandi ríkisstjórn strax fyrstu dagana eftir kosningarnar. Hann sagði tvennt:

1. Viðreisn verður ekki þriðja hjólið á vagni fyrrverandi stjórnarflokka.

2. Það er ljóst af stöðunni eftir kosningarnar að ég ætti að fá umboð til stjórnarmyndunarviðræðna.

Samtímis gerðist þetta:

3. Björt framtíð límdi sig við Viðreisn, svo að eigi varð þar sundur slitið.  

Augljóst var að staða Viðreisnar hægra megin við miðju ylli því að þangað myndu hann og Óttar Proppé halla sér. Aðeins eitt gat komið í veg fyrir það: 

Tveggja flokka stjórn Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna. 

Að sjálfsögðu vildu Sjálfstæðismenn frekar vinna með Viðreisn og Bjartri framtíð en Vinstri grænum af því að í stjórn með Vg yrði að gefa meira eftir heldur en í hægri stjórn.  

Ekki hvað síst ef "villikettirnir" í stjórn með Vg yrðu of margir. Það hefðu þeir orðið ef Vg ætlaði að gera sig "stjórntæka" með aðal andstæðingi sínum. 

Sporin frá árunum 2003-2007 hvað varðaði Samfylkinguna hræddu: Samfó vildi gera sig "stjórntæka" með því að mikill meirihluti þingmanna hennar samþykkti árið 2003 bæði á Alþingi og í borgarstjórn Reykjavíkur hrikalegustu umhverfisspjöll Íslandssögunnar og ávann sér síðan að verða raunverulega stjórntæk í ríkisstjórn Geirs H. Haarde. 

Sú sælutíð entist í aðeins rúmt eitt og hálft ár og endaði með stórfelldasta efnahagshruni í sögu fullveldir þjóðarinnar. 


mbl.is Samstarfið lá í loftinu allan tímann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Litlir eru troðnir undir ef þeir meta stöðuna rangt.

Efnahagsástandið á Íslandi 2008 var ekkert einsdæmi í sögu þjóðarinnar hvað það varðaði að það stefndi í hrun. Hin fyrri skipti voru 1939 og 1948.

1939 varð kreppan mikla dýpst hér á landi vegna hruns mikilvægs fiskmarkaðar á Spáni, sem borgarastyrjöldin þar olli. 

Sagt var að í raun ætti hinn breski Hambrosbanki Ísland, svo mikið skulduðum við þar.

Hitler bað um aðstöðu hér á landi fyrir flug Þjóðverja yfir Atlantshafið, en þáverandi flugmálaráðunautur íslensku ríkisstjórnarinnar, Agnar Koefoed-Hansen, réði eindregið frá því að samþykkja þessa beiðni, því að það myndi gera óhjákvæmilegt að Ísland lenti strax í stríðsátökum, sem vaxandi stríðshætta gerðu líkleg. 

Það vakti athygli erlendis þegar Íslendingar gerðust svo djarfir að hafna bón Hitlers, einkum vegna þess að viðskiptasambönd okkar við Þjóðverja voru mikilvæg. Vafalítið hefur tangarhald Breta á fjárhag okkar hins vegar skipt miklu um þessi mál og það, hve Bretar töldu Ísland skipta miklu máli fyrir öryggishagsmuni sína á Norður-Atlantshafi. Hambrosbanki tróð okkur ekki undir, þótt við værum örþjóð.

Á árunum 1945-1948 sólunduðu Íslendingar svo mjög stríðsgróðanum, að þeir þrír stjórnmálaflokkar, sem höfðu myndað Þjóðstjórn 1939 vegna kreppunnar þá, mynduðu aftur ríkisstjórn 1948, sem sárbændi Bandaríkjamenn um björgunaraðstoð Marshallhjálparinnar. 

Ef Ísland hefði ekki að verið jafn gríðarlega mikilvægt hernaðarlega og það var í upphafi Kalda stríðsins, hefði Marshallaðstoð ekki verið veitt þeirri þjóð í Evrópu, sem hafði ein Evrópuþjóða stórgrætt peningalega á stríðinu.  Og meira að segja fengum við stærra framlag miðað við stærð þjóðarinnar, en nokkur önnur þjóð. 

Í Þorskastríðunum átti þetta mikla hernaðarmikilvægi stóran þátt í því að fá Bandaríkjamenn til að halda aftur af Bretum varðandi beitingu fallbyssna herskipa þeirra. Við nýttum okkur það og Bretar gátu ekki neytt aflsmunar og troðið okkur undir. 

Hér hafa verið nefnd þrjú dæmi um það að hernaðarmikilvægi Íslands gerði Íslendingum kleyft að fá Bandaríkjamenn til að bjarga okkar málum. 

En eftir lok Kalda stríðsins gjörbreyttist þessi staða. Íslenskir ráðamenn héldu hins vegar að það væri hægt í fjórða og fimmta skiptið að nýta sér stöðu, sem var ekki lengur fyrir hendi. 

Þeir héldu að Bandaríkjamenn myndu gera það fyrir okkur að hafa áfram her sinn á Keflavíkurflugvelli upp úr aldamótunum og bjarga okkur frá gjaldþroti 2008, sem var því að kenna, að í fáheyrðri græðgisbólu höfðum við búið til íslenskt fjármálakerfi sem var margfalt stærra en allt þjóðarbúið. 

Hvorugt gerðist, hvorki að hafa herinn áfram né að bjarga okkur í bankakreppunni á sama hátt og stærri þjóðum, en það sýnir firringu margra hér að halda, að við gætum rétt si svona reddað þessu sjálfir án aðkomu AGS, sem bauðst okkur, og Bandaríkjamenn studdu þó.

Matið hafði verið rétt 1939, 1948 og 1958/1972/1975, en var rangt 2000 og 2008.  


mbl.is Sýnidæmi um land sem átti ekki að bjarga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Virkilega ekki orð um húsnæðismálin í stjórnarsáttmálanum?

"Yfir kaldan eyðisand  /

einn um nótt ég sveima. /

Nú er horfið Norðurland, /

nú á ég hvergi heima."

Þessi kviðlingur hefur verið Íslendingum kunnur og fangað huga margra, enda er þung áhersla á síðustu setninguna: "Nú á ég hvergi heima." 

Hún vísar til frumþarfar fólks, að hafa þak yfir höfuðið, annað af tveimur skilyrðum fyrir mannsæmandi lífi, "matur og húsaskjól."

Í tengdri frétt á mbl.is ræða reyndir fasteignasalar um það að þeir muni ekki eftir öðru eins ástandi á húsnæðismarkaðnum í áratugi. 

Hin elstu okkar muna eftir húsnæðisskortinum eftir stríðið þegar fólk hafði þyrpst til Reykjavíkur, en líklega þarf að fara alla leið þangað aftur í tímanum, meira en 70 ár, til að finna dæmi um meiri húsnæðiseklu en nú ríkir. 

Ég ólst upp í húsnæði, sem foreldrar mínir keyptu fyrir uppgrip af endalausri vinnu sem stríðárin buðu upp á, en til þess að geta komist yfir húsnæðið, sem var hæð og ris, þurfti að leigja út sjö af átta herbergjum og láta sex manna fjölskyldu okkar sofa í einu herbergi. 

Neita sér um "munað" eins og síma, ísskáp o. s. frv. 

En tæpum áratug síðar sást árangur af húsnæðisstefnu, sem meðal annars leiddi af sér byggingu heils hverfis í Reykjavík, svonefnds Smáíbúðahverfis sunnan við austasta hluta Sogavegar. 

Í viðamiklum kjarasamningum 1964 og 1965 var samið um húsnæðisátak, sem meðal annars fæddi af sér Breiðholtshverfið. 

Ríkisstjórnum þessara áratuga voru mislagðar hendur um ýmsa hluti eins og gengur, en húsnæðismálin voru samt ofarlega á baugi, jafnt hjá sveitarfélögum sem ríkisvaldinu. 

Þess vegna vekur það spurn þegar horft er upp á ráðleysið og uppgjöfina, sem nú ríkir í þessum málum. Er virkilega ekki orð um húsnæðismálin í stjórnarsáttmálanum? 

Er virkilega svo mikil ánægja með ástandið, sem framundan er, að þeir, sem reyna að benda á þörfina á úrræðum eru sakaðir um að predika "ónýta Ísland" og að draga úr kjarki til aðgerða með "nöldri"? 

Með umræðu af því tagi er hlutunum snúið við og hvatt til þess að loka augunum fyrir brýnu viðfangsefni og láta sem engin þörf sé fyrir aðgerðir. 

 

 


mbl.is Fjórða tilboði hafnað og brast í grát
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fegurðin í ófærðinni.

Það er eitt af einkennum jólalaga og jólasálma að það er næstum því krafa að það sé snjór á jörðu, helst mjög mikill. Þó hafa jarðbönn fyrir fénað ekki verið neitt eftirsóknarvert fyrir bændur og ófærð á vegum heldur ekki nú á dögum.

Handmokstur á snjó er að vísu hressandi hreyfing, en ekki mjög eftirsóknarverður fyrir bakveikan sem hefur ekki jafnað sig til fulls eftir axlarbrot í fyrravetur, ný axlarmeiðsl í apríl, og hálsmeiðsl fyrir næstum 40 árum. Range, Vitara, Fox

En jöklajeppamenn kætast og nú fer að hefjast helsti ferðatími þeirra.

Um daginn hringdi í mig blaðakona til að bera undir mig þann orðróm, að ég ætti það sem hún kallaði "Kötlubíl". 

Þótti henni það að vonum í hæsta máta undarlegt.Fox,Honda PCX, Subaru

En ástæðan er sú, að frá því að ég hóf störf sem fréttamaður hefur það verið keppikefli mitt að hafa aðgang að nothæfum farartækjum til hvers kyns ferða og geta farið af stað á viðeigandi farartæki með sem allra skemmstum fyrirvara. 

Ein leiðin til að tryggja slíkt er að eiga þessi farartæki sjálfur. Að þessu leyti lít ég á mig sem eins konar frétta-slökkvimann og bílana sem frétta-slökkvibíla.

Fjárráð takmarka möguleikana á því að kosta miklu til enda fékk ég þá nánast alla fyrir slikk. Þeir eru allir fornbílar nema einn, Suzuki Grand Vitara dísil, árgerð 1998 á 35 tommu dekkjum, 19 ára gamall, ekinn 257 þús km. Hann er svo léttur og sparneytinn að hann hefur,  samkvæmt flotformúlu, sem ég hef búið til, svipað flot og léttir 38 tommu bílar.Snjóhreinsun, 2 bílar

Hann er hins vegar "Kötlubíll nr.2" af því að það hefur komið fyrir að yfirvöld hafa takmarkað aðgengi að ákveðnum svæðum við bíla á 38 tommu dekkjum, og þess vegna er "Kötlubíll nr.1", 44 ára gamall Range Rover á 38 tommu dekkjum, með um það bil 40 ára gamalli Nissan Laurel dísilvél.

Hann kostaði 220 þúsund krónur fyrir 14 árum og hefur reynst mjög vel. En aðeins farið í sex ófærðar/jöklaferðir á þessum árum og eingöngu notaður í því skyni.

"Kötlubíll nr. 3" er síðan Suzuki Fox árgerð 1986. Hann er með 101 hestafls GTI vél og á 32ja tommu dekkjum, rauður á næstefstu myndinni.SnjómoksturRange Rover í snjó feb 17

En af því að hann vegur aðeins þriðjung af því sem flestir 38 tommu bílar gera, flýtur hann jafnvel og þeir og raunar betur í þeim aðstæðum sem eru algengastar á hájöklum.

Þessi minnsti jöklabíll heims er í miklu eftirlæti hjá mér, búinn að vera til taks í 15 ár og farið í tvo nokkurra daga jöklaleiðangra á Vatnajökul með Jöklarannsóknarfélagi Íslands. 

"Kötlubíll nr. 4" er Fox árgerð ´88 blæjubíll sem er á 30 tommu, en stendur til að setja á 31 tommu og mun þá fá flot á við nýjustu 38 tommu jöklajeppana.  

Þegar mikli snjórinn féll á dögunum miðaðist snjómoksturinn við það að moka fyrst út bíl númer eitt og síðan bíl númer tvö.  Þar á eftir komu bíll konu minnar og létta vespuvélhjólið mitt, Honda PCX, sem stendur þversum í bílastæði og er erfitt að sjá á næstefstu myndinni, því að aðeins glyttir í annan spegilinn upp úr snjónum og í farangursboxið, sem sýnir vel hvað snjórinn féll lóðrétt, því að það er lóðréttur snjóturn sem er uppi á því! 

Myndirnar hér á síðunni eru flestar teknar morguninn þegar snjókomuna stytti upp, og á einni þeirra er Range Roverinn orðinn laus og farið á honum að bíl nr.2 til að hefja mokstur þar. 

Tvær myndirnar voru teknar fyrr til þess að sýna "þarfasta þjóninn", kústinn. 

Næstsíðasti snjómoksturinn var í gær til að losa flugvél úti á Reykjavíkurflugvelli og þessari snjómokstursviku lauk síðan í dag þegar svarti blæju-Foxinn var losaður, en mokstursmaður, sem fór um bílastæðið í fyrradag, var svo hugulsamur að ýta snjó af hluta af stæðinu yfir það svæði sem ég hafði mokið upp við bílinn og hrúgaði hjólaskóflumaðurinn snjónum upp með bílstjórahlið jeppans! 

Á facebook er lifandi mynd af Range Rovernum sem sést á ferðinni á neðstu ljósmyndinni. 

  


mbl.is Hálka á fjallvegum og útvegum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. mars 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband