"Styður þú þrælahald náungans og að hommar og ríkir menn fari til helvítis?"

Sjá má, að vaxandi ýfingar með trúarhópum leiða til æ lágkúrulegri umræðu. Þetta má sjá í tengdri frétt á mbl.is um spurningar, sem pressað er á múslima að svara.

Og viðbrögð ýmissa manna, sem telja sig sannkristna, sýnir velþóknun þeirra á þessu. 

Ef ég væri spurður svona spurninga af því að ég er skráðður í kristnu trúfélagi, myndi ég áskilja mér rétt til að ráða því hvort ég svaraði spurningum af þessu tagi, því að ljóst væri, að tilefni spurninganna væri valdar setningar úr Biblíunni í því skyni einu til að sverta mig og trúarbrögð mín. 

Þar væri um að ræða boðorðið um að girnast ekki uxa, þræl eða ambátt náunga þíns, - heldur ekki konu hans né neitt annað, sem náungi þinn á.  Sem sagt: Forsendan fyrir þessu boðorði er að uxinn, þrællinn, ambáttin og konan séu bein eign náungans.

Sömuleiðis sagði Kristur að auðveldara væri fyrir úlfalda að komast í gegnum nálarauga heldur en ríkan mann að komast inn í himnaríki. Sem sagt: Ríkt fólk fer til helvítis.

Og ekki þarf að fara mörgum orðum um hvað verður um samkynhneigða samkvæmt völdum setningum úr trúarritinu.

Er svona umræða virkilega talin vera á háu plani? 

Múslimar eru spurðir hvort þeir berji konurnar sínar af því að það sé nefnt í Kóraninum.

Með sama hætti mætti spyrja mig, hvort ég umgangist konu mína eins og hvert annað húsdýr, lemji hana með svipu eins og húsdýrið af því að eignarhald á húsdýri og konu er nefnt í sömu setningunni.

Eða lemji konuna eins og íslenskir karlmenn hafa verið fullfærir um án þess þurfa Kóran til þess.

Eða hvort ég styðji það að konur verði sviptar málfrelsi, af því finna má með lúsarleit setningu þess efnis í Nýja testamentinu. 

Múslimi er spurður að því hvort hann sé tilbúinn manndrápa með tengingu við Kóraninn.

Ég gæti verið spurður á móti hvort ég styðji það að kjarnorkuvopnabúr kristinna þjóða, einu þjóðanna sem telja sig verða að geta eytt öllu lífi á jörðinni, verði notuð til þess arna, eða hvort það nægi beita kjarnorkuvopnum að eyða öllum múslimum.  

Gæti líka verið spurður að því hvort ég sé tilbúinn í stríð til að drepa 50 milljónir manna, af því að kristnar þjóðir hefðu drepið þennan fjölda í tveimur heimsstyrjöldum.  

 

   


mbl.is „Lemur þú konuna þína?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Norðmenn þeysa langt á undan okkur.

Fréttirnar frá Noregi um að meira en helmingur af sölu nýrra bíla þar í landi séu raf- og tengiltvinnbílar sýnir vel hve órafjarri við erum enn frá því að taka forystu á heimsvísu í því að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda og minnka kolefnisfótspor okkar meira en nokkur önnur þjóð. 

Að vísu hillir nú undir að dreift verði hraðhleðslustöðvum og venjulegum hleðslustöðvum um landið, en sala raf- og tvinntengilbíla er enn langt á eftir því sem er í Noregi. 

Ég var að kynna mér lauslega ástandið eins og það er núna með því að skoða möguleikann á því að aka á rafbíl milli Reykjavíkur og Egilsstaða í gegnum Akureyri. 

Á þeim rafbíl, sem ég hafði til skoðunar, og gæti verið á verði, sem "litli maðurinn" ræður við, verður að vera hægt að komast í rafmagnstöflu sem er þolir 16 amper. 

Hvergi er hægt að finna neinn lista yfir slíka staði þannig að næsta skref, ef tími vinnst til, er að fara hringja út og suður, norður og austur til að komast að því hvort það er á annað borð mögulegt að komast annað hvort norðurleiðina eða suðurleiðina á rafbíl milli Reykjavíkur og Egilsstaða. 

Á meðan fjarlægjast Norðmenn okkur hratt í þessum málum. 


mbl.is Helmingur raf- eða tvinnbílar í Noregi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"...ekkert öðruvísi en hjá nasistum."

Erdogan Tyrklandsforseti hefur rekið hundruð dómara úr embættum sínum og þúsundir lögreglumanna. 

Viðbrögð hans við uppreisnartilraun í fyrra fela í sér einræðistilburði, sem hafa valdið miklum áhyggum í Evrópu. 

Hann stefnir leynt og ljóst að forsetaræði í Tyrklandi í stað þingræðis og hefur ráðist að fjölmiðlum.

Það kemur því úr nýstárlegri átt þegar hann sakar þýsk sveitarfélög um að beita aðgerðum, sem séu "ekkert öðruvísi en hjá nasistum."

Með því að tala svona og nota þessa samlíkingu lítilsvirðir hann minningu þeirra milljóna sem nasistar kúguðu og myrtu á sínum tíma á ósambærilegum tímum við þá sem nú eru í Þýskalandi.

Erdogan reynir með þessu að leiða athyglina frá eigin ofríkistilburðum og því sem hans eigin landsmenn gerðu í þjóðarmorðinu á Armenum í Fyrri heimsstyrjöldinni.  


mbl.is Ummæli Erdoğan óásættanleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Furðufyrirbæri, pólitísk jarðsprengja og því aflagt í frumvarpi stjórnlagaráðs.

Þegar ég var í lagadeild Háskólans fyrir 55 árum undraðist ég og fleiri laganemar ákvæðin um landsdóm í stjórnarskránni og fannst þau furðuleg, því að í því ferli, sem þar var stillt upp, var Alþingismönnum gert að greiða atkvæði um ákærur hverjir á hendur öðrum, sem gætu orðið til sakfellingar og refsingar. Slíkt væri ekki líklegt til góðs árangurs í okkar litla þjóðfélagi.

Eftir því sem árin liðu varð ég æ fráhverfari því að hafa ætti þetta ákvæði eins og einskonar miltisbrand í stjórnarskrá, sem gæti vaknað upp og valdið óskunda hvenær sem væri.

Aðrir töldu að þetta gerði ekkert til frekar en sumt annað forneskjulegt í stjórnarskránni, - þessu hefði aldrei verið beitt og komin væri hefð fyrir því. En hvers vegna þá að hafa ákvæði í stjórnarskrá ef því yrði aldrei beitt?  

Alþingi er vinnustaður, þar sem þingmenn ólíkra flokka verða oft sessunautar árum saman og samstarfsmenn og vinir, þrátt fyrir ólíkar skoðanir, og aldeilis undarlegt ef menn héldu að það yrði til góðs að þeim væri att saman með lögboði til að berast á pólitískum og sakamálalegum banaspjótum. 

Í umræðum hjá stjórnlagaráði var rætt fram og aftur um þetta sérkennilega ákvæði sem mér fannst ekki ganga upp og mælti gegn.

Niðurstaðan varð sú að styrkja frekar önnur almenn ákvæði stjórnarskrár um ábyrgð stjórnmálamanna og embættismanna heldur en að hafa áfram þá jarðsprengju eða miltisbrand í stjórnarskrá, sem ákvæðið forna um landsdóm var og er raunar enn, því miður. 

Ýmislegt fleira er í núverandi stjórnarskrá, sem hefur lengi þurft að lagfæra, en Alþingi, þrátt fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu 2012, heldur áfram við lýði í öþökk þess drjúga meirihluta þeirra, sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni og kröfðu Alþingi um umbætur fyrir bráðum fimm árum. 


mbl.is Vill leggja landsdóm af
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úrgangur er vaxandi ógn.

"Lengi tekur sjórinn við" var lengi sagt, en nú er það að verða úrelt. Mannkynið umgengst hafið eins og endalausa ruslakistu, sem er rangt. 

Ekki þarf annað en að sjá fuglana á Midway úti í miðju þess úthafs, sem þekur hálfa jörðina, til þess að fyllast hryllingi yfir því sem plastúrgangur og hvers kyns annað drasl frá iðnaði jarðarbúa leiðir í æ ríkari mæli yfir lífríkið. 

Súrnun sjávar og minnkandi æti auk eyðileggingar á kóralrifum er óumdeilanlega af mannavöldum, en fellur enn í skuggann af deilunum um loftslagsvandann. 

Í sambandi við hann hafa sumir gælt við það að láta kjarnorkuver leysa orkuvandann. En þá gleymist, að ef það ætti að verða eina lausnin, myndi það úraníum, sem þarf til, ganga til þurrðar mun hraðar en flestir hafa ímyndað sér. 

Og margfaldur úrgangur frá kjarnorkuverunum yrði sívaxandi vandamál. 

Á heimskautasvæðunum eyðast mörg skaðleg efni margfalt hægara en á hlýjari svæðum. Þungmálmar og eitruð efni eins og PCB hafa komist inn í fæðukeðjuna.  

Bandaríkjaher hefur oft gengið hræðilega illa um á þeim stöðum þar sem hann hefur verið á norðurslóðum. 

Í ratsjárstöðinni á Straumnesfjalli var úrgangi einfaldlega steypt fram af fjallsbrúninni þegar hún var starfrækt þar. 

Mikil málaferli voru í gangi út af ferlegri umgengni hersins við stöðina á Heiðarfjalli á Langanesi og umgengnin við herstöðvarnar á Grænlandi hefur löngum verið gagnrýnd harðlega. 

Ástandið í fjörum landsins er víða ferlegt varðandi hvers kyns úrgang og drasl, sem þar safnast saman. 

Íslenskur skipstjóri á súrálsflutningaskipi, sem rætt var við í blaði álversins í Straumsvík fyrir nokkrum árum, og hefur margra áratuga reynslu af siglingum um öll heimshöfin, sagði að hvergi í heiminum væru skipstjórar eins óhultir við að skola hvers kyns kjölvatni og spilliefni í sjóinn og hér. 

Víða annars staðar, jafnvel í Afríku, lægi missir skipstjórnarréttinda og jafnvel fangelsisdómur við slíku. Ekkert slíkt hér. 

Óli kommi, vitavörður á Horbjargsvita, sagði að auðvaldið myndi drekkja sér í eigin drullu. 

Þegar kommúnisminn féll í Austur-Evrópu, kom hins vegar í ljós, að í þeim löndum voru menn víða komnir miklu lengra í að drekkja sér í eign drullu, svo slæmt var ástandið umhverfismálum þar víða. 

Í skýrslu um ástand jarðvegs skiluðu þrjár þjóðir eystra auðu og reyndu þar með að koma sér hjá því að upplýsa um slæmt ástand hans. 

Það gerðum við Íslendingar líka. Þokkalegur félagsskapur!

Og við létum sem upplýsingar skorti, þótt ÓlafurArnalds, hefði gert rannsókn á þessu ástandi, sem fékk umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs! 


mbl.is Rannsaka yfirgefna herstöð á Grænlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. mars 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband