Óbyggðirnar kalla.

Það eru forréttindi að fá að vakna við fyrstu skímu morgunsólar á hálendi Íslands þegar fyrstu geislar sólarinnar byrja að roða hæstu tinda fjallanna í vetrarbúningi í heiðskíru veðri, logni og tíu stiga frosti.DSC08346

Myndirnar hér á síðunni voru teknar í fyrsta jöklajeppaferðalagi mínu inn á hálendið í fimm ár í samfloti við nokkra félaga úr Ferðaklúbbnum 4x4. 

Eftir þetta lengsta hlé á slíkum ferðum mínum í 25 ár, var það óviðjafnanlegt að rísa upp við dogg í framsætinu á Súkkunni, sem ég var á og svaf í, og sjá hvernig morgunsólin líkt og kveikti í tindum Kerlingafjalla eins og þegar ljós er kveikt á kertum.

Síðan breiddi sólarloginn niður eftir fjallshlíðunum.

Brátt voru dýrðin og dásemdin í draumkenndri birtu til austurs og suðurs búin að breiða sig svo langt sem augað eygði, allt austur um Hágöngur í austri suður til Heklu.DSC08349

Í ferð með leiðangri yfir Grænlandsjökul undir stjórn Arngríms Hermannssonar 1999, var ég skikkaður til að kaupa sérstakan svenpoka, sem einn gæfi möguleika á að sofa þar í tjaldi í 30 stiga frosti.

Í fyrrinótt sem oftar kom þessi svefnpoki í góðar þarfir.

Eftir myndatökur af sólarupprásinni milli klukkan 5:20 og 7:20, var sólin farin að hita bílinn upp og hægt að leggja sig aftur um stund og njóta þessarar hlýju frá móður allrar orku, áður en lagt yrði af stað.

Hér á árum áður fóru slæmar sögur af ölvun og umgengni hjá sumum, sem voru á ferð á fjöllum.

Nú eru svona ferðir orðnar margfalt fleiri en áður var og njóta vaxandi vinsælda ferðamanna.DSC08361

Þess vegna er það gott ef lögregla og yfirvöld fylgist vel með, ekki aðeins til að haft sé skikk á hlutunum, heldur er það almennt öryggisatriði.DSC08390

Þetta helgarferðalag markaði upphafið á kvikmyndatökum fyrir þáttaröðina Ferðastiklur, sem unnið verður að í sumar.    


mbl.is Stöðvuðu þrjá jeppa á hálendinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fagrar hugsjónir, - brostnar vonir enn og aftur?

Kapítalisminn eða frjálshyggjan og sósíalisminn (félagshyggjan) er háleitar og fagrar hugsjónir á blaði. 

Í frjálshyggjunni er frelsi einstaklingsins boðað sem leið til að hámarka arðsemi þjóðarbúsins í því augnamiði að gróðinn dreifist um þjóðarlíkamann frá hinum ríku, bæði beint frá þeim sjálfum, og einnig í gegnum sanngjarnt skattakerfi. 

Varnagli er sleginn: Frelsi eins endar þar sem frelsi annars byrjar. 

En heimurinn, sem við blasir, sýnir því miður vaxandi auðsöfnun örfárra á kostnað milljarða fólks. Peningar eru nefnilega vald í sjálfu sér en vald spillir, og ef það er mikið, gerspillir það, eins og þegar búið er að blanda hina eitruðu blöndu stjórnmál-efnahagsmál líkt og gert hefur verið í efnahagsmálum heimsins.

Það var gert hér í byrjun aldarinnar með þekktum afleiðingum.

Skylt er að geta þess að margt ríkt og efnað fólk lætur gott af sér leiða eftir föngum og veitir þörfum málefnum ómetanlega stuðning, einnig við stuðning við andóf gegn spillingu.

En ófarir, tjón og misrétti vegna græðgi og skammtímahugsunar stinga í augun.

Sósíalisminn lítur líka afar vel út á pappírnum. Göfugar, háleitar hugsjónir um jöfnuð, mannréttindi, réttlæti og samtakamátt fjöldans. En stærsta tilraunin með alræði öreiganna var einhver dýrkeyptasta tilraun sögunnar sem kostaði tugi milljóna manna lífið.

Þar sannaðist að völd spilla, og mikil völd gerspilla. Valdafíknir einstaklingar nýttu sér aðstöðuna sem skapaðist, til að ryðjast til alræðis, sem ekki gat staðist nema með grimmri kúgun og fjöldamorðum.

Langflestir fylgjendur þess að allir leggi af mörkum eftir getu og fái til baka eftir þörfum, er hugsjónafólk með trú á hið góða í lífinu.

Sennilega er það skýringin á miklum flokkadráttum meðal vinstri manna og stofnun nýrra og nýrra flokka til þess að lagfæra það sem miður fer í vinstri flokkunum á hverjum tíma.

Rétt er að geta þess, að á meðal ráðamanna í félagshyggjuflokkum hafa alla tíð verið miklir og magnaðir hugsjónamenn. En of margir hafa orðið valdafíkn og sérhyggju að bráð.  

 

Grundvallaratriðið varðandi sífelldar ófarir í framkvæmd stjórnmálastefna er sá, að báðar fyrrnefndar stjórnmálastefnur, kaptítalisminn og sósíalisminn, gera ráð fyrir fullkomnun manna og óskeikulleika, sem því miður er ekki ríkjandi í mannlegu eðli.  

Nú stendur til að gera svipað og gert var fyrir 79 árum, að sameina vinstri menn í einum sósíalistaflokki. 1938 hét flokkurinn Sameiningarflokkur alþýðu - sósíalistaflokkurinn.

Nú er aftasti hluti gamla nafnsins látinn nægja, enda hafa tilraunir til að sameina vinstri menn í einum flokki mistekist árin 1938, 1956, 1970, 1987, 1994 og 1999.

Það voru fagrar hugsjónir sem ólu af sér brostnar vonir.

Það er kannski helst á Norðurlöndum þar sem blandað hagkerfi er við lýði, að skásta stjórnarfyrirkomulagið hefur verið.

Um það má segja svipað og sagt var um vestrænt lýðræði á sínum tíma: Það er skelfilega ófullkomið og gallað en það hefur því miður ekki fundist neitt betra.  


mbl.is Sósíalistaflokkur verði stofnaður 1. maí
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jónas frá Hriflu fór ekki í sérframboð.

Margir íslenskir stjórnmálaforingjar hafa í gegnum tíðina farið úr flokkum sínum og stofnað ýmist sérframboð eða aðra flokka. 

Dæmi: Tryggvi Þórhallsson, forsætisráðherra í stjórn Framsóknarflokksins 1927-32. Stofnaði Bændaflokkinn sem bæði varð smár og lognaðist útaf. 

Héðinn Valdimarsson vildi sameina krata og komma og stofnaði með kommunum sósíalistaflokkinn. 

Komst upp á kant við þá vegna árásar Rússa á Finna 1939-40 og fór áhrifalaus út úr íslenskum stjórnmálum. 

Hannibal Valdimarsson lék svipaðan leik og Héðinn 1956 og stofnaði Alþýðubandalagið með kommunum. 

Fór úr Alþýðubandalaginu með sínu fólki 1970-71 og stofnaði Samtök frjálslyndra og vinstri manna, sem varð skammlífur flokkkur. 

Vilmundur Gylfason gekk úr Alþýðuflokknum, stofnaði Bandalag jafnaðarmanna og bauð fram í kosningunum 1987. Það framboð fékk langt í frá það fylgi sem Vilmundur hafði vonast til og lognaðist út af. 

Albert Guðmundsson gekk úr Sjálfstæðisflokknum 1987 og stofnaði Borgaraflokkinn, sem fór svipaða leið og framboð Vilmundar. 

Jóhanna Sigurðardóttir fór úr Alþýðuflokknum 1994 og stofnaði Þjóðvaka sem rann inn í Samfylkinguna fimm árum síðar. 

En öðru máli gegndi um Jónas Jónsson frá Hriflu, sem var felldur úr formannsstóli Framsóknarflokksins 1944. 

Hann sat áfram á þingi fyrir flokkinn  til 1949 en var einfari í stjórnmálum þrátt fyrir það og áhrifalaus að mestu í flokknum. 

Ofangreint sýnir hve erfitt það hefur verið fyrir íslenska stjórnmálaforingja að lenda undir í flokkum sínum, hvort sem þeir hafa stofnað sérframboð eða ekki.  


mbl.is Ætlar ekki að yfirgefa Framsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. apríl 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband