Skilur forsetinn ekki að fleira geti ráðið gjörðum fólks en peningar?

Donald Trump forseti Bandaríkjanna virðist ekki skilja, að neitt annað en peningar geti ráðið því að fólk taki þátt í mótmælum gegn honum. 

Honum er að vissu leyti vorkunn, því að allur ferill hans og þar með viðhorf eru mótuð af valdi fjármagns og peningavafstri. 

Forsetanum er líklega enn ómögulegra að skilja, að fólk leggi framlög úr eigin vasa til slíkra aðgerða. 

Og ómögulegt að skilja að meðal þess meirihluta kjósenda, sem greiddu Hillary Clinton atkvæði, þótt ósanngjarnt kjörmannakerfi kæmi í veg fyrir réttlát úrslit, skuli vera fólk, sem leggur ekki hundflatt rófuna niður og hættir að nýta sér borgaralegan rétt sinn til andófs.  


mbl.is Hver borgaði fyrir mótmælin spyr Trump
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Harður heimur vegna hruns í diskasölu.

Í nýlegu viðtali við Eið Arnarson formann félags hljómplötuútgefenda kom fram að tæknibylting og breytt viðskiptaumhverfi leiki tónlistarfólk grátt og skapi nýjar áskoranir fyrir það. 

Þótt cd-diskurinn sýnist ekki fyrirferðarmikill er nú svo komið, að það er kostur að í fartölvum sé því sleppt að hafa diskaspilara í þeim. 

Ég hef til dæmis beðið eftir því í mörg ár að á markað kæmi tölva, sem væri handhægari en ódýrustu tölvurnar hafa verið, en samt með nógu stórt lyklaborð til að "blind fingrasetning" gæti notið sín með sínum mikla hraða. 

Vegna bilunar í tölvu minni stóð ég frammi fyrir því fyrir skemmstu að þurfa að leita að smærri tölvu til að leysa hana af hólmi, eða í það minnsta að geta verið í notkun samhliða henni, því að á okkar tímum er óráð að treysta á aðeins eina tölvu. 

Bara lítil "smábilun" eins og að pinni í heyrnartóli brotni inni í tölvunni, kostar tölvumissi á meðan gert er við hana. 

Brot úr pinna inni í tölvunni gerir hana gagnslausa við að spila tónlist í henni í gegnum hátalara. 

Við snögga skoðun kom í ljós að komin var ný og miklu handhægari, mjög ódýr tölva á markaðinn, sem var meira en tvöfalt minni en sú gamla, en samt með nægilega stóru lyklaborði, meðal annars með því að sleppa diskaspilaranum. 

Nú orðið þarf að panta diskaspilara sérstaklega með nýjum bílum og hrunið á markaðnum fyrir hljómdiska (plötusalan) síðustu misseri hefur verið mikið og þungbært. 

Spotify er miðað við stærð milljónatuga þjóða og því sáralítið sem íslenskt tónlistarfólk fær þar. 

Tónlistarfólkið hefur því orðið að snúa sér að því sem aðalatriði í afkomu sinni að koma fram á tónleikum og nýta nýjar aðferðir við að afla sér tekna með því að gera nýjar plötur.

"Léleg plötusala veitir listrænt frelsi" er táknræn fyrirsögn á tengdri frétt á mbl.is. 

Eftir sem áður hefur hljómdiskurinn þó þann kost að geta verið eiguleg gjöf í vönduðum umbúðum með góðum textaheftum.   


mbl.is Léleg plötusala veitir listrænt frelsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar langalangamma var skráð inn í fyrsta bekk grunnskólans.

Það er ekki fráleitt að þeir, sem vilja vestræna þjóðfélagsgerð feiga með því að beita hryðjuverkaógn, séu ánægðir með árangur sinn í að valda ótta og móðursýki í vestrænum samfélögum þegar þeir frétta af því að þriggja mánaða gamalt barn hafi verið úrskurðað sem hryðjuverkamaður og meinað að ferðast til Bandaríkjanna, og að í ofanálag hafi barnið verið boðað í viðtal hjá bandaríska sendiráðinu!  

Ástæðan var fáránleg, sem sé sú að afi barnsins hafði óvart hakað við reit í ferðaheimild fyrir barnið þar sem spurt var um tengsl við hryðjuverkamenn. 

Afinn spyr réttilega hvort von sé til þess að nokkur hryðjuverkamaður fari að gefa tengsl sín við hryðjuverkasamtök upp á svona blaði, og hvers vegna hafi ekki verið auðséð að um mistök hefði verið að ræða. 

Atvikið minnir á það þegar 106 ára gömul íslensk kona fékk skipun um það hér um árið að mæta í fyrsta bekk grunnskóla. 

Þá mátti halda að erfitt væri að toppa þessi mistök, en hryðjuverkahvítvoðungurinn slær metið. 


mbl.is Smá mistök hjá afanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. apríl 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband