Afkoman í ársfjórðungsuppgjöri ræður för.

Örfáir eigendur helmings auðs mannkyns í hlutabréfum stærstu fyrirtækjanna miða alla sýn sína við afmkomutölurnar í ársfjórðungsskýrslunni eða í mesta lagi í skýrslum síðasta hálfa árs. 

Gott dæmi um gildi afkomuskýrslnanna hjá stórum sem smáum fyrirtækjum var stórfellt verðfall á hlutabréfum Icelandair á dögunum. 

Merkilegt er hve lítið er minnst á súrnun sjávar af völdum útblásturs koltvísýrings. Þó er engin leið að deila um þessa súrnun enda svo sem ekki deilt um hana, heldur ríkir eins konar kæruleysisþöggun um hana. 

Eru þó stór kóralrif byrjuð að hrynja og lífríki að skaðast. En umræðan er á því stigi, að ekki sé vitað hve mikil hin neikvæðu áhrif hafi.  Varðandi þau skal náttúran ekki njóta vafans og er þó um að ræða ástand í hafinu, sem engin leið verður að snúa til baka, ef illa fer. 

Að meiri súrnun sé við Ísland en annars staðar vakti nákvæmlega enga athygli í fréttum síðasta fimmtudag, en ratar nú inn á mbl.is eins og vegna skammvinns gúrkuástands, sem stundum kemur upp á sunnudögum. Hafi mbl.is þökk fyrir að verða til þess að leiða hana fram á þessum dögum stanslausra frétta af viðskiptabrellum Ólafs Ólafssonar fyrir 15 árum. 

En það er svo sem engin furða að súrnun sjávar sé sjaldan nefnd, því að áhugasvið valdamestu manna heims pg voldugustu þjóðanna er fjarri lífríki hafsins, og nytjar lífríkis hafsins eru svo lítill hluti af efnahagsumhverfinu sem stóru eigendurnir og hlutafélögin lifa í. 

Iðnvæddu ríkin eru upptekin við hagvöxt og gróða af sívaxandi rányrkju hráefna og auðlinda á landi. 

Enginn hlustar á mjóróma raddir á útskeri norður við Íshaf. Enda harðsnúinn hópur manna hér á landi sem leggur sig fram við að afneita því sem er að gerast. 


mbl.is Sjór súrnar hraðar norðan við Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við lifum enn á olíuöld, en með aldahvörf framundan.

Ég á dótturdóttur sem er að flytja frá Reykjavík til Reykjanesbæjar til að hefja þar búskap með sambýlismanni sínum og fyrsta langafabarni mínu. 

Hún vinnur eins og er í Reykjavík en mun væntanlega síðar fá sér vinnu suðurfrá. Þó er ekki víst að hún þurfi það, því að atvinnusvæðið á suðvesturhorninu er stórt.

Nú er mikið góðæri í ferðaþjónustunni og á markaði notaðra bíla eru bílaleigubílar orðnir ráðandi afl um verðmyndun. Þess vegna getur hún fengið sér furðu nýjan, ódýran og sparneytinn bíll á afar hagstæðum kjörum og leitað sér vinnu á öllu atvinnusvæði Reykjavíkur, sem nær upp á Akranes, austur að Þjórsá og til Suðurnesja. 

Þetta er svipuð saga og er að segja um þessar mundir af sívaxandi fjölda ungs fólks, sem berst við að koma þak yfir höfuð sér í versta samdráttarskeiði á því sviði í 70 ár.

Í fréttum um húsnæðismálin má heyra að fasteignaverð og þar með húsnæðiskostnaður lækki hratt eftir því sem lengra dregur frá miðju Reykjavíkur og það valdi því að unga fólkið, sem húsnæðisvandinn brennur mest á, flytji i vaxandi mæli til nágrannasveitarfélaga Reykjavíkur, allt austur fyrir Fjall og suður með sjó. 

Þetta unga fólk er búið að reikna það út, að ágóðinn af þessum búferlaflutningum varðandi stórum lægri húsnæðiskostnað sé svo mikill að hann geri meira en að vega upp kostnað af því að eiga ódýran bíl. 

Um þéttingu byggðar er það að segja sem séra Emil Björnsson sagði stundum um ákveðin mál, að "þetta ber að gera en hitt eigi ógert að láta."

Þétting byggðar er að sönnu mikilsvert skref í að gera samgöngur hagkvæmari og búa í haginn fyrir óhjákvæmileg orkuskipti og samdrátt í heimsbúskapnum þegar takmarkaðar auðlindir þverra. 

En fyrir liggur, að uppbygging á slíkum svæðum er mun dýrari og tekur miklu lengri tíma en að reisa ný hverfi utar á höfuðborgarsvæðinu. 

Þess vegna verður að bregðst sem hraðast við húsnæðisvandanum þótt þétting byggðar sé ekki vanrækt.

En seinagangur sveitastjórna og æpandi þögn í stjórnarsáttmála segir sína sögu af sinnuleysi og tregðu í þessum málum.   

 


mbl.is Dagur: Mér finnst þetta ódýrt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 2. apríl 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband