Valdaöfl Garðabæjar: Dekurrófa valdastéttar.

Áttföld verðlækkun á hektara við sölu ríkisins á Vífilsstaðalandi til Garðabæjar, miðað við fyrri landsölu,  er ekkert nýtt í viðskiptum þess bæjarfélags við sjóði í almanna eigu þar sem ekki er vílað fyrir sér að nýta aðstöðu í valdakerfinu til að láta almenning blæða fyrir gjafir til þessarar dekurrófu, sem Garðabær virðist vera. 

Þegar Garðabær sameinaðist Álftanesi fyrir nokkrum árum, voru uppi miklar hugmyndir hjá Garðabæ um stóraukna íbúðabyggð í landi Álftaness. Í krafti hennar skyldi Álftanesvegur tvöfaldaður og var því veifað, að Álftanesvegur væri sprunginn vegna mikillar umferðar og væri hættulegasti vegur á höfuðborgarsvæðinu. 

Hið rétta var að umferðin var ekki einu sinni helmingur af þeirri umferð, sem talin er það mikil, að breikka þurfi veg úr 1 plús 1 upp í 1 plús 2 og er umferðin það ekki enn, 5 árum síðar. 

Og nýi vegurinn með lengstu blindbeygju landsins ekki heldur! 

Vegurinn var númer 22 til 23 á lista yfir þá vegarkafla höfuðborgarsvæðisins, sem voru þá með mesta slysatíðni. 

En það lá fiskur undir steini. Ef vegagerðin dróst, lenti vegurinn allur inni í landi Garðabæjar, og lá þá á milli hverfa í því bæjarfélagi. 

Ef hins vegar var drifið í því að ganga frá samningum við ríkið um veginn, yrði vegagerðin á kostnað ríkisins sem vegur á milli tveggja sveitarfélaga. 

Og það var gert með dyggum stuðningi Vegagerðarinnar og dómsvaldsins. 

Rokið var í það að negla vegagerðina niður og margbrjóta reglur um mat á umhverfisáhrifum og frakvæmdaleyfi, þótt ríkjandi væri mesti niðurskurður í manna minnum í kjölfar Hrunsins. 

Á illskiljanlegan hátt ( eða hvað?) tókst Garðabæ að fá fjárveitingarvaldið og borgaryfirvöld í Reykjavík til að falla frá öllum hugmyndum um brýnar vegabætur í Reykjavík í heilan áratug en sóa hins vegar tveimur milljörðum í dekurvegagerð valdamanna í Garðabæ með miklum óafturkræfum umvherfisspjöllum! 

Já, ítrekað framferði þessarar dekurrófu valdastéttar er eitthvað til að hugsa um fyrir fleiri en Kára Stefánsson. 

 

 


mbl.is Hektarinn seldur á 2,5 milljónir í stað 20 milljóna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Smáatriðin" eru mikilvæg. Forréttindum farsímanna verður að linna.

Ég minnist þess þegar ég kom heim úr sveitinni þegar ég var barn, og langaði til að segja foreldrum mínum frá merkilegum hlutum úr sveitinni, hvað ég var spældur þegar þau höfðu engan áhuga á því að hlusta neitt á mig. 

Hugsaði með mér, að ef ég yrði sjálfur foreldri þegar ég yrði stór skyldi ég helst ekki gera svipað. 

Veit hins vegar ekki hvort ég stóð við það. 

Síðan síminn, fyrst landssíminn og síðar farsímar komu til skjalanna, hefur þetta tæki oft verið láti valta yfir eðlileg og réttlát mannleg samskipti. 

Sem dæmi má nefna, að þegar einhver er búinn að gera sér ferð í verslun eða þjónustufyrirtæki, á hann ekki að þurfa að sæta því, að sá, sem hann er að tala við, svari tafarlaust hvaða símhringingu sem er. 

Það er bæði óréttlátt og í raun dónaskapur. Þessum forréttindum farsímanna verður að linna. 

 


mbl.is Segja snjallsímann trufla fjölskyldulífið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einu sinni "monthús", "bruðl", "hneyksli" og "alltof, alltof stór."

Eins og títt er um stórar framkvæmdir voru stundum ekki spöruð stóru orðin um Leifsstöð þegar hún var reist. 

Voru meira að segja slegin met í maraþonræðum á Alþingi um það, að þetta væri "bruðl". "hneyksli", "monthús" og alltof, alltof stór bygging. 

Nú er hún orðin of lítil og flugvöllurinn, sem var stærsti hernaðarflugvöllur heims þegar hann var tekinn í notkun í stríðinu, er líka orðinn of lítill á mestu álagstímum. 

Við því eru fá ráð, jafnvel þótt norðaustur-suðvesturbraut yrði tekin í notkun, því að til þess að auka afköst vegna flugumferðar, þyrfti að leggja nýjar flugbrautir í sömu stefnu og samsíða þeim tveimur brautum, sem nú eru, auk nýrra akstursbrauta. 

 


mbl.is Óskipulagður og léleg þjónusta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 23. apríl 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband