Himinn og haf á milli þessa máls og málanna í kringum 1970.

Svo miklar framfarir hafa orðið í rannsóknaraðferðum og öflun gagna síðan þrjú morðmál skóku íslenskt þjóðfélag fyrir rúmum fjórum áratugum, að segja má að himinn og haf séu í milli þessara mála og hvarfs Birnu Brjánsdóttur. 

Gögn úr farsímum, eftirmyndavélum, lífssýni o. fl. voru með öllu óþekkt á árunum 1968 til 1975. 

Raunar voru engin áþreifanleg gögn til í Geirfinns- og Guðmundarmálum, ekki einu sinni lík. 

Og til þess að meintir hlutir, sem hefðu átt að vera notaðir, svo sem bílar, gætu passað inn í játningarnar sem voru einu gögnin í málinu, varð til dæmis að breyta Toyota með vél frammi í og farangurrými að aftan, í Volkswagen Bjöllu með vél aftur í og svo litla farangursgeymslu í nefinu, að breyta varð framburðinum í það að burðast hefði verið með lík í poka inn um þröngt opið milli framsætisbaks og dyrastafs! 

Við rannsókn á morðinu á Gunnari Tryggvasyni lágu strax fyrir morðstaður, lík, og gerð byssunnar, sem notuð var. Síðar fannst byssan í vörslu hins grunaða, sem játaðia að hafa stolið henni.

En þar með voru gögn upptalin og hinn grunaði játaði aldrei.

Var hann því sýknaður. 

 

  


mbl.is Hróplegt ósamræmi í frásögn Olsens
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Taka verður umferðarþungann með í reikninginn.

Tökum dæmi af tveimur vegarköflum, sem báðir eru 10 kílómetra langir.

Á öðrum þeirra. leið A, verða samtals tíu alvarleg slys með líkamstjóni eða bana á ári, en á hinum, leið B, tvö slík slys. 

Þá myndi vera sagt frá því í fréttum að vegarkafli A, með tíu slysum á ári, væri hættulegri, og jafnvel sagt að hann væri fimm sinnum hættulegri en kafli B. 

En þannig er ekki lagt á þetta mat samkvæmt alþjóðlegum stöðlum. 

Þar er umferðarþunginn, fjöldi ekinna kílómetra samtals á viðkomandi vegarkafla, líka tekinn með í reikninginn og þá getur útkoman orðið önnur. 

Höldum áfram með dæmið að ofan. 

Tæplega 3000 bílar aka að meðaltali á dag um leið A, samtals ein milljón á ári með alls 10 milljón ekna kílómetra á ári, og alvarleg slys með meiðslum, örorku eða bana eru samtals 10 á ári. 

Útkoman verður eitt slys á hverja milljón ekna kílómetra. 

Á leið B aka aðeins tæplega 300 bílar á dag, eða 100 þúsund á ári, og eknir eru samtals ein milljón kílómetra.

Ef slysin eru tvö, verður útkoman 2 slys á hverja milljón ekna kílómetra.

Samkvæmt þessum útreikningi er kafli B með tvöfalt hærri slysatíðni en kafli A.

Ef einhverjum skyldi detta í hug að réttast sé að taka öll umferðaróhöpp með í reikninginn, sem rata inn á skýrslur tryggingarfélaganna, gæti komið út sérkennileg útkoma, svo sem að bílastæðið hjá Fjarðarkaupum í Hafnarfirði séu með hæstu óhappatíðnina í gatnakerfinu á höfuðborgarsvæðinu, vegna þess að þar séu smávægilegir árekstrar svo algengir.

Þjóðir með meira en þúsund sinnum fleiri íbúa en Ísland, taka ekna kílómetra með í reikninginn.

Ef það er ekki gert, gæti einhverjum dottið í hug að finna það út, að það sé meira en þúsund sinnum hættulegra að aka bíl á meginlandi Evrópu en á Íslandi af því að umferðarslysin á meginlandinu sé meira en þúsund sinnum fleiri.    


mbl.is Verstu gatnamótin öll á höfuðborgarsvæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stærstu málin kalla á stærstu myndirnar.

Það má færa rök að því að Guðmundar- og Geirfinnsmálið sé magnaðasta sakamál Íslandssögunnar. 

Það sprettur fram á mesta óróa- og ólgutíma síðustu aldar og er skilgetið afkvæmi hinna ofsafengnu átaka í þjóðlífinu, sem snertu alla, allt frá ráðherrum og þingmönnum og niður í undirheima og hippabyltingu. 

Á áttunda áratugnum voru þéringar til dæmis drepnar á örfáum árum. 

Djúptæk sefjun var drifkrafturinn á bak við þetta mál, sem var og er enn of stórt til að geta dáið og er nú á því stigi, að það er annað hvort núna eða ekki, sem það verður að afgreiða það. 

Mér er til dæmis persónulega kunnugt um þrjú lykilvitni, sem eru orðin það öldruð, að ekki má dragast lengur að tala við þau. 

Sérstaklega er eitt þeirra mikilvægt og útilokað annað en að einhver muni reka augun í það, þótt síðar verði, að ekki var talað við það. 


mbl.is Framleiðir þætti um Guðmundar- og Geirfinnsmálið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. apríl 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband