Fyrirsjáanlegt að ákvæðið frá 2013 yrði gagnslaust.

1943 og 1944 lofuðu talsmenn stjórnmálaflokkanna því að vegna þess að stjórnarskrá lýðveldisins var í grunninn sú sama og Danir gerðu fyrir konung sinn 1849 yrði loforðið um stjórnarskrá sem Íslendingar gerðu sjálfir fyrir Ísland á Þjóðfundinum 1851, efnt sem allra fyrst. 

1949 átaldi Sveinn Björnsson forseti Alþingi fyrir að heykjast á þessu. 

Síðan þá hafa margar stjórnarskrárnefndar á vegum Alþingis reynt að efna þetta loforð en öllum mistekist. 

Eina heildstæða frumvarpið að stjórnarskrá kom frá stjórnlagaráði 2011, yfirgnæfandi meirihluti samþykkti hana í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu 2012, en enn og aftur hefur Alþingi heykst á því að efna loforðin frá 1851 og 1944. 

Hugmyndin 2013 um enn eina stjórnarskrárnefndina á vegum flokkanna á Alþingi var andvana fædd í ljósi 73 ára reynslu af getuleysi Alþingis.

Til fróðleiks má geta þess að Framsóknarflokkurinn gerði það að skilyrði fyrir að verja minnihlutastjórn Jóhönnu Sigurðardóttur vantrausti, að gerð yrði ný stjórnarskrá.

Og þá áttu þingmenn Sjálfstæðisflokksins hugmyndina að sérstökum þúsund manna þjóðfundi til að undirbúa verkið.  


mbl.is Ákvæðið um þjóðaratkvæði fallið úr gildi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kannski gott að Trump hafi ekki enn sagt neitt um Ísland?

Donald Trump sagði á dögunum, svona í fróðleiksskyni, að Kína hefði fyrrum ráðið yfir Kóreu. 

Sem að sjálfsögðu var alrangt. Vonandi veit hann eitthvað bitastæðara til styðjast við ef hann þarf aað taka ákvörðun um kjarnorkustríð þarna.

Þegar Ronald Reagan var viðstaddur athöfn sem varðaði Ísland minntist hann á Ísland og hafði greinilega einhverja óljósa hugmynd um að Ísland væri í nánu sambandi við hinar Norðurlandaþjóðirnar.

Þegar Reagan ætlaði að orða þetta vafðist honum tunga um tönn en reyndi að bjarga sér fyrir horn með því að segja: "...Iceland, - and those other countries."

Meðan Trump segir ekkert um Ísland kann það að vera góðs viti. Annar kynni svo að fara að hann segði að Rússar hefðu einu sinni ráðið yfir Íslandi.  


mbl.is Hvað hefur Trump sagt um Ísland?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjarnorkuvopnabúrin eru ekki kristnum þjóðum sæmandi.

Engar tvær þjóðir í sögu mannkyns hafa búið til neitt viðlíka ógn og kjarnorkuvopnabúr Bandaríkjamanna og Rússa eru. Báðar þjóðirnar eru skilgreindar sem kristnar að stærstum hluta. 

Með hvoru kjarnavopnabúri um sig er talið að þjóðirnar geti eytt hvor annarri nokkrum sinnum! Sem er náttúrulega fáránleg vitleysa, því þjóðir sem búnar eru að eyða hvor annarri einu sinni, geta að sjálfsögðu ekkert aðhafst eftir það og haldið áfram að eyða hvor annarri aftur og aftur. 

Kenningin á bak við þessa geggjun er raunveruleg og viðurkennd undir heitinu "MAD," "Mutual Assured Destruction" ( á íslensku GAGA, Gagnkvæm altryggð gereyðing allra). 

Á Stiklastað í Noregi er risastór stytta af Ólafi Haraldssyni Noregskonuningi, hinum "helga" mikla kristna trúboða, þeysandi á hesti með Biblíuna í annarri hendi og sveiflandi sverði í hinni. 

Víðsfjarri grundvallarkenningju Krists en tekur algerlega bókstaflega skipun hans um "að gera allar þjóðir að lærisveinum". 

Sem betur fer hefur boðskapur Krists um frið og mannréttindi smám samam rutt burtu ofstopafullri og einstrengingslegri túlkun á skyldunni til að útbreiða boðskapinn. 

Og sóun á gríðarlegu fé með atbeina færustu vísindamanna til að búa til gereyðingarvopn er ekki í samræmi við boðskap Krists. 

Fangelsisdómi yfir Muhammad Ali vegna óhlýðni hans við herskyldu sem fælist í því að vera sendur til Víetnam til manndrápa, var snúið við af Hæstarétti Bandaríkjanna af því að Ali gat sýnt fram á það að hann væri að fara eftir grundvallarkenningu Múslimatrúar um frið. 

Undantekningin í Sharialögunum um "heilagt stríð" ætti ekki við í þessu tilfelli, enda færi Ali ekki eftir þeim lögum í trúariðkun sinni, heldur reyndi að "byggja brýr en ekki múra á milli fólks" eins og Billy Crystal orðaði það í minningarræðu um Ali. 

Kristnir menn fara ekki eftir þeim bókstaf eins af boðorðunum að kona, þræll eða ambátt gæti verið eign karlmanna eins og uxar, asnar og aðrar skepnur. 

Því miður eru enn of margir múslimar sem ekki orka að víkja sér undantekningarlaust undan Sharíalögunum, - og í hegðun múslimskra hryðjuverkamanna birtist skelfileg afskræming af ákvæðinu um heilagt stríð í nafni trúarinnar. 

Alhæfing um að allir múslimar skuli skoðast skoðanasystkin öfgatrúarmanna er ekki í þágu þess friðar, sem Kristur boðaði ásamt orðum hans: "Dæmið ekki því að þér munuð sjálfir dæmdir verða."


mbl.is Ekkert ofbeldi í guðs nafni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta varð þá mesti hnefaleikabardagi aldarinnar eftir allt!

90 þúsund manns fylltu Wembley í kvöld. Met eftir stríð. 30 milljónir punda til skiptanna fyrir Anthony Joshua og Vladimir Klitschko. Joshua

Spurningunni um hvort þetta yrði tímamótabardagi í næsta bloggpistlinum á undan þessum var heldur betur svarað: Hann varð það. 

Besti þungavigtarhnefaleikari það sem af er þessari öld, Wladimir Klitschko, hefur verið ósannfærandi í síðustu tveimur bardögum sínum og þótt sýna þess merki að 41. árs aldur komi illilega fram hjá honum. 

Hann tapaði fyrir Tyson Fury, en Fury hefur síðan klúðrað sínum málum á ýmsan veg svo að tvö belti losnuðu. JoshuaKlitschko

En það var allt annar Vladimir Klitscko sem steig inn í hringinn í kvöld og lét hinn unga Joshua finna fyrir sér heldur betur. 

Sló hann meira að segja niður í 6. lotu sem svar við því að Joshua hafði sett hann í strigann í 5. lotu, og með þessu sýndi Klitschko fádæma seiglu og viljastyrk. 

En Joshua sýndi ekki síðri viljastyrk með því að seilast niður í dýpstu djúp sálar og líkama til að standast áraunina. 

Þegar þarna var komið sögu, var bardaginn þegar orðinn að "klassík", sá fyrsti þeirrar gerðar í þungavigtinni í 14 ár. 

Og hann hélt þeirri stöðu til 1l. lotu þegar Joshua hafði kreist fram "second wind" og hóf magnaða árás á Klitscko sem endaði með því að meistari aldarbyrjunarinnar fór tvívegis í strigann og var síðan bjargað af dómaranum frá því að verða barinn í klessu úti í horni. 

Æðislegt hægri handar upphögg réði úrslitum! Búið að bíða í 14 ár eftir því að slíkt gerist í bardaga um heimsmeistartitil í þungavigt. Búið að fá nóg af endalausum one-two hjá Klitscko bræðrum. Vísa til myndbands á facebook síðu minni. 

Klitschko sló að vísu ótal vinstri króka í þessum bardaga, en Joshua var greinilega með heimavinnuna á hreinu og beygði sig undir þau flest eða tók þau á öxlina. 

Að dómi viðstaddra, svo sem Sugar Ray Leonard og Arnolds Swarzteneggers, stóð þessi bardagi undir öllum kröfum um stórkostlegan íþróttaviðburð. 

Hann markar kaflaskil bara fyrir það eitt að nú er kominn fram nýr meistari, Anthony Joshua, sem íþróttablaðamenn tala þegar um sem magnaðasta íþróttamann Bretlands, og að nú er búið að hleypa þungavigtinni upp og búa til vettvang til að skapa nýtt blómatímabil hennar, ef vel verður úr spilum spilað. 

Og það hefur nú löngum verið þannig, að það mestu máli fyrir hnefaleikana sem heild að þungavigtin sé spennandi og full af stórviðburðum með tilþrifum og dramatík.


Bloggfærslur 30. apríl 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband