Gott ef þetta er orðið svona "mikið erlendis."

Gripið er til skemmtilegs orðalags Björgvins Halldórssonar í fyrirsögn þessa pistils. 

Hann grípur stundum til þess þegar hann hrífst af einhverju íslensku, sem honum finnst á heimsmælikvarða, og segir "þetta er svo mikið erlendis. 

Margar erlendar þjóðir hafa meira en aldar gamla reynslu af því að vernda fræga hella, en útbúa þó þannig aðgengi að þeim að ferðafólk geti notið fegurðar þeirra án þess að valda spjöllum. 

Á næsta ári verður hálf öld, síðan við Helga komum í Carsbad Caverns þjóðgarðinn í suðausturhorni Nýju Mexíkó í Bandaríkjunum og hrifumst ekki aðeins af hinum fræga helli þar, heldur ekki síður af því hvernig umgengni um hann var stýrt. 

Alla tíð síðan hefur blasað við hve langt við Íslendingar höfum verið á eftir öðrum þjóðum í þeim efnum og ófremdarástand ríkt í sumum stærsu hellum landsins. 

Þess vegna er það mikið fagnaðarefni ef tekist hefur að búa svo um hnúta í Víðgelmi, að hann standist samanburð við það sem best er erlendis. 


mbl.is Víðgelmir heillar að nýju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hliðstæð slys víðar.

Það hefur komið fyrir að starfsmenn, sem breyttu hjólastíg án þess að setja upp neina viðvörun eða merki, hafi valdið með þessu slysi. 

Mér er kunnugt um konu sem slasaðist illa þegar hún uggði ekki að sér og náði ekki að stöðva reiðhjól sitt í tæka tíð, þar sem starfsmenn við gröft á grunnum og mjóum skurði þvert yfir stíginn, höfðu farið af vettvangi án þess að setja upp neina merkingu né aðvörun.

Við þær aðstæður, sem þarna ríktu, var engin leið að sjá skurðinn fyrr en komið var alveg að honum, og of nálægt í þessu tilfelli til þess að hægt væri að ætlast til þess. 

Að sjálfsögðu er það í verkahring vegfarenda að gæta að aðstæðum sem geta stundum að einhverjul leyti verið misjafnar og breytilegar, sem sem vegna veðurs og birtu. 

En í þessu tilfelli nægði ekki einu sinni að hafa eðlilegan vara á.

Þegar sá, sem í svona slysi lendir, fer jafnvel daglega eða tvisvar á dag sömu leiðina, og verður síðan fyrir því að allt í einu er komin nógu lúmsk og varasöm hindrun til að engin leið sé að vara sig á henni, hlýtur ábyrgðin að liggja hjá þeim sem hefur breytt aðstæðum nógu mikið til að valda slysi.

Það þarf ekki djúpan eða breiðan skurð til að reiðhjól steypist um koll og heldur ekki mikla nýja mishæð til þess að steypa skíðamanni, sem á sér einskis ills von, en lendir í óvæntum og nýtilbúnum aðstæðum. 

Dómurinn, sem þessi pistill er tengdur við, byggist á mati á því, hvar draga skuli línuna á milli ábyrgðar skíðamannsins eða hjólreiðamannsins, sem lendir í slysi vegna ófyrirséðra aðstæðna sem fólu í sér slysagildru, og ábyrgðar þess, sem hefur búið til slysagildruna.

Ekki verður séð að dómurinn feli í sér grundvallarbreytingu á mati á slíkri ábyrgð.

Eftir sem áður verður það meginreglan að skíðafólk renni sér á eigin ábyrgð.  

 


mbl.is Töldu alla skíða á eigin ábyrgð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vetnið að rísa úr öskustó? Athyglisverð orð Bjarna Bjarnasonar.

Þegar miklar tækniframfarir og breytingar eru í gangi gengur oft á ýmsu. Sem dæmi má nefna hina hröðu þróun dísilbíla í kringum  síðustu aldamót.  Með bættri innspýtingar- og ventlatækni ásamt stórkostlegri nýtingu á forþjöppum var svo komið, að nýtni dísilvéla hafði fjórfaldast á nokkrum áratugum og var orðin meiri miðað við sprengirými en á bensínvélum. 

Talað var um að dísilvélin væri að stiga bensínvélina af, þótt hún væri heldur dýrari, því að sumar dísilvélar voru að nálgast það að afkasta 100 hestöflum á hvern lítra sprengirýmis á meðan bestu bensínvélar lágu enn niðri við 70 hestöfl.  

En í merkilegu viðtali við helsta yfirmann tæknimála hjá Fiat-verksmiðjunum í kringum 2007 spáði hann því að bensínvélin myndi ná vopnum sínum og aðeins nokkur ár myndi líða þar til ný bylting yrði þar. 

Og það gerðist. Með því að yfirfæra framfarir í forþjöpputækni og innspýtingar- og ventlatækni yfir á bensínbíla varð slík bylting þar, að ný þykir ekkert tiltökumál þótt bensínvélar afkasti allt að 130 hestöflum á hvern lítra sprengirýmis.

Svipað kann að vera að gerast í keppninni á milli vetnisknúinna bíla og rafknúinna bíla.

Í báðum tilfellum er um geymslu á orku að ræða, geymslu raforku á rafgeymum hjá rafbílunum, og samþjöppun og geymslu vetnis á vetnisbílunum.

Framfarirnar í rafbílunum hafa verið meiri síðustu árin, en vegna þess hve vetnisbílarnir hafa verið miklu dýrari, hafa þeir legið eftir.

Þó hefði það átt að hringja bjöllum, að jafn stór fyrirtæki eins og Toyota og Hyundai væru að þróa vetnisbíla.  

Bíll Toyota var settur á almennan markað nýlega en kaupverðið er ansi hátt ennþá. 

Á móti kemur, að vetnisgeymslan kostar ekki nálægt því eins mikla þyngd, og þar af leiðandi orku til að færa þá þyngd úr stað, og geymsla raforku. 

Sem dæmi má nefna, að rafgeymarnir í væntanlegum Opel Ampera-e / Chevrolet Bolt, eru 440 kíló að þyngd, en samsvarandi bensínorka á bensíngeymi vegur aðeins um 70 kíló. 

Talan í vetnisbílnum liggur þarna á milli, og nú þegar er drægni vetnisbílanna meira en tvöfalt meiri en hjá rafbílum og áfyllingin fljót. 

Það þýðir að mun færri hleðslustöðvar þarf en hjá rafbílunum og að ókostirnir varðandi framleiðslu og endurnýjun eða förgun á orkuberanum, svo sem hin takmarkaða auðlind lithium, eru miklu minni á vetnisbílunum. 

Afar gott og athyglisvert viðtal var við Bjarna Bjarnason, forstjóra hjá reykvísku orkuveitunni í tíu fréttum sjónvarps í gærkvöldi. 

Þar benti hann á að vegna þess að rafbílar eru yfirleitt hlaðnir að næturlagi í heimahúsum þarf ekki að leggja háspennulínur yfir hálendið og hann benti líka á það orka rafbílaflotans yrði innan við 2 prósent af raforkuframleiðslu landsins. 

Sem afhjúpar þær blekkingar Landsnets að bygging risa raflína um allt land eigi að þjóna íslenskum heimilum og fyrirtækjum. 

Í ljós kom þegar hópur landeigenda á línustæði Blöndulínu 3 fór að kynna sér útfærslu línunnar, að henni var auðvitað eingöngu ætlað að þjóna stóriðjunni, þótt látið væri í veðri vaka, að lagning risalínunnar væri til þess að auka afhendingaröryggi til íslenskra heimila og fyrirtækja. Enda þarf ekki svona risalínur til þess.

Og tölurnar eru sláandi varðandi það að við gerum okkur í stakk búin við að nýta eigin orku til samgangna:  1,5% orkunnar í bílaflotann en 80% til stóriðjunnar!


mbl.is Niðurgreiðsla háð akstursgögnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

2002 er víti til varnaðar.

Það sem gerðist 2002 til 2003 við söluna á bönkunum ætti að vera víti til varnaðar, ekki síst einmitt nú þegar skýrsla um söluna hefur svipt hulunni af eðli þeirrar sölu.

2002 áttuðu margir sig ekki á þeim möguleikum sem voru fyrir hendi til að beita blekkingum, launung og viðskiptafléttum. Gagnrýnendur og þeir sem sáu í gegnum svindlið voru talaðir niður og úthrópaðir. 

Er ekki ráð að anda aðeins í gegnum nefið, fara vel yfir málin og setja betri varnagla gegn því að sagan geti endurtekið sig?


mbl.is Stærri en salan á Búnaðarbankanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. apríl 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband