Trump er óútreiknanlegur.

Donald Trump gagnrýndi Barack Obama harðlega í kosningabaráttu sinni fyrir að eyða peningum í stríðsrekstur í Miðausturlöndum. Og gagnrýndi að billjónum dollara væri eytt í afskipti Kana af alls konar málum í fjarlægum heimshlutum svo sem Miðausturlöndum. Nú kveður heldur betur við annan tón. 

Hann, sem áður gagnrýndi lögregluhlutverk Kana lætur ráðast á skotmark í Sýrlandi þegar í stað, áður en búið er að rannsaka viðkomandi mál. 

Menn klóra sér í hausnum og vita ekki sitt rjúkandi ráð. 

Fyrir kosningar voru á kreiki alls konar neikvæðar yfirlýsingar hjá honum og hans mönnum í garð Kínverja og jákvæðar gagnvart Rússum og Pútín.

Nú kveður við allt gerbreyttan tón á fundi ráðamanna Bandaríkjamanna og Kínverja.

Ef þessi látalæti og hringlandaháttur verða áfram mun það gera öðrum þjóðum erfitt fyrir að bregðast við þeim viðburðum og uppákonum  sem af þessu kunna að leiða.

Og jafnframt að auka hættuna á mistökum eða röngum ákvörðunum og viðbrögðum.   


mbl.is „Nú hækkar hitastigið til muna“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kynslóðabil í orði og gerðum. "Sjálfan" er táknmyndin.

Það er ekki svo langt síðan að gangur lífsins hjá flestum hér á landi var sá, að finna sér maka um eða upp úr tvitugu, hlaða niður börnum og koma sér sem fyrst upp eigin húsnæði. 

En nú virðast vera róttækar breytingar í gangi. Unga fólkið leggur meira upp úr því að safna upplifun af heiminum bæði hér heima og erlendis.

"Sjálfan" ("Selfie") er táknmyndin. Ég með þessum eða hinum, ég í Róm, ég á stórhljómleikum í London eða Hamborg.

Fyrst er menntun, helst með háskólaprófi og master hjá konunum. Stofnun fjölskyldu má bíða.

Flestir okkar, hinna eldri, finna þetta í eigin ranni. Það hefur fæðst 21 barnabarn hjá mér, þau elstu eru yfir þrítugt, tólf eru eldri en 18 ára , en aðeins eitt barnabarnabarn, og móðir þess er inni í miðjum barnabarnahópnum, hvað aldur snertir.

Ein af afleiðingum þess að fjölgunin minnkar stórlega er innflutningur á vinnuafli og hlutfallslega færri, sem eru á besta launaaldri, til að vinna fyrir þeim stórfjölgandi hluta þjóðarinnar, sem er eldra fólkið.   


mbl.is Frjósemi minni en nokkru sinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvísaga Trump.

Donald Trump barði sér mjög á brjóst í kosningabaráttunni í fyrrahaust, sagðist hafa verið á móti árás Bandaríkjamanna og Breta á Írak 2003 og að hún og síðar stuðningur Baracks Obama við uppreisnina gegn Assad Sýrlandsforseta hafi verið svo forkastanleg, að í raun sé efnavopnaárás Assads í Idlib-héraði Obama að kenna! 

Nú lætur Trump Bandaríkjaher gera árás í Sýrlandi á þá herstöð, sem talið sé að efnavopn Sýrlandshers hafi komið frá, en þess er sérstaklega getið, að varast hafi verið að ráðast á meinta efnavopnageymslu þar. 

En vörn Sýrlandsher varðandi skelfilegar afleiðingar efnavopna í árás hersins um daginn, er einmitt sú að uppreisnarmenn hafi geymt þar efnavopn, sem hafi sprungið í árásinni. 

Sem sagt: Að uppreisnarmenn hafi haft efnavopn undir höndum, sem Obama beri ábyrgð á að hafi verið þar!  

Eins og í mörgu hefur Trump orðið margsaga einu sinni enn, flækir málið og gerir það hættulegra, og gerir nú Rússum og Pútín gramt í geði, sem segja, að með þessu hafi forsetinn staðið að árás á sjálfstætt ríki. 

Þar að auki þykir það vafasamt heima fyrir, að þetta var gert án vitneskju þingsins. 

Á sama tíma sem Trump hefur verið að vingast við Pútín, reitir hann Rússlandsforseta til reiði. 

Hernaðarbrölt Trumps og orð og gerðir hans allt eru fullar af hættulegum mótsögnum.  

 


mbl.is Bandaríkin gerðu árás í Sýrlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Laxdæla, klassík í hæsta gæðaflokki. Af hverju ekki aftur "Kappar"?

Njáls saga er að sönnu mikið og magnað bókmenntaverk og frægust Íslendingasagna, en frá barnsaldri hef ég haft mestar mætur á Laxdælu, vegna þess hve algerlega tímalaus og sígild sú örlaga- og ástarsaga er. 

Um miðja síðustu öld voru gefnar út tvær bækur fyrir ungt fólk undir heitinu "Kappar". 

Þar voru nokkrar af styttri Íslendingasögunum settar fram með nútímastafsetningu og gerðar aðgengilegar, meðal annars með frábærum teikningum besta skopteiknara landsins á þeim tíma. 

Þetta voru meðal annars Laxdæla, Grettis saga, Gísla saga Súrssonar, Gunnlaugs saga ormstungu og saga Orms hins sterka Stórólfssonar. 

Það er ekki unga fólkinu að kenna, að það laðist ekki að hinum klassísku íslensku verkum, heldur hinum eldri, sem ráða yfir bókaútgáfu hér á landi. 

Þó ekki væri nema að grafa bækurnar "Kappar" upp og endurgefa þær út með teikningunum góðu. 


mbl.is Fornsögur vinsælli hjá erlendum nemendum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. apríl 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband