Áköf snjókoma getur breytt skilyrðum mjög snögglega.

Þótt snjó sé rutt af vængjum véla fyrir flugtak, og brautir ruddar og mældar fyrir lendingu, getur mjög áköf snjókoma breytt skilyrðum til lendinga og flugtaks undra fljótt undir vissum kringumstæðum. 

Þannig gerðist það fyrir tæpum fjórum áratugum, að á Reykjavíkurflugvelli varð svokölluð "hundslappadrífa" svo þétt, að sá vængur flugvélar flugfélagsins Vængja, sem var hreinsaður á undan hinum, safnaði það miklum snjó á sig í akstri til flugtaks, að vængurinn gaf ekki nógan lyftikraft, sá vængur seig niður svo að vélin beygði til vinstri og hafnaði í Vatnsmýri skömmu eftir flugtak, skammt frá Norræna húsinu. 

Engan sakaði en vélin skemmdist talsvert. 

Trausti Jónsson hefur lýst því á bloggsíðu sinni hve ótrúlega ólík veðurskilyðri voru sitt hvorum megin við Kúagerði um það leyti sem þota rann út af braut á Keflavíkurflugvelli. 

Og í Reykjavík voru svo hraðar veðurbreytingar, að hiti féll um sjö stig, úr sjö stigum, niður undir frostmark, á innan við klukkustund með tilheyrandi breytingu á úrkomu og akstursskilyrðum. 

Fróðlegt verður að sjá hvað kemur út úr rannsókninni á óhappinu á Keflavíkurflugvelli. 


mbl.is Flugstjórar fá allar upplýsingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðin hefur þrefaldast, en samt er minnsta bygging íbúðahúsnæðis í 70 ár.

Örfáar staðreyndir, sem Ragnar Ingólfsson nefndi í gær, fara inn um annað eyrað og út um hitt hjá valdaöflum landsins, af þvi að á þeim bæ lifa þeir, sem ráða, í allt öðrum veruleika. 

Þjóðin er þrefalt stærri en fyrir 70 árum og virði mannvirkja á Íslandi sennilega 30 sinnum meira ef stóriðjuverksmiðjurnar eru taldar með. 

Þær eru nefnilega á Íslandi þessar verksmiðjur, þótt eignarhaldið sé erlent og ofsagróði þeirra, sem rennur úr landi, skattfrjáls að vild, jafnvel í sérstökum samningum, sem ganga framar stjórnarskránni, eins og ákvæði þar af lútandi í orkusölusamningnumm við Alcoa vitnar um. 

Þróunin er hröð. Menn reyndu þó að hamla gegn því að eignarhald sjávarútvegsfyrirtækja færi í hendur útlendinga með lögum um 49% hámarks eignarhald, það eru örfáir stórir norskir laxagreifar sem stefna að algeru eignarhaldi á því fyrirbæri sem felst í tíföldun laxeldis á örfáum árum.  

 


mbl.is Berjast vopnlausir gegn leigurisum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eignaránið er einsdæmi í okkar heimshluta.

Burtséð frá því hvort Sósíalistaflokkurinn sé það sem breyti einhverju í íslenskum stjórnmálum er það hvergi tíðkað í okkar heimshluta að valdsmenn standi fyrir hreinu ráni á eignum fólks eins og gert er og hefur verið gert varðandi lífeyrissjóðina.

Eftir Hrunið var það eitt af því fyrsta sem mönnum kom til hugar að ráðast á lífeyrissjóðina, taka fé úr þeim til rekstrar eða framkvæmda ríkisinsin, sem annars vantaði fé í.

Guðmundur Gunnarsson lýsti því vel í góðum þætti Helga Péturssonar á Hringbraut að kollegar hans úr verkalýðsstétt á Norðurlöndunum áttu ekki orð yfir slíku framferði gagnvart eigum fólks, sem hafði lagt hluta af launum sínum fyrir í trú á fagurgala um að með því væri verið að tryggja lífeyri á elliárunum sem það gæti notið eftir að hafa sjálft lagt hann til.

Þetta heitir þjófnaður á mannamáli.

Þar fyrir utan á launafólk enga beina lýðræðislega aðild að vali fulltrúa þess í stjórnum lífeyrissjóðanna, og það er vafalaust ástæðan fyrir þeirri íslensku firringu sem menn í verkalýðsbaráttunni í nágrannalöndunum gapa yfir.

Sem betur fer sjá þeir ekki sum ummælin á íslensku samfélagsmiðlunum, sem notuð með fyrirlitningu gagnvart þeim þá sem minna mega sín og standa höllum fæti.

Þá myndu þeir örugglega verða orðlausir.  

"Markmiðið er að gera sem minnst og fá sem mest," er skrifað.  "Og leiðin til þess er að lýsa sig aumingja og 1 maí er dagurinn til þess."  "1.maí: Gemmér meira - ég er aumingi."

Þetta eru þakkirnar, sem til dæmis konur, sem ólu upp stóra barnahópa og komu til manns, fá, - rúmlega 200 þúsund á mánuði í lífeyri.  

Þær skulu heita "aumingjar" og skammast sín fyrir þá heimtufrekju að hafa "vælt" slíkt út. 


mbl.is Almenningur nái sínum eignum til baka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 2. maí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband