Strandveiðarnar fengu ósanngjarna andstöðu á sínum tíma.

Þau tvö framboð, sem stóðu utan fjórflokksins í Alþingiskosningunum 2007, lögðu bæði til að teknar væru upp strandveiðar. 

Ekki vantaði að sægreifar og sterk öflu í fjórflokknum legðust hart gegn þessum hugmyndum og notuðu hræðsluáróður þess efnis, að smábátaveiðar um aldamótin hefðu farið úr böndunum. 

Hjá þessum öflum var það afgreitt út af borðinu að hægt væri að búa þannig um hnúta að strandveiðarnar væru hóflegar og öruggar og mikill grátkór settur í gang varðandi það að aflinn í strandveiðum fælist í því að ræna lífsbjörg frá útgerðarfyrirtækjum landsins. 

Rétt eins og það hefði verið sanngjarnt hvernig kvótakerfið hafði búið til eignarrétt á helstu auðlind landsins á þessum tíma og farið eins og eyðandi faraldur um hinar smærri sjávarbyggðir um allt land. 

Við, sem vildum strandveiðar, bentum á, að vel væri hægt að fara varlega af stað með þær og gæta vel að því að þær yrðu viðráðanlegar og öruggar. 

Auk þess sem strandveiðar að sumarlagi myndu hleypa lífi í visnaðar sjávarbyggðir yrðu þær akkur fyrir ferðaþjónustuna með því aðdráttarafli fyrir ferðafólk og upplifun þess af þjóðlegu og aðlanðandi athafnalífi sem strandveiðarnar gæfu þeim höfnum, sem þær væru stundaðar frá. 

Nú hafa strandveiðarnar smám saman sannað gildi sitt og ættu að hafa tryggt öryggi sitt og tilveru. 


Minnir á "draummíluna."

Baráttan í að hlaupa maraþong á undir tveimur klukkkustundum minnir á "draummílu" Rogers Bannisters og fleiri fyrir 65-75 árum. 

Svíinn Gunder Hagg hafði verið besti millivegalengdahlaupari heims á stríðsárunum og komist nálægt því að hlaupa landmílu, 1609 metra, á undir fjórum mínútum, en ekki tekist. 

Eftir stríð var "draummílan" takmark bestu hlaupara heims, en það dróst svo mjög að ná þessu takmarki, að einstaka maður var farinn að efast um að það væri í mannlegu valdi að ná þessu langþráða marki. 

En svo gerðist það 1954 að enskur hlaupari, Roger Bannister að nafni, hljóp fyrstu manna míluna á þessum draumkennda tíma. 

Og það var eins og við manninn mælt að fleiri og fleiri fylgdu í fótspor hans, og það svo mjög að Bannister komst aldrei nálægt því að verða Ólympíumeistari í 1500 metra, hvað þá 800 hundruð metra hlaupi, heldur varð að standa í skugga landa síns Gordon Pirie og Rússans Kutz, sem börðust hart næstu árin á hlaupabrautinni. 

En nöfn þeirra eru samt ekki um aldur og ævi böðuð slikum ljóma sem nafn Bannisters, bara af því að sá síðastnefndi varð fyrstur til að hlaupa draummíluna. 

Nefna má ýmis fleiri takmörk í frjálsum íþróttum, svo sem að stökkva lengra en átta metra í langstökki, lengra en 17 metra og síðar lengra en 18 metra eða lengra en 60 fet í þrístökki, fara fyrstur yfir 5 metra, fyrstur yfir 6 metra og fyrstur yfir 20 fet í stangarstökki, og hlaupa 200 metrana á styttri tíma en 20 sekúndum og 100 metrana undir 10 sekúndum. 

Svo má geta þess að fyrir um tveimur áratugum afrekaði Kúbverjinn Sotomayor það að stökkva 2,45 metra í hástökki, og stendur það heimsmet enn. 

En það sem merkilegra er að Sotomayor er eini maðurinn í heiminum sem hefur stokkið hærra átta fet, sem eru rúmlega 2,43. 

Líklega er þó enn langt í það að stokkið verði lengra en 9 metra í langstökki, hvað þá lengra en 30 fet, það er lengra en 9,144 metra. 


mbl.is Grátlega nálægt sögulegu maraþoni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. maí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband