Eins marks munur skilar 2 stigum, en hve oft er slíkt hægt?

Íslenska landsliðið í handbolta er á "breytingaskeiði" kynslóðaskipta og vegna þess að í slíku ástandi þarf oft nokkur ár til að flytja keflið, er hætta á að liðið falli út í undankeppni fyrir stórmót. 

Slík hætta er fyrir hendi nú og enda þótt það nægi að vinna leik með eins marks mun til að hirða bæði stigin, má engu muna í hvert sinn.

Þess vegna eru takmörk fyrir því hve oft er hægt að treysta á slíkt. 

En það fullt af ungum og stórefnilegum strákum til þess að búa til gott lið og auðvitað er liðinu óskað til hamingju með hinn mikilvæga sigur í kvöld. 


mbl.is Ísland strengdi sér líflínu með sigri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrjú ár síðan síðast. Geta þeir enga fossa látið í friði?

Fyrir þremur árum munaði nokkrum atkvæðum að eilífðarstjórn Framsóknarmanna í Rangárþingi eystra félli í byggðakosnginum þegar til sögu kom þverpólitískt framboð umhverfisverndarfólks sem snerist gegn hugmyndum sveitarstjórnar um stærðar hótel beint fyrir framan Skógafoss. 

Þótt ég eigi ekki atkvæðisrétt þarna lagði ég þessu andófi lið með því að koma á opinn fund hjá þessu nýja og sjálfsprottna afli, því að umgengni og meðferð á náttúruperlum í landi sveitarfélagsins er ekki einkamál þess og heldur ekki einkamál Íslendinga, heldur spurning um landvörslu náttúruverðmæta fyrir allt mannkyn.

Í hótelmálinu við Skóga var eins og meirihluti hins eilífa Framsóknarmeirihluta fengi í hnén við að standa frammi ríkum og frægum eiganda hins fyrirhugaða hótels.

Ekki veit ég frammi fyrir hverjum þessi meirihluti fær núna í hnén, en vegalengdin til Seljalandsfoss frá því stæði þjónustumiðstöðvar sem tillaga c gerir ráð fyrir hjá andófsfólki, virðist álíka mikil og frá þjónustumiðstöð sem á að vera í forgrunni útsýnis til fossins frá öllu því svæði, sem sést til hans.

Sú verður hins vegar ekki raunin ef miðstöðin verður sunnan við Brekkuhornið.  


mbl.is Enginn óskapnaður leyfður við fossinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Hnjúkurinn gnæfir." Réttar forsendur notaðar.

Fjallahjól eins og það, sem Símon Halldórsson notaði til þess að hjóla upp á Hvannadalshnjúk, er það létt, að hjólreiðamaðurinn því notað eingöngu eigið líkamsafl til að komast leiðar sinnar á því. 

Hluti af því getur verið að hann beri hjólið yfir ár, brekkur, eða torfærur, og svo framarlega sem ekkert annað afl er notað er það nothæf forsenda fyrir því að segja að hann hafi "hjólað" þær leiðir sem hann fer. Menn geta svo sem deilt um þetta, en ég tel að vel sé hægt að fallast á þessa forsendu, ef henni er hlítt í hvívetna. 

Má því óska Símoni til hamingju með afrekið. 

Hin bratta brekka upp hnjúkinn sjálfan er aðal torfæran og algerlega útilokað að drífa upp hana á hjóli. En ef enginn greinarmunur er gerður á afli fóta, handa og skrokks hjólreiðamannsins, er hægt að fallast á forsenduna um að "hjóla." 

Í eina skiptið sem jöklajeppa hefur verið ekið upp á hnjúkinn fyrir eigin vélarafli eingöngu í leiðangri á vegum Benedikts Eyjólfssonar vorið 1991.

Þá var þessi brekka farin á þann hátt að nota spil framan á bílnum, sem knúið var með rafafli leiddu úr vél bílsins til þess að láta bílinn draga sjálfan sig upp þessa hindrun. 

Það var hægt með því að hafa meðferðis í bílnum stengur, sem reknar voru niður fyrir framan hann og vírinn úr spilinu síðan látinn leika um þessa endapunkta. 

Þessi hæsti tindur Íslands er sérstök áskorun vegna hæðar sinnar yfir sjó. 

Reynt var að túlka það í texta lagsins "Hnjúkurinn gnæfir", sem varð til sem titillag þáttar um ferðina.  Hjá mér skiptist ferðin í tvennt, fyrst að Hermannaskarði eftir jöklinum og beðið af sér óveður, og síðan fór ég frá leiðangrinum á vélsleða austur á Hornafjörð, flaug þaðan á flugvél bróður míns til Reykjavíkur og aftur til baka til að fara með vélsleða til leiðangursmanna á ný og halda áfram upp á hnjúkinn. Eftir það tók við annað óveður á niðurleið.

Textinn skiptist því í tvennt:  Fyrri hlutinn fjallar um aðdragandann en seinni hlutinn um eftiköstin.  

 

           HNJÚKURINN GNÆFIR. 

 

Hnjúkurinn gnæfir, til himsins sig teygir - 

hamraþil þverbrýnt, ísað stál. 

Ógnfagur rís hann, ögrandi þegir. 

Inn í þig smýgur hans seiðandi mál. 

 

Bjartur sem engill andartak er hann - 

alheiður berar sig blámanum í. 

Á sömu stundu í fötin sín fer hann; 

frostkalda þoku og óveðursský. 

 

Hvers vegna að klifra´hann?

Hvers vegna að sigra´hann?

Hvers vegna öll þessi armæða´og strit?

Hví ertu, góði, að gera þig digran?

Gættu þín, vinur, skortir þig vit?

 

Hvers vegna finnst þér hans ögrun til ama?

Af hverju´að hætta sér klærnar hans í?

Svarið er einfalt og alltaf það sama:

Af því hann er þarna, bara af því. 

         ..............

Hnjúkurinn gnæfir, til himins sig teygir. 

Hríslast um makka hans óveðursský. 

Af hamrastáli öskrandi´hann fleygir 

ísköldum hjarnþiljum fárviðri í. 

 

Sýnist hann reiður, áfram vill ögra. 

Á þá hann skorar sem líta hans mynd. 

Þolraunin bíður þeirra sem skjögra

þreyttir á Ísalands hæsta tind. 

 

Hvers vegna að klifra´hann?

Hvers vegna að sigra´hann?

Hvers vegna öll þessi armæða og strit?

Hví varstu, góði, að gera þig digran?

Gastu´ekki stillt þig? Skorti þig vit?

 

Hvers vegna fannst þér hans ögrun til ama?

Af hverju´að hætta sér klær hans í?

Svarið er einfalt og alltaf það sama: 

Af því hann er þarna, bara af því. 

Af því hann er þarna, bara af því. 


mbl.is Hjólaði upp á Hvannadalshnjúk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í upphafi ferils að fara með lygar, - og gera það aftur og aftur.

Við vorum ungir, fréttaþulir Sjónvarpsins, sem þurftum að sitja í fréttasettinu fyrir framan alla þjóðina og fara með lygar með traustvekjandi svip þegar greint var frá hryllilegum atburðum og glæpaverkum í Dráttarbrautinni í Keflavík. 

Svona upphafi ferils sem fastráðinn fréttamaður, gleymir enginn svo glatt.

Að vísu vorum við að segja frá meintum vitnisburðum þeirra, sem áttu að hafa verið í Dráttarbrautinni, en þannig var um málið búið, að þjóðin trúði því sem rannsóknarmenn töldu vera sannleika málsins sem þeir hefðu af fagmennsku galdrað fram í vönduðum vitnaleiðslum. 

Nokkrum mánuðum síðar urðum við að setjast aftur fyrir framan þjóðina og fara með aðra, gerólíka sögu, bæði um Geirfinns- og Guðmundarmálin, víxla gerendum og atburðarás og meira að segja breyta Toyota fólksbíl, -  með vélina frammi í og farangursgeymsluna að aftan, - yfir í Volkswagen Bjöllu með vélina að aftan og svo litla farangursgeymslu í nefinu, að í stað þess að opna skottið og setja líkið niður á Toyota, þurfti að klöngrast með meint lík við illan leik inn um mjótt opið á milli framsætisbaks og hurðarstafs í Bjöllunni og troða því í aftursætið, eina staðinn þar sem það gat verið í þessum litla bíl. 

Flest annað var eftir þessu. 

Sjaldan eða aldrei hefur ríkt annað eins fár og hrikaleg samkeppni fjölmiðla í sambærilegu máli við þessi mál og þessu hjá íslensku þjóðinni. 

Þess vegna skiptir smæð þjóðfélagsins ekki máli, heldur það, að þetta gæti gerst þannig hjá heilli þjóð að hún og meira að segja stjórnmál hennar væru undirlögð af þessum hamaförum allt frá æðstu ráðamönnum og niður úr. 

Baltasar Kormákur harmar hve langan tíma málið hefur tekið, en það er skiljanlegt þegar litið er til þess hve návígið er mikið og allir tengdir á einn eða annan hátt á þessu útskeri, sem við búum á. 

Hætt er við að lykilvitni, sem enn hafa ekki verið yfirheyrð, verði ekki ofar foldu þegar til þeirra þyrfti að leita. 


mbl.is Hræðist ekki gerð þátta um Geirfinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. maí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband