Bóndinn barði konuna... ...kötturinn klóraði í hænuna.

Einhvern tíma heyrði maður sögu sagða af því að bóndi lamdi konu sína, konan lamdi vinnukonuna, vinnukonan lamdi strákinn, strákurinn sparkaði´í hundinn og hundurinn glefsaði í köttinn sem klóraði í hænuna. 

Allir aðilar þessara árekstra áttu það sameiginlegt að "hefna þess í héraði sem hallaði á Alþingi", þ. e. að nýta sér yfirburði gagnvart veikari aðila. 

Ég hef um ævina unnið undir stjórn ótal manna og verkstjóra og eitt sinni undir stjórn manns sem stundum var úrillur á morgnana og hreytti fúkyrðum í þá sem hann stjórnaði. 

Vitað var að þessi verkstjóri var giftur skapmikilli skörungskonu, og hvískruðu menn sín á milli þegar ólundarmorgnar runnu upp, að verkstjórinn hefði farið halloka á Njálsgötunni. (Götunafnið er valið af handahófi). 

Það tæpa ár sem ég hef að mestu ferðast um á rafreiðhjóli og léttu vespuvélhjóli sést það koma fyrir að einstaka bílstjórar ganga harkalega fram gegn vélhjóla- og hjólreiðamönnum. 

En síðan sést líka hvernig einstaka hjólreiðamenn eða vélhjólamenn sýna gangandi fólki ekki tillitssemi eða virðingu. 

Einna varasamastir eru örfáir hjólreiðamenn, sem freistast til þess að gera hjóla- og gangstíga að kappaksturbrautum og bruna á gríðarlegum hraða með höfuðið niður í bringu til að ná sem mestum hraða, en gera það á kostnað öryggis þeirra sem framundan kunna að vera. 

Á hjólreiðastígum þar sem sérstakar aðstæður eru þarf að koma fyrir glöggum merkingum til þess að auka öryggi og almennt þarf að efla tillitssemi, lipurð og árvekni í umferðinni. 


mbl.is „Þetta er ekki Miklabrautin“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagsmunir og návígi skapa óyfirstíganlega viðkvæmni og sárindi.

Erfiðustu og stærstu deilumálin í samfélagi okkar líða fyrir ýmislegt, en þó einkum þrennt: 

Tvær orsakir og stóra afleiðingu: 1. Stóra peningalega hagsmuni. 2. Mikið návígi í litlu samfélagi. 3. Afeiðinguna, óyfirstíganlega viðkvæmni og sárindi. 

Helstu stórmálin líða fyrir þetta, svo sem fiskveiðistjórnarkerfið, stjórnarskráin og virkjanamálin. 

Í öllum málunum koma stór og öflug valdaöfl við sögu sem eru hafa yfirleitt yfirhöndina í krafti peninga, valdaaðstöðu og getunnar til að ráða atburðarásinni þannig að mótaðilinn er yfirleitt of seinn og lendir alltaf í því að vera að bregðast við. 

Ég er enn að jafna mig eftir merkilegt málþing, sem fram fór í Árneshreppi um helgina, litlu 50 manna samfélagi dásamlegs fólks á flesta lund, sem bætti við fyrri góð kynni af yndislegu umhverfi og ljúfum og heillandi áhrifum þess á samfélagið.

En viðfangsefni málþingsins minnti óþyrmilega á upplifun af samskonar uppákomum í mörgum sveitarfélögum víða um land í gegnum árin, þar sem deilur um eitt stórmál, sambúð manns og náttúru, klauf fólkið og samfélagið, ættir og fjölskyldur í herðar niður, svo að það gekk mjög nærri því. 

Mér er kunnugt um fólk á Austurlandi sem missti heilsuna á meðan á þessum harðvítugu átökum stóð.

Dagsrkáin á málþinginu í Árneshreppi leiddi í ljós mikinn vilja þar um slóðir til þess að láta ekki deilur og rökræður spilla fyrir þeirri vináttu sem svona fámennt samfélag við erfið skilyrði skapar.Vesturverk, Vestfirðir

En jafnframt kom í ljós hve langt þeir eru komnir sem ætla að sveigja Vestfirðinga frá hugmyndum um þjóðgarða og verndarnýtingu helstu náttúruverðmæta fjórðungsins.

Einnig kom í ljós að umræðan öll er á svipuðu plani og var í Bandaríkjunum fyrir hálfri öld og í Noregi fyrir 30 árum.

Til dæmis að hægt verði að gera virkjanasvæðin jafnframt að þjóðgarði. Slíkar hugmyndir voru uppi fyrir heilli öld í Bandaríkjunum, en eru óhugsandi á okkar tímum.

En um það er ákaflega lítil vitneskja hér á landi.hjarta-vestfjarda

Einnig kom vel í ljós á þessu málþingi hverjir það eru raunverulega sem ætla sér að græða á virkjanastefnunni og að þegar virkjanirnar verða komnar í gagnið, skapi þau engin störf á svæðinu sam hýsir virkjunina, gagnstætt því sem raunin hefur verið varðandi þjóðgarða.

Ég vísa til bloggpistils frá í gær um það efni. 

Fulltrúar Landverndar stóðu sig mjög vel í því að flytja af yfirvegun og rósemd fróðleik um eðli og gagnsemi þjóðgarða, en mikið verk er óunnið við að koma þekkingunni og umræðunni á það plan sem hún er erlendis.

Greinilegt er að "áunnin fáfræði" hefur skekkt mjög umræðuna hér á landi um þessi mál. 

Þess má geta að árið 2002 lýsti Kjell Magne Bondevik þáverandi forsætisáðherra Noregs því yfir, að tími stórra vatnsaflsvirkjana væri liðinn þar í landi, þrátt fyrir geysimikið óvirkjað vatnsafl.

Síðan eru liðin 15 ár, en hér á landi erum við með rúmlega 80 nýjar virkjanir í undirbúningi. 

Einn liðurinn í því er að fjársterkir aðilar hafa keppst við að kaupa upp "virkjanajarðir" hér og þar á landinu, líkt og gert hefur verið í Árneshreppi. Líka jarðir á virkjanasvæðum, sem hafa farið í verndarflokk. 

Virkjanirnar, sem Norðmenn eru hættir við, eru einkum svonefndar "þakrennuvirkjanir" í líkingu við Kárahnjúkavirkjun og virkjunina á Ófeigsfjarðarheiði, en miklar áætlanir um slíkt á hálendi Noregs voru uppi fyrir 50 árum.

Þessar virkjanir á svæðum bergvatnsáa eru að vísu tæknilega afturkræfar, en í raun er það viðfangsefni að rífa niður stíflur og mannvirki svo stórt, að komandi kynslóðir standa frammi fyrir gerðum hlut.  

Með því er unnið gegn sjálfbærri þróun og jafnrétti kynslóðanna. 

Þegar deilurnar um sjávarútveginn, virkjana- og stóriðjumálin og stjórnarskrána eru skoðaðar, er aðdáunarvert hvernig tókst að gera Þjóðarsáttina svonefndu árið 1990. 


mbl.is Ósætti innan veiðigjaldanefndar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líka fallegast vestanlands í kvöld?

Hafi verið hlýjast vestanlands í dag var líklege einnig fallegast í þeim landshluta. Borgarfj. Sólarlag

Á leiðinni frá Árneshreppi suður til Reykjavíkur varð að stansa hvað eftir annað til að taka myndir í hinu fallega veðri. 

Hef þá síðustu fyrst, sólin að síga á bak við Ljósufjöll, sem gnæfa í baksýn þegar horft er yfir Borgarfjörð og Mýrarnar. 

Leiðin norður í Árneshrepp liggur um lélegan veg, en landslagið er því fallegra og stórbrotnara. 

Set því inn mynd af veginum þar sem hann liggur undir Reykjarfjarðarfjalli inn í botninn, en Búrfell situr uppi á hálendinu þar inn af. 

Þetta gæti verið mynd í vegahandbók eða ferðariti.Reykjarfj. Árneshreppi 

Neðsta myndin að þessu sinni er síðan af einhverju fallegasta bæjarstæði á Íslandi að mínum dómi, Gjögri, þar sem brýnt væri að varðveita húsin óbreytt, því að þau eru svo vinaleg.  

Fegurð bæjarstæðisins helgast af fjöllunum hinum megin við Reykjarfjörðinn.Gjögur, Árneshreppi

Hvert öðru reisulegra, Byrgisvíkurfjall, Burstarfjall og innar, fyrir utan myndina eru Reykjarfjarðarkambur og fleiri tignarleg fjöll og tindar. Gjögur, útsýni


mbl.is Hlýjast vestanlands í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. júní 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband