Fullkomnar mótsagnir.

Skyndilega sprettur fram hugmynd um miklar framfarir í sjúkraflutningum sem byggist á litlum þyrlum. 

Ekkert er minnst á fjárhagslegt umhverfi þessarar nýju og nauðsynlegu þjónustu á sama tíma sem Landhelgisgæslan hefur verið svelt árum saman og er það enn. 

Fyrstu áratugir þyrlureksturs hjá Gæslunni voru erfiðir og óhöpp tíð.

Þyrlurnar voru of litlar og það tók sinn tíma að læra af reynslunni og byggja upp þekkingu og reynslu. 

Gæslan átti eina minni þyrlu en Super Púmurnar en varð að láta hana frá sér vegna skelfilegs niðurskurðar. 

Nú eiga allt í einu að vera til nógir peningar eða hvað?

Að sjálfsögðu á að stækka og breikka flugflota Gæslunnar og hafa allt sjúkraflugið, á sjó og á landi hjá þeim sem bestu reynsluna og yfirsýnina hafa. 

Annað er "galið."


mbl.is Segir galið að taka flugið frá Gæslunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hús á stærð við Ólafshöllina í Þrándheimi hefði hentað vel.

Ólafshöllin í Þrándheimi var margfalt ódýrari en Harpa en þjónar samt því svæði erlendis sem er næstum alger samsvörun Reykjavíkur og Suðvesturlands, því að Þrándheimur og Þrændalög eru með svipaðan mannfjölda, veðurfar, breiddargráðu og menningu. 

Stóri salurinn í Ólafshöllinni er að vísu aðeins minni en Eldborgarsalurinn og það er aðeins einn smærri salur í byggingunni. En völ er á fleiri sölum í grenndinni og sambyggt við Ólafshöllina eru hótel og verslanir, og fleiri þjónustumiðstöðvar í grenndinni. 

Stóri salurinn í Ólafshöllinni hefur þann kost, að hann var hannaður í leiðinni sem óperuhús. 

Ólafshöllin er dæmi um mannvirki fyrir flutning listar og andlegra verka, sem er ekki svo dýr, að dýrmætir fjármunir fari að óþörfu í annað en listina sjálfa, svo sem rekstur, viðhald og fjármagnskostnaður.

Að þessu leyti voru Útvarpshúsið og Harpa líkast til of stór í upphafi.

En taka verður því að sjálfsögðu sem gerðum hlut og bæði húsin eru falleg, þótt verið sé að byrgja fyrir Útvarpshúsið á alla vegu um þessar mundir og gera það að bakhúsi. 

Hluti af stærð Hörpu fólst í því að um 40% af byggingarkostnaði var greiddur af útlendingum, sem voru hlunnfarnir í bankahruninu. 

Það er svo sem ekkert til að státa sig af fyrir okkur Íslendinga. 

 

 


mbl.is Harpa ekki lengur miðpunktur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ástandið á Reykjanesskaga áfram ömurlegt.

Þegar farið var í vettvangsferðir vegna frétta og þátta um Reykjanesskagann á níunda og tíunda áratug síðustu aldar kom það mörgum í opna skjöldu að sjá, hve hörmulega þessi landshluti var leikinn varðandi beit og uppblástur og herfilegar skemmdir á gróðri og umhverfi af völdum jeppa, vélhjóla og annarra samgöngutækja. 

Nú, meira en þrjátíu árum síðar, mætti ætla að ástandið hafi lagast, en enda þótt það hafi gert það á einstaka svæðum, hafa bara önnur svæði orðið verr úti, allt frá Mosfellsdal, Mosfellsheiði og Þingvallavatni í norðaustri og út eftir öllum skaganum.Eldvörp. Grindavík í fjarska. 

Ofan á þetta hefur það bæst, hvernig sæmilega varfærin sókn í nýtingu jarðvarma í upphafi, hefur færst hratt í aukana og birtist nú ekki aðeins í mikilli ágengni og beinni rányrkju, heldur áformum um að gera allt svæðið frá Svartsengi suður til sjávar fyrir vestan Grindavík að allsherjar virkjanasvæði í örvæntingarfullri baráttu við hið óhjákvæmilega hrun svæðisins. 

Á loftmyndinni sést hluti gígaraðarinnar og Grindavík og ströndin þar vestur af í fjarska. 

Í þessar herför verður vaðið yfir rúmlega tíu kílómetra löngu gígaröðina Eldvörp, eins og sjá má á heimasíðu þeirra, sem þarna eiga hlut að máli, en slíkar gígaraðir frá því eftir ísöld, er hvergi að sjá á þurrlendi jarðar nema á Íslandi. 

Og það þarf að fara alla leið norðaustur fyrir Friðland að Fjallabaki til að sjá annað eins. 


mbl.is Sárin í mosanum grædd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. júní 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband