Tímamót í gatna- og vegagerð?

Það eru liðnir ansi margir áratugir síðan núverandi kynslóð Íslendinga ferðaðist um þjóðvegi og borgarstræti og kynntist því, að ef loka varð vegum, götum eða akreinum, var ekki aðeins sett upp skilti á enda þeirra leiðar, sem var fær, heldur við nógu mörg vega- eða gatnamót í kringum lokaða svæðið, að ökumenn hefðu bæði tíma og val til að fara um hjáleið. 

En svo rammt hefur kveðið að hinu gagnstæða hér á landi, að eitt sinn lokaði verktaki 700 íbúa Háaleitishverfis inni að morgni dags vegna þess að hann þurfti að byrja daginn snemma við að endurnýja slitlagið á Háaleitisbraut. 

Og varð þetta litla reiður þegar fólk dirfðist að finna að því að enginn skyldi látinn vita fyrirfram. Vegarmerki

Eitt sinn minnist ég þess að fólk var látið snarhemla á skurðbakka frekar en að láta það vita með skiltum hvað væri verið að gera. 

Og síðast í fyrra voru lokanir bæði við Garðabæ og Víkurveg austast í Grafarvogshverfi, að aka varð allt að fimm kílómetra aukalega í kringum Garðabæinn til að komast leiðar sinnar. 

Þó var þar aðeins um að ræða eina stutta aðrein af Reykjanesbraut vestur í Garðabæ og hefði munað miklu ef sett hefðu verið upp skilti sem kæmu í veg fyrir að fólk þyrfti að aka suður í Kaplakrika, vestur að Álftanesvegi og loks austur Vífilsstaðaveg. 

En nú er hugsanlegt að tímamót í tillitssemi verktaka við vegfarandur hafi átt sér stað á götunni Stórhöfða þegar sett voru upp þar skilti strax í gær, þar sem greint var frá því að á morgun, það er laugardag, yrði gatan malbikuð, - ef veður leyfði. 

Ó, hvað það er gott að geta sagt svona góða frétt, sem hefur verið svo langþráð! 


Leiknir - um Leikni - frá Leikni - til Leiknis.

Smá ábending:  Leiknir er ekki aðeins nafn á íþróttafélagi heldur líka mannsnafn.  

Og það er líklegt að enginn vilji láta fara rangt með nafn sitt, jafnvel þótt það sé "bara" íþróttafélagið sem hann er í. 

Þess vegna felur fyrirsögnin í sér hvernig nafnið Leiknir beygist. 

Kristófer Sigurgeirsson er þjálfari Leiknis úr Breiðholti, ekki þjálfari Leiknir. 

Ef hann væri þjálfari Þróttar, væri hann þjálfari Þróttar, ekki þjálfari Þróttur. 

Nema hann heiti sjálfur Þróttur og sé þjálfarinn Þróttur. 


mbl.is Orðnir þreyttir yfir fáum stigum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þúsundir númerslausra eða illa merktra húsa.

Hvað eftir annað hefur það komið sér vel fyrir mig og áreiðanlega marga aðra, að á ja.is sé hægt að sjá hvernig húsið lítur út, sem sá aðili býr í sem maður ætlar að heimsækja. 

Ástæðan er sú að um allt höfuðborgarsvæðið er þvílíkur misbrestur á því að húsnúmer megi finna á húsum, að það veldur oft stórvandræðum við að finna viðkomandi hús. 

Í heilu hverfunum, eins og til dæmis Skemmuhverfinu í Kópavogi, vantar húsnúmer að mestu í heilu götunum. 

Síðan er víða illmögulegt að finna út hvaða kerfi er notað til þess að raða húsnúmerum á húsin. 

Af þessum sökum væri mikil afturför fólgin í því að birta ekki myndir af húsunum á ja.is. ásamt korti, sem sýnir staðsetninguna. 

 


mbl.is Vilja áfram birta myndir af heimilum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Órói og óvissa framundan á Bretlandi. May er engin járnfrú.

Það blundar stundum lúmsk löngun hjá stórum hluta þjóða að eiga það sem kallað er "sterkur þjóðarleiðtogi." Gamlir kratar í Svíþjóð sakna Olofs Palme, Þjóðverjar Adenauers og Helmuths Kohl, margir Frakkar De Gaulle og Bandaríkjamenn og Bretar Reagans og Margrétar Thatchers. 

Hér heima minnast margir bláir Sjálfstæðismenn með söknuði valdatíma Davíðs Oddssonar. 

Í stað þess að velja skástu lausninga og sigla sæmilega lygnan sjó í krafti 17 þingsaæta meirihluta ákvað Theresa May öllum á óvænt og þvert ofan í eigin yfirlýsingar að byggja á röngu stöðumati og efna til misheppnaðra kosninga, sem kannski verða til þess að haldnar verði aðrar bráðlega. 

Bara það eitt að ganga á bak orða sinna um að efna alls ekki til kosninga var ekki góð byrjun á ævintýri, sem átti að leiða í ljós hvort hún væri staðföst og farsæl sem forsætisráðherra en hefur nú endað sem misheppnað flan. 

Í hugum margs stuðningsfólks Íhaldsmanna var minningin um dýrðartíma "járnfrúarinnar" miklu, Margréti Thatcher, líka truflandi.  

Fræg varð uppákoman í Bandaríkjunum þegar varaforsetaefnið Dan Quayle fór að líkja sér við John F. Kennedy og andstæðingur hans í kappræðum greip það á lofti og sagði: "Ég þekkti Jack vel og veit því vel að þú ert ert enginn John F. Kennedy." 

Slátrun á staðnum þótt Quayle skolaði i kjölfar George Bush eldri inn í stól varaforseta. 

Nú munu ýmsir segja í hljóði í Bretlandi: Ég þekkti járnfrúna og veit nú að Theresa May er engin Margrét Thatcher. 

Thatcher var að vísu steypt af stóli í innanflokkssamsæri, Kennedy og Palme voru skotnir, Davíð tapaði í fjölmmiðlafrumvarpsmálinu og vék sæti fyrir Halldóri Ásgrímssyni og De Gaulle neyddist til að segja af sér. 

Muhammad Ali, "the greatest", beið í lokin tvo beiska ósigra. En minningar um dýrðartíma á hátindi frægðar þekktra og sterkra einstaklinga trufla marga sem á eftir koma. 

 


mbl.is Verður kosið aftur í Bretlandi?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aukið flækjustig og vandræði vegna Brexit?

Ætlun Theresu May var að gera meirihluta Íhaldsflokksins enn tryggari en hann var og auðvelda með því meðal annars henni og flokki hennar að ganga frá útgöngu Breta úr ESB, Brexit. 

Í staðinn virðist ljóst að eins og staðan er núna gæti May fengið afar tæpan meirihluta, en ef hún missir meirihlutann er ætlunin um fá bætta aðstöðu fyrir hana og flokk hennar til að ráða Brexit til lykta fokin út í veður og vind.

Hvernig sem allt fer var þessi kosningaleiðangur hennar hreint ólánsflan.  

Það að auki yrði veiklun stöðu hennar innan flokksins sjálfs svo mikil að óvissa gæti skapast að því leyti og snúið hlutunum við, að í stað Verkamannaflokks í henglum og óreiðu, færðist það ástand inn í Íhaldsflokkinn. 

Áður en May tók hina snöggsoðnu og djörfu, en í raun glæfralegu ákvörðun um kosningar gat hún horft fram á hafa sterka stöðu næstu ár í breskum stjórnmálum. f

Nú geta gagnrýnendur hennar sagt, að það hafi kannski verið best að hún lyki pólitískum axarsköftum sínum af í stað þess að dreifa þeim yfir á tímann, sem Brexit-málið verður hið erfiða viðfangsefni breskrar stjórnmálamanna. 

Nú eru veður öll válynd, ekki síst ef niðurstaðan verður sú að Jeremy Corbyn verði næsti forsætisráðherra landsins. 


mbl.is Corbyn gæti tekið við taumunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. júní 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband