Þarf ekki að loka Dynjandisheiði?

Sumir vegir lokast af sjálfu sér, eins og á Dómadalsleið, en um aðra hafa menn vélað.Léttir, Hrafnseyrar heiði

Í haust eru 60 ár síðan ég fékk bílpróf og hef síðan þvælst hátt á aðra milljón kílómetra um íslenska vegakerfið. Oft hafa slóðir og vegir komið mér á óvart, en sjaldan eins og í gærkvöldi á einni af helstu stofnbrautum hins íslenska vegakerfis, Vestfjarðavegi, númer 60.

Á leið minni frá Ísafirði til Reykjavíkur á vespuvélhjólinu Létti (Honda PCX) með "einshjólssinfóníuhljómsveitina" lék flest í lyndi til að byrja með þótt það rigndi svolítið.

Það var fallegt að horfa til baka niður í Dýrafjörðinn áður en Arnarfjörðurinn tæki við.Léttir, holur á vegi nr.60 

Fyrirfram hafði ég búist við að um 70 kílómetra malarvegarf kafli frá Þingeyri til Flókalundar myndi tefja mig eitthvað en ekki óraði mig fyrir því að töfin yrði alls ein og hálf klukkustund og ferðin tæki tvær og hálfa klukkstund.  

Allt virtist nokkurn veginn í lagi Dýrafjarðarmegin á Hrafnseyrarheiði, en Arnafjarðarmegin kom forsmekkurinn að því sem ætti eftir að versna á Dyjandisheiði, kaflar með samfelldum holum eða "öfugum holum", steinum sem stóðu upp úr veginum, af því að slitlagið var horfið.

Augljóst að vegurinn yrði ekki heflaður á steinaköflunum, einfaldlega ekki mögulegt.Léttir við Barðaströnd

En síðan tók Dynjandisheiðin við með samfelldri hálli leðju og öllum tegundum af vegarskemmdum.

Verstar voru þó steinbríkurnar á endum brúargólfanna á nokkrum smábrúm, allt að á að giska 15 sendimatrar ígilda hnífa til að skera í sundur hjólbarða eða brjóta felgur og hjól á fólksbílum.

Þarna var komin niðaþoka, og því þorfði ég ekki að stansa til að taka mynd af þessu, var í rauninni dauðhræddur um einhver kæmi og æki aftan á mig þegar ég var hvað eftir annað kominn niður á gönguhraða.

Svona ástand stofnvega er tilræði við vegfarendur. Þegar ég kom til Reykjavíkur hafði vatnsaustur á blautu malbiki ekki getað þvegið aurinn Dynjandisheiðar af hjólinu, - ég ók með hluta vegarins til Reykjavíkur!  Léttir, drulla

Er forsvaranlegt að hafa þennan veg svona á sig kominn án þess að hafa þar neitt aðvörunarskilti?

Uppgefinn hámarkshraði er 80 km/klst. Hvílíkt öfugmæli.

Þegar reynt var að komast hjá því að lagfæra Hvalfjarðarveg á þeim árum sem göngin voru á döfinni, var það afsakað með því að með því væri verið að kasta peningum á glæ, af því að vegurinn væri ekki framtíðarhluti af þjóðvegi eitt.

En slíku er ekki að dreifa á Dynjandisheiðí. Ákveðið hefur verið að vegur 60 liggi til frambúðar yfir þessa heiðí.

Því er það reginhneyksli hvernig ástand hans er.

Og mikið var maður feginn þegar komið var niður á malbikaða veginn sem liggur meðfram norðurströnd Breiðafjarðar með hluta hins vestfirska vegar meðferðis.  


mbl.is Dómadalsleið opin aftur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geta karlar verið "bitastæðir"?

Talað er um "bitastæðar konur" í tengdri frétt á mbl.is 

Hætt er við að þetta orðalag geti farið fyrir brjóstið á mörgum feministanum, sem hugnast ekki tal um konur þar sem notað er orðfæri tengt kjöti og holdi.  

Því að varla verður sagt um eftirsóknarverða karlmenn að þeir séu bitastæðir og þykir vart við hæfi að líkja áliti þeirra á konum við matarlyst.

En kannski er orðalagið viðeigandi um suma kvennamenn.  

 

Þegar holdið er meyrt sumum mönnum hjá

og matgræðgin að vonum

liggur beint við hjá þeim að bragða á 

bitastæðum konum. 


mbl.is Heitustu einhleypu konur landsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meiri möguleikar en fyrir rúmri öld.

Í kringum aldamótin 1900 varð bylting í útgerð á Íslandi með tilkomu vélknúinna fiskiskipa. 

Nú var það ekki jafn nauðsynlegt og áður að vera með verstöðvarnar sem allra, allra næst fiskimiðunum á útskögum og útskerjum.  

Lífið í þessum verstöðvum var afar erfitt og er Oddbjarnarsker yst á Breiðafirði gott dæmi um það. 

Nú fluttist sjávarútvegurinn inn í hafnarlægi inni á fjörðum, en samt sem næst fiskimiðunum. 

Síðasta aldarfjórðung hefur enn orðið bylting á þessu sviði, og nú í því formi að safna útgerðinni og fiskvinnslunni saman á miklu færri stöðum en áður var. 

Þetta hefur kostað mikla röskun en munurinn nú og fyrir rúmri öld er sá, að þjóðfélagið á miklu meiri möguleika núna til að draga úr henni en á tímum einhverrar fátækustu þjóðar í Evrópu. 


mbl.is Meirihluta boðin áframhaldandi vinna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Furðulega fjölbreytt veður á hjólaferðalagi í gær.

Á hringferð um Vestfirði, leiðinni frá Hólmavík til Ísafjarðar og síðar í suður frá Ísafirði í gær var veðrið aldeilis furðulega misjafnt. 

Kannski verður maður meira var við þetta á vélhjóli en á bíl, en í Ísafjarðardjúpi voru margar tegundir af veðri og blés úr tveimur ólíkum áttum, annars vegar á sunnan en hins vegar lagði hafgolu inn firðina. 

Og ýmist rigndi eða að sólin skein í heiði. 

Svona hélt þetta áfram alla leiðina, bjart á Ísafirði, rigning í Önundarfirði, þurrt í Dýrafirði en þokusuddi Arnarfjarðarmegin á leiðinni yfir Hrafnseyrarheiði.

Það var rigning og blindþoka á Dynjandisheiði, en stafalogn, sléttur sjór og flugur í loftinu í Vatnsfirði. 

Á Hjallahálsi var síðan slydduhraglandi sem kom úr suðvestri en frá Gilsfirði var þveröfug vindátt, norðaustan. 

Ennþá virðist þetta sumar ekki ætla að verða mjög ferðamannavænt. Gæti það bæst ofan á hækkun krónunnar sem vandi fyrir ferðaþjónustuna. 

 


mbl.is Þrumuveður og haglél í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. júlí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband