Meðaltölin segja allt.

Að meðaltali rignir um 800 millimetra á ári í Reykjavík og hitinn í júlí rétt slefar yfir 10 stig. Að meðaltali er hámarkshiti hvers dags 13 stig en lágmarkshitinn á nóttinni 8 stig. 

Að meðaltali er sólskin 6 stundir á dag. 

Á sunnanverðu landinu taka mótshaldarar útihátíða í raun mikla áhættu, því að líkurnar á rigningu mótsdagana eru 2 á móti einum, rigningunni í vil. 

Þess vegna var það skemmtilega orðað hjá Jónasi heitnum Guðmundssyni stýrimanni, að bjartsýni Íslendinga varðandi útiskemmtanir væri með ólíkindum, - það væri eins og þeir héldu að það rigndi aldrei nema 17. júní. 

En eitt meðaltal er alltaf eins þess efnis að í tvo mánuði á hverju ári, frá því um 20. maí til 20. júlí, er birta allan sólarhringinn, þegar miðað er við þann tíma sem sólin fer ekki meira en 6 gráður undir sjóndeildarhringinn. 

Enn lengri er þessi tími fyrir norðan. 

Og þetta síðasta atriði vegur þungt þegar valið stendur milli þess að halda sig á skerinu eða fara utan. 


mbl.is Venjulegt íslenskt sumarveður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snjóþyngsta svæðið í vor. Vandrataður meðalvegur.

Kjalvegur og Sprengisandsleið eru fjallvegir sem oft eru nefndi í sömu andrá. Um báðar leiðirnar gildir það að afar vandmeðfarið er við viðhald og endurbætur á þeim. 

Þar togast á kröfur um sem allra best aðgengi og kröfur um sem ósnortnast land. 

Hvað Kjalveg snertir hefur æ lengri hluti leiðarinnar verið "lagfærður" með því að gera upphleyptan og sem beinastan veg. 

Þetta hefur verið gert í bútum svo að aldrei hefur farið fram neitt mat á umhverfisáhrifum. 

Nú er mál að því linni og að farið sé í vandaða vinnu við það að undirbúa það að stór miðhálendisþjóðgarður verði að veruleika, þar sem þess sé gætt að vaða ekki stjórnlaust áfram með gerð upphleyptra vega á borð við þá sem eru í byggð. 

Einkum er mikilvægt að Sprengisandsleið verði látin halda sér sem óbreyttastri, því að dýpsta upplifun ferðamannsins felst í því að hún haldi þeim töfrum sem "safari"-slóð býr yfir. 

Raunar sýnir ástand ýmissa þjóðbrauta í byggð eins og þann kafla, sem liggur um Dynjandisheiði, að það er forgangsverkefni að gera slíka vegi boðlega og að heilsársvegum. 

Þegar Dýrafjarðargöng verða komin breytast allar aðstæður til samgagna á sunnanverðum Vestfjörðum og raunar ætti þegar í stað að hefjast handa við það löngu tímabæra verkefni að gera varanlega og endanlega vegarbót þarna. 

Í vor var mestur snjór á syðsta hluta Sprengisandsleiðar og nú er vegurinn verst á sig kominn þar, einmitt á þeim kafla þar sem gerður var upphleyptur vegur í sambandi við Kvíslaveitu. 

Sem sýnir, að það er ekki algilt að slíkir vegir endist betur en gömlu slóðarnir. 

Það er vegna þess, að í svona vegi er ekið grófu grjóti og haft fínna undirlag efst. 

Ef veginum er ekki haldið í horfinu með því að bera fínt lag á hann, "slitnar" efsta lagið og gróft grjótið undir kemur upp. 

Á ferðum í Eþíópíu kynntist ég beinum og breiðum upphleyptum vegi sem Ítalir gerðu á árum Mussolinis. 

Honum hefur ekkert verið haldið við í 80 ár og er nú svo illa farinn, að lengst af er ekið á jeppum meðfram veginum, enda leiðin alls ekki fólksbílafær. 

 


mbl.is Endurbætur á slæmri Sprengisandsleið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamalkunnugt grimmdarstef. Sagan endurtekur sig.

Tyrkir frömdu þjóðarmorð á Armenum í Fyrri heimsstyrjöldinni og hafa ekki viljað viðurkenna það. 

Jósef Stalín lét drepa tugþúsundir "svikara" úr röðum yfirmanna í hernum og forystumanna í kommúnistaflokknum fyrir utan milljónirnar sem voru drepnar beint og óbeint af hans völdum. 

Adolf Hitler styrkti stöðu sína meðal áhrifamanna í þýskum stjórnmálum og þjóðarinnar á "Nótt hinna löngu hnífa" þegar hann lét drepa "svikarann" Ernds Röhm og fleiri yfirmenn SA-sveitanna. 

Fólkinu fjölgaði næstu árin, sem hyllti hann og tók vaxandi þátt í glæsilegum fjöldasamkomum í Nurnberg og víðar.

"Svikarana" í banatilræðinu 1944 lét Hitler miskunnarlaust drepa á sem allra kvalafyllsta hátt.

Á Filippseyjum boðar valdamaður það, eins og ekkert sé sjálfsagðara, að skjóta beri fíkniefnasala nánast af handahófi á götum úti.

Múgurinn fagnar Erdogan þegar hann boðar þá ætlun sína að "afhöfða svikarana".

Alls hafa um 200 þúsund manns verið handteknir í landinu.

Já, sagan endurtekur sig hvað snertir hið gamalkunna stef blöndu af drápsfíkn, miskunnarleysi, sjúklegri tortryggni og ofsóknum í nafni öryggis, friðar og hugsjóna.

Hvað dauðarefsingarnar varðar geta vestrænar lýðræðisþjóðir lítið sagt, því að forysturíki þeirra viðgangast dauðarefsingar enn og hið illræmda fangelsi Guantanamó er fyrirmynd hins dráps- og hefndarfíkna forseta Tyrklands að hans sögn.  


mbl.is Vill „afhöfða svikarana“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. júlí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband