Vanmat er oft hættulegra en vangeta.

Vanmat á andstæðingnum er eitthvert hættulegasta fyrirbrigði í íþróttum, hernaði og allri samkeppni. Dæmi um slíkt eru óteljandi.

Í þeim leikjum Íslendinga á EM í knattspyrnu í fyrra, sem skiluðu Íslendingum upp úr riðlinum, trúðu andstæðingar Íslendinga því ekki að íslenska liðið gæti staðið þeim jafnfætis eða sigrað þá. Þó var um að ræða íþrótt þar sem hundaheppni eða óheppni geta breytt úrslitum leikja. 

Í leik Íslendinga og Englendinga, þar sem Englendingar fengu óskabyrjun, var áberandi hvernig enska liðið brotnaði smám saman niður við óvænt mótlæti. 

Fyrirfram var talað um það að Gunnar Nelson hefði helst þurft að fá öflugri mótherja í gærkvöldi. 

Slíkt upplegg fól í sér vissa hættu, þótt keppandi án sjálfstrausts sé líka illa staddur.

Í öllum þeim bardögum, sem Muhammad Ali tapaði, var orsökin vanmat hans á getu mótherjanna og ofmat á eigin getu.

Í fyrstu þremur tapbardögunum hefði Ali getað sigrað ef hann hefði metið stöðuna rétt.

Síðustu tvo bardagana á ferlinum gat hann hins vegar alls ekki unnið og hefði betur látið það ógert að stíga inn í hringinn.

Á útmánuðum 1940 sagði Neville Chamerlain forsætisráðherra Breta: "Hitler er búinn að missa af strætisvagninum."  Annað kom á daginn í maí.

Í ársbyrjun 1942 biðu Bretar sinn stærsta ósigur fram að því þegar þeir misstu Singapúr. Enn var það skakkt stöðumat sem réði úrslitum.

Hrikalega skakkt stöðumat Bandaríkjamanna um ástandið í Íran kom þeim í koll 1979.

Það hefði svo sem verið þolanlegt fyrir þá ef þeir hefðu lært af þessum mistökum, en vanmat á aðstæðum í Miðausturlöndum hefur fylgt þeim æ síðan með þeim afleiðingum að mistökin eru fyrir löngu orðin of mörg.  


mbl.is Því lélegri sem þær halda okkur því betra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Falsfrétt, - var enginn eldur?

"Þetta var enginn eldur," voru svör talsmanns kísilvers United Silicon eftir að slökkvilið Brunavarna Suðurnesja var kallað út í nótt. 

Sem sagt: Það kviknaði ekki í. Þetta var hvorki bruni né eldsvoði. 

Á öllum fjölmiðlum var hins vegar sagt að eldur hefði komið upp í kísilverinu.

Voru það þá falsfréttir? 

Hér ber aðilum ekki saman og er það ekki í fyrsta sinn sem slíkt gerist á þessum stað. 

Forsvarsmenn versins virðast ætla að fá okkur til að trúa því að þetta hafi svo sem ekki verið neitt, slökkviliðið hefði ekki þurft ekki að slökkva neinn eld og hefði því líkast til verið kallað út að óþörfu. 

P. S.  Greint frá því í kvöldfréttum Stöðvar 2 að þetta væri í þriðja sinn á þremur mánuðum sem slökkvilið væri kallað að verksmiðjunni. 


mbl.is Eldur í kísilverinu í Helguvík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Þjóðleikhúss-slysið" þrefalda.

Þjóðleikhúsið er meðal allra merkustu bygginga frá fyrstu áratugum steinsteypualdarinnar hér á landi. 

Guðjón Samúelsson, fyrsti húsameistari ríkisins, hafði sjálfur mikið dálæti á þessari smíð sinni, ekki minni en á Hallgrímsskirkju, sem hefur fengið uppreisn æru hin síðari ár, eftir hatrammar deilur um hana í áratugi. 

Því miður skorti íslenska ráðamenn kjark og víðsýni til að velja Þjóðleikhúsinu þann stað sem hefði verið samboðinn svo merkri byggingu. 

Húsinu var kúldrað niður í þrengslum á milli annarra bygginga, þannig að það nýtur sín hvergi nærri. 

Húsið stóð óklárað og óupphitað í fjölmörg ár og þetta fór afar illa við það.

Fyrir bragðið varð að ráðast í rándýrar endurbætur á því. 

Stórt tækifæri bauðst þá til að bæta fyrir mistökin með því að reisa húsið að nýju í óbreyttri mynd að mestu á stað sem hæfði því, til dæmis efst á Ártúnshöfða þar sem það hefði sést víða að úr öllum áttum. 

Þetta var ekki gert og örlög Þjóðleikhússins leika því stórt hlutverk í bókinni "Reykjavík, sem ekki varð" og kvöldgöngu höfundanna. 

Ef Þjóðleikhúsið hefði verið reist á Arnarhóli, hefðu borgarbúar og landsmenn verið sviptir þeim möguleika að hafa þar marga af merkustu útiviðburðum sögu okkar. 

Nýtt dæmi um það er Víkingaklappið þegar landsliðinu í knattspyrnu var fagnað þar í fyrrasumar. 

Gallinn við skipulag Reykjavíkur er sá, að það hefur verið viðleitni til að kúldra alltof mörgum stórmerkum byggingum saman í kös á litlu svæði. 

Um þessar mundir er verið að endurtaka þetta með því að umkringja Útvarpshúsið með íbúðablokkum. 

Ég var einn af þeim sem gagnrýndi á sínum tíma það að upphaflegu hugmyndirnar um Útvarpshúsið fælu í sér alltof stórar og margar byggingar, þ.e alls þrjár. 

Í stað þess að arkitektunum yrði falið að teikna húsið upp á nýtt, var ákveðið að taka hljóðvarpshluta þess og troða öllu inn í það. 

Þannig er stóra myndverið í húsinu upphaflega hannað sem hljóðver og margt annað eftir því. 

En burtséð frá þessu er því ekki að neita, að Útvarpshúsið var og er fallegt og glæsilegt hús, og úr því að svo varð, er nú verið að endurtaka "Þjóðleikhússslysið" uppi í Efstaleiti með því að drekkja því og gera það að bakhúsi á milli íbúðablokka. 


mbl.is Reykjavík sem ekki varð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svipað og hjá Max Schmeling og Joe Louis 1936.

Fyrir bardagann við Joe Louis í júní 1936 sagði Max Schmeling að hann "hefði séð svolítið" varðandi andstæðing sinn. 

Í bardaganum kom í ljós hvað það var sem Schmeling hafði séð með því að skoða gaumgæfilega kvikmyndir af fyrri bardögum Louis.  Schmeling sá að Louis hætti til að halda vinstri hendinni of lágt eftir að hafa gefið vinstri stungu. 

Þetta hentaði Schmeling vel, því að skæðasta högg hans var "yfirhandar hægri" (overhand right). 

Hann æfði sig því í því að slá hratt og þungt gagnhögg sekúndubroti eftir högg Louis þar sem hægri hönd Þjóðverjans fór yfir vinstri handlegg Louis. 

Í 4. lotu heppnaðist þetta fullkomlega og skyndilega lá Louis í gólfinu í fyrsta sinn á ferlinum. 

Schmeling fór sér samt að engu óðslega heldur barðist áfram af varfærni og nagaði Louis smám saman niður með yfirhandarhöggum sínum, sem urðu alls 51 í bardaganum. 

Muhammad Ali notaði svona högg til að snúa erfiðum bardaga við Ron Lyle við 1975. 

Gunnar Nelson gaf á sér færi sem var of gott til þess að hann gæti sloppið með það. 

Eldsnarpt og þungt yfirhandar hægri högg vankaði hann og bardaginn var búið spil. 

Því fór sem fór. 

 


mbl.is Gunnar Nelson rotaður illa - myndskeið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. júlí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband