Það væri stórfrétt ef meiðslum vegna hjólreiða fjölgaði ekki.

Í tengdri frétt er greint frá fjölgun meiðsla vegma hjólreiða. En það er á mörkum þess að vera frétt, heldur afleiðing af því sem allir vita. Skoðum málið nánar. 

Afar fá bílslys og banaslys vegna bíla urðu á fyrstu áratugum bílaaldarinnar hér á landi. 

Það var vegna þess hve bílar voru fáir og þeim ekið lítið. 

Þegar bílslysum fjölgaði var það fyrst og fremst vegna fjölgunar bíla. 

Í nútíma mati á slysahættu á vegum er miðað við samtals ekna kílómetra. 

Svipað má segja um hjólreiðar. 

Þegar hjólum fjölgar mikið og þar með samtals hjóluðum kílómetrum, fjölgar samtals meiðslum og slysum í takt við það. 

Annað væri stórfrétt. 

Á hinn bóginn er það gott ef reynt er að finna út hvort slysunum fjölgar hraðar en samtals hjólanotkun gefur tilefni til. 


mbl.is Meiðslum vegna hjólreiða fjölgar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sérkennilegt þetta með Al-Jazeera.

Sjá má þau viðbrögð á blogginu hér heima að Al-Jazeera sé eitur í beinum Sáda og Egypta vegna þess að stöðin boði íslamska öfgastefnu. 

Það er ekki víst að það sé aðalástæðan heldur hitt að stöðin setti sér það stefnumark í upphafi að standa jafnfætist bestu sjónvarpsstöðvum Vesturlanda hvað varðaði vandaðan og óhlutdrægan fréttaflutning, en slíkur fréttaflutningur ætti frekar að hræða nágrannaríkin en íslamskt trúboð. 

Þegar Eyjafjallajökull gaus 2010 átti ég samstarf á ýmsan hátt við flestar helstu sjónvarpsstöðvar Evrópu, og einnig við stöðvar í Ísrael, Bandaríkjunum, Afríku, Ástralíu og Asíu. 

Það vakti athygli mína hve snjallt sjónvarpsfólk Al-Jazeera hafði á sínum snærum. 

Enda hafði stöðin einfaldlega notað sterka fjárhagsstöðu sína til að kaupa til sín bestu kunnáttumenn sem þeir fundu í Evrópu til þess að vinna fyrir sig og setja markið hátt. 

Vinir mínir hér á landi, sem fylgdust vel með sjónvarpi víða um heim höfðu að vísu sagt mér frá því hve góð og öflug Al-Jazeera væri og að hún hefði mikið áhorf víða um lönd vegna þess að hún stæði því besta á sporði og kæmi, vegna nálægðarinnar við suðupott Arabaríkjanna og öfluga sjónvarpsmenn, oft með athyglisverðar fréttir þaðan.

Væri svolítið eins og vin í eyðimörkinni á þeim vettvangi. 

En ég var samt svolítið vantrúaður á það.

En vinnubrögð Al-Jazeera manna á jafn fjarlægum vettvangi og Íslandi sýndi, að þetta var rétt. Þeir "skúbbuðu" æði oft og köfuðu í málin eftir vestrænum aðferðum. 

Þeim datt meira að segja í hug að vera með beinar útsendingar héðan og vera jafnvel með ígildi slíkrar útsendingar með því að láta fréttamann lýsa því beint úr flugvél við hliðina á mér, hvernig höggbylgjurnar frægu frá gosinu, skullu á flugvélinni í návígi við fjallið.

Það skyldi þó ekki vera að sjónvarpsstöð sem hefur oft verið og vin í eyðimörkinni þarna eystra sé eitur í beinum í alræðisríkjum eins og Sádi-Arabíu? 


mbl.is Katarar óttast ekki afleiðingarnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar Blönduvirkjun átti að "bjarga" Norðvesturlandi.

Íslendingar tóku kristnitrú árið 1000 og áltrú árið 1965.  Í samræmi við síðari trúna var það hald manna í kringum 1980 að með Blönduvirkjun myndi verða hægt að "bjarga" Norðvesturlandi, það er, að sú virkjun myndi skapa fólksfjölgun á Norðvesturlandi. 

Virkjunarframkvæmdunum fylgdi uppgangstími í nokkur ár. Allir sem áttu vörubíla eða gröfur voru meðmæltir virkjuninni og nýttu sér aðstöðu sína.

Fasteignaverð hækkaði á svæðinu um hríð og þeir sem vildu selja, gátu gert það og flutt í burtu. Sem þeir gerðu margir.

En það gleymdist í allri skammgræðginni, að enda þótt virkjunarframkvæmdirnar sköpuðu ákveðinn fjölda starfa, urðu jafnmargir atvinnulausir þegar framkvæmdunum lauk.

Á meðan allt snerist í kringum framkvæmdirnar ruddi það hugmyndum um "eitthvað annað" í burtu og þegar búið var að nýta sér hinn skammvinna uppgang, fór í hönd lengsta og mesta fólksfækkunarskeið í sögu fjórðungsins.

Nú er svipað að gerast hinum megin við Húnaflóann. Í Árneshreppi sjá menn fram á 3-4 ára uppgangstíma á meðan Hvalárvirkjun verður reist.

Eigendur virkjanajarðanna, vörubíla og grafa munu hagnast og einfasa rafmagn víkja þar sem það er enn.

Munnleg loforð virkjanamanna um að hjálpa til við nokkur atriði á svæðinu svo sem lagfæringar á sundlaug og höfn, nægja.

Þegar allt dettur í dúnalogn eftir framkvæmdaárin mun virkjunin hins vegar ekki skapa eitt einasta starf á svæðinu.

Nettótekjur sveitarfélagsins munu aukast um 15 milljónir króna á ári, sem er álíka upphæð og borguð er fyrir tvö störf.

En niðurstaða ótal ráðstefna um byggðamál er sú að ein staðreynd ræður mestu um líf eða dauða byggðarlaga: Fjöldi kvenna á barneignaaldri.

Þær eru tvær í Árneshreppi.

Á málþingi í hreppnum kom fram að stofnun þjóðgarða laðar að sér konur á barneignaaldri.

Af 15 föstum starfsmönnum Vatnajökulsþjóðgarðs eru 9 konur, nær allar á þeim aldri.

Af 50 sumarvinnustarfsmönnum eru um 70% konur, nær allar á barneignaaldri.

En það virðist ekki ætla að ráða í Árneshreppi, heldur hugarfarið "take the money and run!", skítt með framtíðina.

Á málþinginu töldu virkjanamenn virkjun og þjóðgarð geta farið vel saman og fullyrtu að það tíðkaðist erlendis að virkja í þjóðgörðum.

Eftir ferð mína í 30 þjóðgarða og 18 virkjanasvæði í sjö löndum er ljóst að það er alrangt, þótt það finnist tvær virkjanir við jaðar þjóðgarða, sem voru reistar fyrir 100 árum þegar önnur viðhorf ríktu.

Norðmenn lýstu því yfir 2002 að tími stórra vatnsaflsvirkjana væri liðinn þar í landi, enda þótt vel virkjanlegt vatnsafl væri að magni til jafn mikið og hér á landi.

En hér lifir áltrúin enn góðu lífi hjá þeim sem ætla að reisa álver við austanverðan Húnaflóa og hafa hamast við að kaupa upp allar jarðir með virkjanamöguleika í fjórðungnum.   


mbl.is Stöðugt fjölgar á höfuðborgarsvæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. júlí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband