Þetta kunna Kanarnir.

Áður en Gleðigangan kom til sögunnar hér á landi, var dapurlegt hvað við kunnum lítið í því að fara í skrúðgöngu. 

Gimli er á stærð við Árborg og því var það sem opinberun 1999 að fylgjast með hátíðarhöldunum á Íslendingadaginn. 

Allir, já, allir tóku þátt í því að gera þetta að stórviðburði. Varla var svo fámennur né fjárvana hópur eða félag til sem ekki sendi sveit í skrúðgönguna. 

Bændurnir komu meira að segja á dráttarvélunum sínum og drógu heyvagna með sveitahljómsveitum á eftir sér. 

Þetta er eitt af því sem Ameríkanar kunna fram í fingurgóma. Skrúðgöngur eru einskonar þjóðaríþrótt. 

Hér á landi ætti skrúðganga 17. júní að vera að minnsta kosti jafn mikilfengleg og Gleðigangan. 

Hin mikla aðsókn áhorfenda að Gleðigöngunni og þátttakan í henni sýnir, að það er þörf fyrir svona sameinandi viðburði hér á landi oftar en einu sinni á sumri. 


mbl.is Ísland í brennidepli á Gimli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vaxandi hótunarógn.

Hótunarógnin af Norður-Kóreu er nú orðin slík, að heimsbyggðin stendur frammi fyrir miklum vanda. 

Meginkostirnir sem staðið er frammi fyrir, eru tveir, og báðir slæmir. 

Annar er sá að ráðast af slíku afli á Norður-Kóreu að valdhafarnir þar fái ekki nægt ráðrúm til að svara í sömu mynt. 

Hinn er sá að reyna að halda aftur af valdhöfunum með enn meiri efnahagsþvingunum en hingað til. 

Gallinn er sá við fyrri kostinn, að Norður-Kóreuher getur valdið óskaplegu tjóni í Suður-Kóreu jafnvel þótt árás Bandaríkjamanna verði eins "fyrirbyggjandi" og mögulegt er.

Gallinn við síðari kostinn er hins vegar sá, að Norður-Kóreumenn virðast staðráðnir í því að efla kjarnorkuherafla sinn, sama hvaða þvingunum þeir eru beittir.

Þá er aðeins þriðji kosturinn eftir, svipaður því þegar fyrrverandi Bandaríkjaforseti heimsótti goðsögn Norður-Kóreumanna rétt fyrir andlát hins síðarnefnda og tókst að fá hann til að leggja af kjarnorkuáætlun landsins um sinn.  

Í slíku samkomulagi felst að vísu óbein viðurkenning á ógnarstjórninni í Norður-Kóreu en samt er þetta líklega illskásti kosturinn. 


mbl.is Fullyrða að N-Kórea sé nú kjarnorkuveldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lítið dæmi um komandi byltingu,- hugsanlega þá stærstu.

Sú bylting, sem er að hefjast varðandi vélmenni og hvers kyns tæki, sem stjórnað er af gervigreind, er hugsanlega sú mesta í sögu mannkynsins. 

"Læknar" með gervigreind geta nú þegar til dæmis skipulagt hinar flóknustu meðferðir í krabbameinslækningum mun betur en mannlegir læknar, enda fer vél-læknirinn létt með að tileinka sér fróðleikinn úr 8000 árlegum greinum um þetta efni í læknatímaritum. 

Sjálfvirknin í akstri bíla er handan við hornið, og nýjustu ofurtölvurnar og vélmennin geta "þroskast" og lært á svipaðan hátt og manneskja gerir á æsku- og unglingsárum og þróast í persónuleika. 

Hið skuggalega við þessa byltingu er svipaðs eðlis og árásir tölvuþrjóta, möguleikinn til þess að prógrammera illvilja á nýju stigi inn í svona búnað. 

Einnig er skuggalegt til þess að hugsa að hernaður framtíðarinnar felist í enn meiri firringu þeirra sem stjórna honum en nú er, það er að drepa og valda óbætanlegu tjóni án þess "að koma nálægt" því líkamlega. 


mbl.is Dróni lokaði flugbrautum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grein um dýravernd í frumvarpi stjórnlagaráðs.

Í frumvarpi stjórnlagaráðs er stutt en hnitmiðuð grein um dýravernd. Sumir kunna að segja að nóg sé að hafa slíkt í almennum lögum, en vitað er að grein í stjórnarskrá setur ævinlega sérstaka áherslu á þau atriði sem þar eru sett. 

Með svona grein er hnykkt á því, að tryggilega sé um hnúta búið og komið í veg fyrir að menn sleppi til dæmis með að borga aðeins eignaspjöll. 


mbl.is Sauðaþjófar skáru lamb á háls
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. júlí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband