Tapað kapphlaup?

Fyrir um 30 árum sat ég við hliðina á Karli Kristjánssyni lækni á leið frá Akureyri til Reykjavíkur.  

Karl reifaði fyrir mér framtíðarsýn í sýklafræðum, sem var hrollvekja og afar fræðandi. 

Á þessum tíma lifðu menn enn í ljóma sigra byltingarkenndra lyfja eða bólusetninga gegn skæðum sjúkdómum eins og berklum, mænuveiki og mislingum. 

Framtíðin virtist björt, en fróðleikur Karls var á skjön við þessa glansmynd. 

Í stuttu máli hann á þá lund, að sýklarnir mynduðu þol gagnvart lyfjunum, og þar ylli mestu ofnotkun á sýklalyfjum og slæleg notkun eiturlyfjafíkla, sem gleymdu að taka lyfin reglulega til enda. 

Smám saman yrði til kapphlaup milli lyfjafræðinga og sýkla, sem endað gæti í því að lyfin yrðu að vera svo sterk til að drepa sýkilinn, að þau dræpu ekki aðeins hann, heldur líka hýsilinn, þ.e. manneskjuna. 

Rúmum tuttugu árum eftir þessa birtingu hins dökka spádóms, lenti ég síðan sjálfur í því að nota þurfti sterkt lyf gegn miklu graftarkýli á baki mínu, af því að venjuleg sýklalyf dugðu ekki. 

Afleiðingin varð sú að líkami minn þoldi ekki lyfið þannig að það varð svonefndur lifrarbrestur. 

Hún þoldi ekki fitu og afleiðingin varð ofsakláði með samfelldu svefnleysi í þrjá mánuði. 

Mikill hluti tímans fór í mók í óráði og raunverulegur svefn fékkst aldrei. 


mbl.is Lekandi að verða ólæknandi?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Skítasyrpan" frá 1977 aftur í gildi?

Áður en borgarstjórn Reykjavíkur tók sér tak á áttunda áratugnum og lét reisa hreinsistöðvar á strandlengju borgarinnar, var ástandið ekki beysið. 

Einkum var það slæmt í nálægð Nauthólsvíkur, þar sem enn leyndust brunnin flugvélaflök og affallsleikur frá hitaveitukerfinu var athvarf ölvaðra eftirlegukinda af dansleikjum borgarinnar. 

Þá söng ég á skemmtunum svonefnda "Skítasyrpu" þar sem ástandinu var lýst undir ljúfum þekktum íslenskum lögum. 

Nú gæti Skítasyrpan átt við að nýju. Laganöfnin í svigum.    

 

                            SKÍTASYRPA.

(Litla flugan)              Lækur tifar létt um smurða steina. 

                            Ljósbleik fjóla deyr við Hlíðarfót.

                            Brunnið flak er brotið milli hleina.

                            Í blárri leðju liggur mökuð snót.

                            Þótt ég væri ógnar olíusuga

                            ég aldrei gæti þurrkað þennan pytt.

                            En aðrir sem til annar ekki duga

                            þeir eflaust gætu áfram gert þar hitt.

(Nú blikar við sólarlag)    Nú blikar við sólarlag saurgerlafjöld

                            og svona´ætti´að vera hvert einasta kvöld

                            með ilmandi fýlu og flökrandi blæ

                            og fjöruna brúna og myglandi sæ. 

(Lapi Listamannakrá)        Ef lambasteik þú færð að borða´á Loftleiðahóteli

                            og labbar þig svo næsta morgun þar á salerni. 

                            Í hlýju veðri´í sjóinn ferð að hressa kroppinn þinn

                            þá hittirðu þar máltíðina þína´í annað sinn

                            og syndir fram á fyrrverandi lúxuskvöldverðinn. 

 (Fuglin í fjörunni)        Fuglinn í fjörunni, hann er mjög blár,

                            drullubleik er húfan hans og olíulitað hár - 

 Hvítu mávar)               skítamávar, segið þið honum 

                            að þið salmonellum dritið út um allt. 

                            Ljúfasta salmonella, 

                            ástvina mín la bella

                            í görnum þú glöð vilt sprella 

                            og gefa mér bleikan lit, 

                            salmonella!  Gubbugella!

 

                                                                   

 

 


mbl.is Saurgerlamagn yfir mörkum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aftur Reagan og Gorbatsjof eða ekki?

Þegar Ronald Reagan og Michael Gorbatsjof hittust fyrst í Vín 1985 stóð Kalda stríðið sem hæst. 

Reagan hafði nýtt alla slægustu ráðgjafa sína til að sjá svo um að Sovétríkin væru að komast í óbærilega stöðu í Kalda stríðinu, þyrftu að draga her sinn út úr Afganistan og aðlaga sig lækkuðu olíuverði. 

Reagan jók herafla Bandaríkjanna og setti fram umdeilda en harða "Stjörnustríðsáætlun" og það hafði verið ófriðarlegt í Evrópu vegna deilna um uppsetningu eldflauga. 

1983 stóð tæpast að allsherjar kjarnorkustyrjöld hæfist vegna lúmskrar bilunar í tölvustýrðu aðvörunarkerfi Sovétmanna. 

En í Vín og síðar enn frekar í Reykjavík 1986 náðist persónulegt samband á milli leiðtoga risaveldanna sem síðar leiddi til loka Kalda stríðsins og falls Sovétríkjanna án stórfelldra vandræða. 

Nú standa Rússar í raun enn lakar en 1985 varðandi efnahagslegt bolmagn, þótt þeir spili vel úr spilum góðs herafla og nýtingu hans í furðu vel ígrundaðri utanríkisstefnu.

Og í bakhöndinni hafa þeir annað af tveimur lang stærstu kjarnorkuvopnabúrum heims.

Það er ekki ómögulegt að það geti myndast jafn gott samband á milli Trumps og Pútíns og það sem myndaðist á milli Reagans og Gorbatsjofs.

En viðkvæm staða á Kóreuskaga og í Miðausturlöndum getur raskað myndinni. 


mbl.is Allra augu á Trump og Pútín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvörfin eru oft miklu áhrifameiri en dauði.

Allir deyja einhvern tíma og hlíta þeirri meðferð skjala og líkamsleifa sem staðfestir líf þeirra og dauða. 

En jafnvel þótt dauðdaginn geti verið dramatískur virðist ekkert taka því fram að manneskja hverfi sporlaust. 

Amalía Erhardt vann afrek, sem nægðu til að halda nafni hennar á lofti í nokkra áratugi, en það eitt hvernig hún hvarf sporlaust og að sífellt hafa komið fram nýjar og nýjar kenningar um afdrif hennar, hefur hins vegar orðið til þess að frægð nafns hennar endurnýjast aftur og aftur.

Hér á landi þekkjum við svipuð fyrirbæri, sem halda lífinu í frægð horfins fólks að því er virðist endalaust, svo sem hvarf séra Odds í Miklabæ, dularfull örlög Reynistaðabræðra og hvörf þeirra Guðmundar Einarssonar og Geirfinns Einarssonar.  


mbl.is Lést Earhart í japönsku fangelsi?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. júlí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband