Þetta er ekki þolandi?

"Kvenmannslaus í kulda og trekki kúri ég volandi, - 

þetta´er ekki, ekki, ekki, ekki þolandi...

þetta´er ekki, ekki, ekki ekki þolandi. 

Þetta er ekki, ekki ekki, ekki þolandi...o.s.frv..."

 

Þessi gamli grallarasöngur kemur í hugann þegar sagt er frá raunum farþeganna, sem var búið að vera innlyksa á flugvelli á Tenerife hátt í sólarhring, en þetta virðist ekki vera gamanefni. 

Furðulegt er, ef satt er, að skrifstofa flugfélags, sem er með ferðir alla daga, er lokuð um helgar.  Af hverju hættir félagið ekki líka að láta vélar sínar fljúga um helgar?

Sömuleiðís er stórundarlegt að fólkið, sem sagt er frá, sefur enn á gólfum flugstöðvarinnar og kvartar yfir kulda og slæmum aðstæðum. 

 


mbl.is „Fólk sefur bara hérna á gólfunum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hriktir í frá Hafnarfirði til Borgarfjarðar eystri.

Sjávarútvegurinn er ekki eina atvinnugreinin sem hefur gengið í gegnum endurteknar byltingar á Íslandi. Verslunin hefur líka gert það og gerir enn. 

Á sínum tíma var Samvinnuhreyfingin með víðtæka verslun um land allt og gegndi víða hlutverki kaupmannsins á horninu í þéttbýlinu. 

Síðan komu Kringlan og á eftir því byltingin, sem Hagkaup og Bónus ollu um allt land. 

Nú er enn ein byltingin að skekja verslunina, Costco í Hafnarfirði. 

Og öldurnar berast um allt land. 

Ég er nýkominn úr ferð um Norðausturhornið og kom bæði á Kópasker og Borgarfjörð eystri. 

Á báðum stöðunum hafa verið litlar verslanir, sem hafa barist í bökkum. 

Í stuttu samtali við kaupmanninn á Kópaskeri sagðist hann ekki vita hve lengi hann gæti haldið áfram rekstrinum. 

Og nú berast þessar fréttir frá Borgarfirði eystri. 

Bullandi uppgangur og uppbygging hefur verið í ferðaþjónustu á þessu svæði eins og víðar, en það virðist varla duga til ef marka má dökkar fréttir af þeirri þjónustu sem verslun á staðnum getur veitt. 


mbl.is „Þetta er leiðinlegt og grautfúlt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Oftast sama sagan: Skortur á upplýsingum.

Auðvitað er í mörg horn að líta hjá flugfélagi þar sem bilun í flugvél eða svipað vandamál hefur skyndilega gert vart við sig. 

En áberandi er hve farþegar, sem þetta bitnar á, kvarta yfir samskiptaleysi flugfélagsins við strandaglópana, kvarta yfir einföldum hlut, sem samt virðist svo oft verða útundan, skorti á upplýsingum. 

Slíkt hefur margföldunaráhrif á afleiðingarnar fyrir farþegana og er áreiðanlegra miklu verra fyrir orðstír og traust flugfélagsins en bilunin og úrlausnin varðandi flugið að öðru leyti. 

Þess vegna ætti það að vera keppikefli flugfélagsins að setja upplýsingaöflun og úrlausn vandamála farþeganna í forgang, því að annað hefnir sín síðar. 

Stundum er ástandið í svona tilfellum skilgreint sem force major. 

Dæmi um það voru hryðjuverkin í Brussel í fyrra, sem voru framin í nokkur hundruð metra fjarlægð frá okkur hjónum. 

Við vorum svo heppin að geta fengið inni hjá syni okkar þá fimm daga, sem það tók fyrir flugfélagið að útvega lausn á ferðinni heim til Íslands. 

Flugfélagið greiddi ekki krónu í skaðabætur, til dæmis vegna aksturs frá Brussel til Amsterdam, þar sem loksins tókst að komast í einu tvö sætin, sem laus voru í ferð fimm dögum síðar. 

Að því leyti virtist það veita flugfélaginu "heppni" að um stórfellt hryðjuverk var að ræða. 

Okkur fannst hins vegar ekki sanngjarnt að öllu tjóninu hvað okkur varðaði skyldi velt á annan aðilann en ekki hinn. 

Og hin langa óvissubið hefði vafalaust virkað þannig á aðra en okkur að verða best lýst með orðunum að draga einhvern á asanaeyrunum. 


mbl.is „Það versta er skorturinn á upplýsingum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ruglandi ímynd Hess.

Það er ekki tilviljun að nýnasistar leitist við að gera minningu Rudolfs Hess að einhvers konar helgisögn í samanburði við orðspor annarra leiðtoga nasista á stríðsárunum. Hess, Churchill

Ástæðan er djarft flug hans á tveggja hreyfla Messershmitt 110 orrustu- og sprengjuflugvél frá Suður-Þýskalandi til Skotlands vorið 1941 til þess koma á friðarviðræðum og bandalagi Breta og Þjóðverja. 

Hess þekkti nokkra málsmetandi áhrifamenn Breta persónulega frá árunum fyrir stríð og vissi að sumir þeirra virtust hafa verið opnir fyrir einhverju slíku. 

Flug Hess var afrek út af fyrir sig. Me110G4_2[1]

Það er ekki hver sem er, sem getur sest aleinn upp í jafn stóra og öfluga herflugvél og Messerschmitt, stolið henni og flogið langa vegalengd fram hjá öllum eftirlitsflugvélum landsins, yfir Norðursjóinn, varpað sér í fallhlíf í rökkri úr vélinni og sloppið lifandi frá því. 

Allt var þetta ævintýralegt og óvenjulegt og nýnasistum væntanlega að skapi til að skapa eins konar hetju úr Hess. Hess og Hitler

Ári fyrir flugið hafði Hitler gert Bretum kostaboð um bandalag, þar sem Þýskaland héti því meira að segja að verja heimsveldi Breta. 

Hess var staðgengill Foringjans allt fram að flugi hans til Skotlands og taldi hann sig því vera í stöðu til þess að þjóna Hitler best með þessu framtaki sínu. 

Hess ímyndaði sér að hægt yrði að endurnýja boðið frá 1940 og fá Breta að samingaborðinu og að ef frumkvæði hans gæti komið þessu á koppinn, yrði það stórkostlegt friðarafrek. 

Hitler afgreiddi hins vegar allt slíkt út af borðinu, enda var staðan önnur en hún hafði verið 1940.  

Hitler sagði, sem líkast til var dagsatt, að Hess hefði brotið trúnað og eingöngu gert þetta á eigin vegum í blóra við sig, enda væri Hess haldinn stórkostlegum skynvillum. 

Hess bar alla tíð mikið hatur til kommúnista, Stalíns og sovésku stjórnarinnar, en hafði eins og fleiri þýskir ráðamenn miklar áhyggjur af væntanlegri herferð Þjóðverja inn í Sovétríkin. 

Megin ástæðan fyrir flugi hans var að fá Breta í lið msð Þjóðverjum gegn Rússum. 

Það mistókst hrapallega en Rússum var ekki sama. 

Af þessum sökum heimtuðu þeir í Nurnbergréttarhöldunum að Hess fengi líflátsdóm, og þegar sæst var á ævilangt fangelsi, sem Vesturveldin töldu hámarksrefsingu vegna þess að Hess hafði svona snemma kúplað sig út úr forystu Nasistaflokksins, fylgdu Rússar því fast eftir að honum yrði aldrei sleppt, sama hve langt varðahaldið yrði. 

Og þannig fór það, en fyrir bragðið hafa nýnasistar fengið tilefni til að gera Hess að píslarvætti. 

Það er auðveldara en ella fyrir þær sakir, að í Kalda stríðinu voru reglulega fluttar fréttir af því að farið væri fram á það að honum yrði sleppt, öldruðum manninum, og að ómannúðlega væri farið með hann.

Fékk Hess nokkra samúð á Vesturlöndum eftir því sem varðhaldið varð lengra og lengra.  

Í erlendri bók um þessi mál kemur fram að líkast til var enginn samstarfsmaður Hitlers eins mikill aðdáandi Foringjans og Rudolf Hess, - Hess var tilbúinn til að gera nánast hvað sem var fyrir Hitler, líka að taka gríðarlega persónulega áhættu við það að þjóna Hitler og fórna sér fyrir hann með því að fara í glæfraför til að koma á bandalagi við Breta sem myndi tryggja Foringjanum glæstan sigur á austurvígstöðvunum. 

Í bókinni er velt upp ýmsum möguleikum á því að málumm hafi verið blandið á báða vegu, til dæmis á því að í raun hafi Hitler leyft Hess að fara för sína, og einnig er bent á, hve grunsamlega létt það reyndist fyrir Hess að komast í gegnum strandeftirlit Breta. 

En niðurstaðan mín eftir lestur bókarinnar er sú að Rudolf Hess hafi í engu verið skárri en aðrir ráðamenn nasista. 

Hann vissi áreiðanlega um fyrirhugaða útrýmingu Gyðinga, hélt trúnaðinn um herförina í austurveg í hvívetna þegar hann var handtekinn af Bretum og var herskárri en flestir þegar um "villimennina í Kreml" var að ræða. 

Hann átti því ekkert skárra skilið en aðrir ráðamenn nasista þegar refsing hans var ákveðin. 

En vegna ruglingslegs yfirbragðsins á ferli hans hentar það nýnasistum vel að gera hann sérstökum píslarvætti. 

 

 

 


mbl.is Nýnasistar ganga til minningar um Hess
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 20. ágúst 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband