Skaðleg óreiða ríkir, þótt það finnist ljós í myrkrinu.

Þegar skoðað er það kort af Suðvesturlandi, sem er nákvæmast, vekur athygli að merktir eru inn göngustígar og hestastígar, en engir hjólastígar svo heitið geti. Hjólför á gangstíg

Þó er vitað, að um allan heim er í gangi nánast sprenging í fjallahjólreiðum og að Ísland er þegar auglýst sem paradís fyrir fjallahjólreiðar, sem allt of margir túlka sem algert frelsi og ekkert eftirlit. 

Andrés Arnalds hjá Landgræðslunni hefur tjáð mér, að í mikið óefni stefni ef áfram verður í gangi það sinnuleysi um þessi mál, sem ríkt hefur. 

Hjólastígur skógræktarinnar er ljós í myrkrinu og lofsvert framtak.Hjólför á gangstíg, nær.

En fjallahjólreiðamenn og torfæruvélhjólamenn sækjast eftir fleiru en að hjóla um skóglendi, og erlendir hjólreiðamenn eiga nóg af slíkum stigum.

Þeir fara til Íslands eins og langflestir erlendir ferðamenn til að upplifa éinstæða íslenska náttúru, að fara um og upplifa óvenjulegustu svæðin og þau sérstæðustu og merkustu, sem eru oftast afar viðkvæm hverasvæði og svæði með jarðminjum, sem þola ekki átroðning. 

Má sem dæmi nefna Ölkelduháls og fleiri slík svæði. 

Í gönguferð, sem ég fór í gær, vakti athygli, að enda þótt ekkert rask af mannavöldum væri utan hins merkta göngustígs, lágu för eftir reiðhjól eða jafnvel torfærurvélhjól alla leiðina. Hjólför á gangstíg, sörguð klöpp

Á stórum köflum kom það ekki að sök útlitslega séð, en annars staðar sást, að hjólin valda meira raski en fætur göngufólks. 

Fyrir nokkrum árum vorum við Andrés á fundi með Slóðavinum, þar sem margir fundarmanna héldu því fram að þeir teldu að menn á torfæruhjólum ættu rétt á að spóla eða fara um alla gönguslóða, hestaslóða, jeppaslóða og kindaslóða á landinu. 

Jeppaslóðar landsins eru einir meira en 20 þúsund kílómetrar og má því nærri geta hvílík býsn allir fyrrnendir slóðar eru samtals, kannski 100-200 þúsund kílómetrar. 

Þessi talsmenn hins algera frelsis héldu því fram að hjólin sporuðu ekki í harðar klappir. 

En á slóðanum, sem ég gekk í gær, var hið gagnstæða uppi á teningnum eins og sést á meðfylgjandi myndum. 

Mynsturförin eftir hjólin mörkuðu slóðina og sums staðar höfðu hjólin sargað klappir niður, svo að mörg ár eða áratugi mun taka fyrir þessar viðkvæmu móbergsklappir að jafna sig. 

Ég hef lengi verið talsmaður þess að koma reglu á þessi mál á þann veg að allir hópar séu teknir með í reikninginn, göngufólk, hestamenn, jeppamenn, fjallahjólamenn og vélhjólamenn. 

Allir fái stíga út af fyrir sig eða slóðir, þar sem ákveðnir hópar fá að fara saman, svo sem fjallahjólamenn og göngumenn. 

Núverandi ástand, með sinni allt of miklu ringulreið og stjórnleysi, verður fljótlega enn meiri ógn varðandi náttúruvernd en hún er orðin nú þegar. 

Því verður að linna. 


mbl.is Sérmerkja 8 km langan hjólastíg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamalt ráð: "Þjóðin á að éta sig út úr vandanum."

Kjötfjallið svonefnda, birgðir af óseldu lambakjöti, var þegar komið til sögunnar fyrir um 40 árum. 

Ég minnist þess að þegar ég sneri að nýju til starfa hjá RÚV 1995 fór ég um allt land, þar á meðal á fundi sem bændasamtökin stóðu fyrir vegna nýs búvörusamnings, sem gera þurfti þá. 

Á þeim tímum voru nokkrir menn áberandi á þessum fundum, svo sem Ari Teitsson og Gunnar Sæmundsson úr röðum bændaforystunnar og andmælandi þeirra utan bændasamtakanna, Markús Möller. 

Um þetta gerði ég sjónvarpsþáttin "Ærnar þagna", nafnið svolítið glannalega líkt nafni kvikmyndarinnar um morðingjann Hannibal Lecter, "Lömbin þagna."  

Þess þáttur hefur týnst en síðan sá ég hann fyrir tilviljun á Youtube fyrir nokkrum dögum.

Alla þá áratugi, sem þessi mál hafa verið ofarlega á baugi, sýnast meginatriðin vera svipuð, rótin vera of margt sauðfé í landinu miðað við fjölda sauðfáreigenda. 

Að því leyti til hefur þjóðin áratugum saman í meginatriðum verið að gera það sem núverandi landbúnaðarráðherra kallar, að "upplifa endurtekið efni."

Eitt ráðið var að flytja kjötið út og niðurgreiða það jafnvel ofan í útlendinga.

Steingrímur Hermannsson segir frá því í ævisögu sinni, að þegar hann varð fyrst landbúnaðarráðherra hafi honum komið í hug að hægt yrði að fækka sauðfé að miklu eða öllu leyti á þeim afréttum, sem eru á hinum eldvirka hluta landsins þar sem eru ofbeit og uppblástur. En jafnframt einna mestir möguleikar til að stunda ferðaþjónustu og fjölbreytt störf vegna nálægðar við hinn þéttbýlli hluta landsins. 

Aðstoða mætti bændur á þessu svæði til að finna sér annan starfsvettvang og viðurværi en styðja frekar sauðfjárbændur á þeim svæðum, þar sem beit væri hófleg og sauðfjárrækt einn helsti atvinnuvegurinn.   

En "bændaforystan og landsbyggðarþingmenn urðu æf" segir Steingrímur og þorði aldrei að minnast á þetta aftur.

Hjálmar Jónsson varð formaður landbúnaðarnefnda Alþingis um síðustu aldamót og minntist í einu viðtali á svipað.

Og aftur gerðir nákvæmlega það sama og 20 árum fyrr.

Ein ummæli stjórnmálamanns urðu minnisstæðari en öðrum fyrir rúmum aldarfjórðungi og koma ávallt í hugann síðan:  Lúðvík Jósepsson sagði:  "Lausnin er einföld; þjóðin á að éta sig út úr vandanum."  

"Vandinn" á raunar senn 60 ára afmæli, því að mikil tæknibylting í landbúnaðinum upp úr miðri síðustu öld benti til þess að langtímavandamál væri að skapast og að bændur væru að verða allt of margir. 

Enn er í minni þegar Gunnar Bjarnason skrifaði skelegglega orðaða blaðagrein um nauðsyn þess að fækka bændum um helming, hafa stjórn á því og ráða atburðarásinni. 

Það ætlaði allt vitlaust að verða og Gunnar var úthrópaður sem óvinur bænda og óvinur landsbyggðarinnar. 

Haldinn var æsingafullur fjöldafundur í Reykjavík um þetta mál. 

En það liðu samt undra fá ár þar til bændum hafði samt fækkað stjornlaust um helming! 

 


mbl.is „Gömlu leiðirnar“ gangi ekki upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hin hliðin á því fyrirbæri, sem myndar Hverfanda.

"Vatnsmesti foss Evrópu" er nú sagt um fossinn Hverfanda, sem myndast þegar Hálslón er fullt og vatn fellur á yfirfalli niður í Hafrahvammagljúfur. Leirfok, Kárahnjúkar

Aldrei er hins vegar sagt frá "stærsta manngerða leirfoki Evrópu" þegar það fyrirbæri myndast við það að ís hefuur leyst af vatninu snemmsumars. 

Þá er vatnið, eða réttara sagt leirblandan það lág í lóninu, að meirihluti lónstæðisins, allt að 35 ferkílómetrar, eru þurrar leirur, þaktar fíngerðu leirlagi, milljónum tonna af jökulleir, sem árnar Kringilsá og Jökla bera í það á hverju ári og setjast þar til. 

Loftmyndin hér á síðunni er tekin úr um þúsund metra hæð yfir lóninu á heitum og björtum degi í júnílok, þegar sunnanþeyr kemur ofan af Vatnajökli til að verma þetta svæði og búa til yndislegan sumardag ef allt væri með felldu.

En þannig er það ekki. Leirinn er svo mikill, þurr og rokgjarn, að þarna myndast mesta manngerða leirfok Evrópu og því ástandi linnir ekki til fulls fyrr en í ágúst.

Á myndinni grillir varla í Kárahnjúka, sem standa á milli risastíflnanna Kárahnjúkastíflu og Desjarárdalsstíflu, hvað þá að stíflurnar sjáist sjálfar í gegnum leirfokið.

Svona ástand getur myndast hvenær sem er á góðviðrisdögum á meðan lónið er að fyllast og þá daga er enginn þarna á ferð ótilneyddur.  


mbl.is Hverfandi myndast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 22. ágúst 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband