Hverjir stökkva á innflytjendamálin og múslimana?

Í borgarstjórnarkosningunum 2014 stökk Framsóknarflokkurinn á flugvallarmálið og múslimamálið og hafði um þrefalda fylgisaukningu upp úr krafsinu ef ég man rétt. 

Þetta þurfti ekki langan aðdraganda, gerðist nokkrum vikum fyrir kosningar. 

Svipað gerðist hjá Frjálslynda flokknum 2007 þegar Jón Magnússon og fleiri gerðu innflytjendamálin að aðalmáli þess framboðs inan við þremur mánuðum fyrir Alþingiskosningarnar það vor. 

Nú er svo að heyra á Framsóknarfólki í Reykjavík, að minnsta kosti um sinn, að eins konar andúð á múslimum og innflytjendum verði ekki áfram við lýði í aðdraganda næstu kosninga.

En hvað mun þá gerast á næstu útmánuðum? 

Það sést á tryggum lesendahópi bloggíðna, þar sem jafnvel er bloggað um múslima dag eftir dag, og einnig víðar á netinu og útvarpsrásum, að það er jarðvegur hjá talsverðum hluta kjósenda fyrir því að gera múslima og innflytjendur að fyrirferðarmiklu máli. 

Í flokki fólksins má greina, að þar er rætt í innsta hring um það, hvaða afstöðu flokkurinn eigi að taka í þessum málum sérstaklega. 

Það er eðlilegt að slíkt sé skoðað hjá nýju framboði, því að reynslan sýnir að með því má laða til fylgis við framboðið ákveðnn markhóp, sem kannski myndi annars fara yfir á önnur smærri framboð og róta upp í fylginu "á jaðrinum". 

Það verður fróðlegt að sjá hvað Sveinbjörn Birna Sveinbjörnsdóttir gerir í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna. 

Kannski hefur hún fengið sig fullsadda af pólitíkinni, en í ljósi þess sem að ofan er rakið, er heldur aldrei að vita nema að hún finni sér stað fyrir málflutning sinn, jafnvel tiltölulega skömmu fyrir kosningar, eins og hún gerði fyrir tæppum fjórum árum. 

 


mbl.is Sveinbjörg Birna hættir í Framsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er munurinn á Smáralind og Lækjartorgi?

Sóknin gegn móðurmáli Íslendinga þyngist sífellt.

Þótt gott framtak einstaklings, Eiríks Rögnvaldssonar, hafi haft einhver áhrif á einum stað og skilti verið fjarlægt þaðan, er þetta svipað og þegar reynt var að höggva haus af marghöfða þursum í gömlu ævintýrunum, - það spruttu tvö eða fleiri höfuð í stað þess sem hoggið var af. 

Og skiltið rís bara í staðinn í Smáralind.  Hver er munurinn á Smárlind og Lækjartorgi?

Outlet, tax free, black Friday, Air Iceland - connect, þetta er samræmd stórsókn á hendur íslenskunni hvert sem litið er. 

Í einstaka erlendum stjórnarskrám má sjá greinar um hver sé eða hverjar séu þjóðtungur viðkomandi lands. 

Við vorum kannski of bláeyg í stjórnlagaráði að setja ekki eina slíka grein inn í frumvarp okkar. 

Við héldum að ákvæði í öðrum lögum myndu duga, en þannig virðist það ekki vera, enskan veður yfir allt og alla. 

Stundum reyna enskusjúklingarnir að klína orðum eins og afdalamennsku á þá sem vilja standa vörð um íslenska tungu. 

Samkvæmt því hefði Eiður heitinn Guðnason átt að vera einstakur afdalamaður. 

Var hann þó löggiltur dómtúlkur í ensku og starfaði árum saman með glæsibrag í utanríkisþjónustunni. 

Hann og Vigdís Finnbogadóttir verða í minnum höfð sem glæsilegir fulltrúar einstaks tungumáls og menningar sem voru andstæðan við afdalamennsku enskufíklanna sem halda að það tungumál sé svo fínt og yfir allt hafið, að ekki megi einu sinni bera fram staðarnöfn annarra landa en Englands eins og það gert af hverri heimaþjóð.  


mbl.is „Íslensk tunga aldrei í forgangi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trump kemur enn á óvart, en þetta er ekkert nýtt.

Öll heimsbyggðin hafði gott tækifæri til að fylgjast nákvæmlega og ítarlega með ummælum og tísti Donalds Trumps Bandaríkjaforseta í kjölfar óeirðanna og manndrápsárásarinnar í Charlottesville í Virginíu. 

Það lá því fyrir og liggur raunar fyrir enn hvað forsetinn sagði og hvenær og hvað hann sagði ekki. 

Nú, rúmum tveimur vikum síðar. kemur Trump hins vegar fram og segir fjölmiðlar hafi búið til falsfréttir og verið með rangfærslur og lygar í málinu. Logið upp á sig.  

Verður að teljast afrek hjá þessum fjölmiðlum að hafa logið upp á hann næstum tveggja daga þögn forsetans varðandi fyrstu ummælin.  

Hinn gegnumgangandi þráður í ferli Trumps, að snúa ævinlega öllu því sem aflaga hefur farið hjá honum upp í sigur sinn og ósigur andstæðinga hans og sjá öll axarsköft sín í öðru ljósi en flestir aðrir, virðist vera enn á ferðinni og þessi þráður og endurskrift sögunnar munu líklega fylgja honum áfram.

Í ræðunni í Phoenix hótaði hann hvorki meira né minna að stöðva allt stjórnkerfið í Bandaríkjunum nema að hann kæmi fram vilja sínum varðandi múrinn mikla á landmærum Mexíkó.

Líkast til hefur hann leitað með logandi ljósi að einhverju atriði sem færði honum slíkt alræðisvald, ef hann beitti því til fulls.

Það sýnist vera full ástæða til þess að stjórnarfars- og lögspekingar vestra leiti að þessu atriði, hvort það gæti til dæmis falist í því að gera ríkissjóð gjaldþrota á þann hátt að allt ríkiskerfið vestra stöðvaðist. 

Atriði, sem hann gæti kannski beitt í fleiri málum, hver veit?

Ef í ljós kemur að hann hafi fundið slíka leið, er einræðisvald hans einfaldlega næsta skref. Aldrei fyrr hefur nokkur Bandaríkjaforseti látið sér svona lagað um munn fara. 

Maðurinn er augljóslega haldinn hættulegri firringu, sem fer síst dalandi.

Og væri kannski frekar líðandi ef um væri að ræða eitthvert lítið embætti en ekki það valdamesta í heimi.   


mbl.is Bandaríkin formlega vöruð við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 23. ágúst 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband