Rímar ekki við kuldatrúna.

Málflutningur þeirra, sem nefndir hafa verið kuldatrúarmenn á þessari bloggsíðu, hefur aðallega snúist um tvennt. 

Að í raun sé loftslag frekar að kólna en hlýna, því að í áróðursskyni hafi verið notaðar falsaðar mælingar og athuganir vísindamanna sem Donald Trump segir að þurfi að skipta út fyrir "alvöru vísindamenn, sem komast að réttum niðurstöðum."

Í öðru lagi sé fráleitt, ef eitthvað hlýni, að það verði af mannavöldum. Skipti mesti koltvísýringur í andrúmsloftinu í 800 þúsund ár eða súrnun sjávar þar engu máli. 

Ekki eru nema um tvö ár síðan kuldatrúarmaður sýndi mér hrollvekjandi myndir af hraðvaxandi hafís í Íshafinu. Það væru réttar myndir en aðrar myndir, sem haldið hefði verið fram, væru falsaðar.

Ekkert hef ég séð af svona hrollvekjumyndum síðustu tvö misseri og frétt um siglingu umm norðausturleiðina á mettíma er svo sannarlega ekki í takt hina miklu kuldatrú og trú á alheimssamsæri vísindamanna og vísindastofnana í heiminum, sem hafi náð hámarki þegar "40 þúsund fífl fóru á galna ráðstefnu í París í desember 2015.  


mbl.is Sigldi norðausturleiðina á mettíma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Buddan getur blekkt neytandann.

"Fólk fer eftir buddunni þegar það kaupir eitthvað" er ein af setningunum, sem notaðar hafa verið um viðskiptahætti og hegðun kaupenda. 

Þetta, ásamt nýungagirni Íslendinga er líklega skýringin á því að þeirri óhemju miklu og almennu þátttöku í verslun við Costco sem hefur orðið hér á landi. 

Costco er ekki góðgerðafyrirtæki eins og sumir, einkum tugþúsundir félaga í aðdáendaklúbbi verslunarinnar halda, heldur er þessi verslun rekin eftir einföldum lögmálum markaðarins sem tryggja verða eigendunum lágmarks arð, þ.e. gróða. 

Það eru stundum notuð gamalþekkt brögð úr viðskiptum, svo sem að taka nokkrar áberandi vörur út úr og selja þær með tapi um sinn til þess að láta viðskiptavininn bíta á öngulinn. 

Þegar bragðið hefur heppnast og kaupendur eru komnir á bragðið, hækkar siðan verðið hægt og bítandi að nýju, en það atriði hverfur í magninu, sem hinn nýi kaupandi er búinn að festa sig í að kaupa. 

Fyrir um aldarfjórðungi kom í ljós það tímabundna fyrirbrigði, að hjá Bónusi virtust einstaka áberandi vörur seldar með tapi. 

Kókakóla var til dæmis selt á lægra verði en framleiðandinn seldi í heildsölu til verslana. 

Þetta olli því að kaupmaðurinn á horninu varð að hætta viðskiptum við framleiðandann og fara í staðinn út í Bónus til að kaupa kók til að selja viðskiptavinum sínum. 

Tilkoma Bónus og Hagkaupa var hluti af svipuðu fyrirbæri erlendis og fól í sér meiri kjarabót fyrir almenning en margir kjarasamningar. 

En í staðinn fóru kaupmennirnir á horninu unnvörpum á hausinn. 

Tilkoma Costco er óhjákvæmileg hér á landi eins og í öðrum löndum og verður vonandi til kjarabóta fyrir almenning þegar áhrifin hafa skilað sér út á markaðinn og til samkeppnisaðilanna. 

Í þetta skiptið verða það kaupmenn á horninu úti á landi, sem eiga í vandræðum og málið er vandasamt byggðamál. 

En kaupandinn í Costco verður líka að hafa varann á eins og í allri verslun varðandi það að hann hafi yfirsýn yfir viðskipti sín. 

Áður hefur verið minnst á það að reikni maður eins og ég, sem þarf að aka 30 kílómetra samtals fram og til baka að bensíndælunni við Kauptún, eyðir 3-4000 krónum aukalega í kostnað við aksturinn áður en hann getur tekið einn einasta lítra af dælunni. 

Svipað má segja um ýmislegt annað, sem ekki liggur kannski alveg í augum uppi þegar viðskipti eru gerð. 

Og vegna þess að Costco er erlent fyrirtæki í samkepnni við innlend fyrirtæki, hefur það áhrif á buddurnar okkar hvernig íslensk fyrirtæki komast af, og stórfellt tap lífeyrissjóðanna á eignarhlutum í Högum og Bónusi vegna nýs veruleika, verður á kostnað Íslendinga. 

 


mbl.is Ófyrirséðar afleiðingar af Costco
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góðviðrið getur lumað á efniviði fyrir veðurbreytingu.

Í gær var einmuna veðurblíða um mestallt land. Það var logn og heiðríkja allt frá Faxaflóa með Snæfellsjökul við sjóndeildarhring austur, suður og norður um til ysti nesja austanlands. 

Veðurspástofur settu stórar heiðríkjusólir á spákort sín fyrir daginn í dag, sem samkvæmt því yrði jafnvel enn betri en dagurinn í gær. 

En í leyni lágu ákveðin áhrif af góðviðrinu, sem byrjuðu strax að koma fram í gærkvöldi þegar mjó þokubönd fóru að myndast utan í Esjuhlíðum. 

Þessi þokubönd mynduðust vegna kólnunar loftsins þegar sól var komin lágt á loft. 

Þá kom í ljós að hinn mikli sólarhiti dagsins hafði haft í för með sér uppgufun á raka, sem byrjaði að þéttast þegar sólar naut ekki lengur og loftið kólnaði. 

Eftir að sol var sest óx þetta þokulag hratt og í morgun var alskýjað á landinu og mjög lágskýjað eða jafnvel þoka víða. 

Það er minni hætta á þessu fyrirbrigði um hásumarið en er núna, þegar sólar nýtur ekki í sjö klukkustundir á hverri nóttu.  Hitinn hrapaði niður í 6-8 stig sums staðar. 

Nú hefur að vísu rofað hressilega til á norðausturhálendinu og Héraði, en ennþá er til dæmis lágskýjað á Akureyri og í uppsveitum á Suðurlandi. 

Allar áætlanir um að nýta daginn vel til kvikmyndatöku- og ljósmyndatöku ruku út í veður og vind, - einkum vegna þess, að of mikill hluti dagsins hafði orðið ónothæfur og að það þurfti að vera sæmilega öruggt um að komast til baka til Reykjavíkur úr heiðríkjunni eystra ef farið yrði í þennan leiðangur. 


mbl.is Spá 18 stiga hita í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. ágúst 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband