Meiri von til að geta hróflað við kerfinu en oft áður.

Réttilega eru kjör sauðfjárbænda við vestanverðan Húnaflóa tekin sem dæmi um þann vanda sem steðjar að sauðfjárbændum og gætu reynst þeim og þeim landshlutum, sem eru háðastir sauðfjárrækt.  

Hvammstangi er nefndur sem gott dæmi og víst er að vegna afleiddra starfa í kringum sauðfjárbúskapinn myndi afhroð eða jafnvel hrun í honum hafa slíkar afleiðingar fyrir kjör fólks og byggðina í landshlutanum, að það yrði öllum til tjóns og að við það mætti ekki una. 

En skriftin er á veggnum: Stórfelldri umframframleiðsla á kindakjöti verður að linna og það verður að skoða loks af alvöru, hvort ekki eigi að hagræða þannig í greininni að sauðfjárbúskap verði ýmist hætt eða dregið stórlega úr honum á svæðum, þar sem bæði er uppgangur í öðrum greinum og þar að auki um ofbeit að ræða, einkum á hinum eldvirka hluta landsins. 

Á þessum svæðum yrðu bændir styrktir til að draga úr framleiðslu og hætta búskapnum, en bændur á þeim svæðum á landinu, þar sem sannanlega er gott og vel sjálfbært beitiland, fái nægan styrk og aðstöðu frá ríkinu til að halda áfram nógu góðum búrekstri. 

Nú er mikill uppgangur í þjóðfélaginu, ekki síst vegna aukinna möguleika í dreifbýlinu. 

Margir sauðfjárbændur á helstu ferðamannasvæðunum eru í búrekstrinum sem aukagrein, en það hlýtur að vera hagkvæmara út af fyrir sig að viðhalda stærri búum, þar sem sauðfjárræktin hefur mesta möguleika til að spjara sig. 

Þetta kallar á víðtækar aðgerðir sem ekki verða hristar fram úr erminni á augabragði. 

En stjórnmálamenn skulda bændum og fleirum að bæta upp það tjón sem vanhugsuð þátttaka í viðskiptaþvingunum NATO og ESB og fleiri ríkja hefur valdið hér á landi, enda eru Íslendingar látnir bera langmestan hlutfallslegan þunga af þessum aðgerðum.  


mbl.is Slæm staða blasir við bændum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna kóngafólk?

Þótt lýðræðishefðin sé einna sterkust og hafi verið einna langvinnust í vestrænum ríkjum, þarf ekki endilega að vera samasemmerki á milli hennar og þess, hvort um lýðveldi eða konungdæmi sé að ræða. 

Þannig hefur lýðræði verið stöðugt bæði á Norðurlöndum, í Niðurlöndum og á Bretlandi, þótt um sex konungdæmi hafi verið að ræða. 

Konungar og drottningar í þessum löndum hafa lítil sem engin pólitísk völd en sinna eins konar starfi fullltrúa þjóðarinnar sem einnig komi fram inn á við til að uppörva þjóðina og hughreysta eftir þörfum. Svona eins konar sálgæsla fyrir alla. 

Þetta kom vel fram í heimildamynd um Díönu prinsessu af Wales í tilefni af því að í dag eru tuttugu ár síðan hún lést í bílslysi í París. 

Atburðarásin næstu vikuna eftir lát hennar virtist koma öllum á óvart, svo víðtæk voru áhrifin af láti hennar og mun almennari og dýpri en nokkurn óraði fyrir. 

Fyrsti votturinn um að sviptingasöm vika væri í vændum var þegar Tony Blair forsætisráðherra áræddi að kalla Díönu prinsessu fólksins. 

Með þessu var hrundið af stað atburðarás þar sem Elísabet drottning og konungsfjölskyldan neyddist til að víkja til hliðar ævagömlum hefðum og reglum, sem giltu um svona atburði.

Þótt Díana og Karl Bretaprins hefðu verið skilin að borði og sæng í fimm ár og lögskilin í tvö ár og Díana því ekki lengur inni á gafli í konungsfjölskyldunni sá Elisabet sig knúna til að láta draga fánann í hálfa stöng á konungshöllinni, nokkuð sem ekki hafði einu sinni verið gert þegar faðir hennar dó.

Tony Blair og fleiri óttuðust óróa og jafnvel afdrifaríka andúð almennings á konungdæminu en með því að stytta fjarveru konungsfjölskyldunnar, láta draga fána í hálfa stöng og halda í fyrsta sinn ræðu í beinni útsendingu þegar fjölskyldan tók beinan þátt í útiathöfn.

Segja má að afar vel flutt og samið ávarp drottningar hafi eitt það mikilvægasta á ferli hennar til að ná til þjóðarinnar og byggja upp samhug hennar og kóngafólksins.

Fyrir lýðveldissinna eins og mig hefur konungdæmi ævinlega virkað forneskjulegt, ekki síst hið mikla tilstand og kostnaður í kringum "slektið."

En Óskarsverðlaunamyndin um konunginn stamandi, Georg sjötta Bretakonung, og hlutverk hans í því að stappa stálinu í Breta á ögurstundum heimsstyrjaldarinnar, fékk mig til þess að líta hlutverk þjóðarleiðtoga af þessu tagi svolítið öðrum augum.

Það furðulega er, að fyrirkomulagið sjálft, æviráðning á grundvelli erfða og kynslóðaskipta, höfðar að því leyti til margra að þar er um að ræða svipað fjölskyldufyrirkomulag og hjá almenningi.

Almennir þjóðfélagsþegnar kjósa ekki um mæður sína, feður og systkini, og að því leyti standa gleði og sorgir kóngafólksins og samskipti þess innan fjölskyldunnar nær venjulegu fólki og verða skiljanlegri og líkari en ella, svo undarlega sem það hljómar í lýðræðisþjóðfélagi.  


mbl.is Síðustu orð Díönu prinsessu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er ekki lengur ártalið 1993.

Þegar Íslendingar samþykktu EES-samninginn 1993 heyrður aðvörunarraddir vegna jarðakaupa útlendinga hér á landi. 

Aðrir sögðu að réttur til jarðakaupa væri gagnkvæmur og að við gætum líka keypt jarðir í þeim löndum sem samningurinn nær til. 

Hér er ólíku saman að jafna, annars vegar réttur 500 milljóna manna til að kaupa jarðir hjá meira en þúsund sinnum fámennari þjóð gatnvart rétti örþjóðarinnar til að kaupa jarðir hjá þúsund sinnum stærri þjóðum.

Enn aðrir sögðu að Ísland væri svo langt úti í hafi og að hér væri svo kalt loftslag að engin hætta væri á að útlendingar sæktust eftir að eiga landareignir hér.

Sem betur fer brustu ekki á stórfelld jarðakaup útlendinga hér, - í bili.

En 24 árum síðar eru aðstæður aðrar.

Vegna margfaldrar ferðaþjónustu, frægðar íslenskrar náttúru og orkuauðlinda Íslands eru annmarkar núverandi fyrirkomulags að koma í ljós.

Einar Þveræingur sagði, þegar menn vildu gefa Noregskonungi Grímsey, að víst væri þálifandi Noregskonungur ágætis maður, en enginn vissi hvaða menn næstu konungar á eftir honum myndu hafa að geyma.  

Og þetta voru meðal þeirra raka sem urðu til þess að ekki varð af því að láta Grímsey af hendi.

Alveg hið sama er uppi á teningnum nú. Heyra mátti í viðtali á Stöð 2 í gærkvöldi sveitarstjórnarmann segja að þeir sem ásældust jarðir hér á landi ættu að njóta vafans og ekki verða tortryggðir fyrirfram.

Þetta eru jafn veik rök og rök þeirra sem vildu gefa Grímsey forðum tíð. Alltof miklir íslenskir hagsmunir eru í húfi, já raunar hagsmunir á heimsvísu hvað varðar nauðsyn þess að varðveita íslensk náttúruverðmæti, til þess að láta þessa hagsmuni ekki njóta vafans í stað fyrir að erlendir jarðakaupamenn geri það.

Auk þess er Kína alræðisríki og Kínverjar sjálfir leyfa engin jarðakaup útlendinga þar í landi.

Danir og fleiri þjóðir sem gengu alla leið inn í ESB fengu sett í samninga sína ákvæði um takmarkanir á erlendum fjárfestingum í kaupum jarða og sumarbústaða.

Það er kominn tími til að við gerum svipað og Danir, - það er ekki árið 1993, það er árið 2017.  


mbl.is Mjög miklir hagsmunir í húfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 31. ágúst 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband