Alls staðar troðfullt. Fáránleg verðlagning.

Vorum að koma úr ferð til Suður-Frakklands til brúkaups sonar okkar. Leifsstöð var troðfull af fólki þegar við fórum utan og í Boeing 757-300 vél Icelandair til Brussel var hvert einasta sæti skipað.  

Fólkið ekið í rútum utan flugstöðvar sem er sprungin. Löng bið í þotunni eftir að komast í flugtak. 

Nákvæmlega sama ástand í þotu og flugstöð á leið heim. Bílastæðið stóra sneisafullt. 

Það kostaði næstum jafn mikið að láta bíl standa við Leifsstöð eins og að leigja sér lítinn bíl í jafn marga daga erlendis til að þeysa á honum rúmlega 2000 kílómetra. 

Við töku á kvikmynd Benedikts Erlingssonar á mótum Skólavörðustígs, Bergstaðastrætis og Hallveigarstígs var svo mikil umferð af bílum, gangandi fólki og hjólum um sex leytið í kvöld, að erfitt var um vik. 

Ef hækkun á virðisaukaskatti ætlar að sliga ferðaþjónustuna er fá merki að sjá um það enn sem komið er. 

En brjálæðisleg verðlagning á gistingu og hverju eina hér á landi stingur í augu eftir að hafa gist og borðað erlendis og augljós græðgin á því hér á landi á því sviði mun hefna sín.  


mbl.is Stefnir í 40-50% meiri umferð í ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna frekar að einkavæða RÚV en BBC?

Íslendingar og Bretar eiga það sameiginlegt að áratugum saman hefur afar hávær hópur fólks barist hatrammlega fyrir því að ríkisútvarp sé rekið í þessum löndum. 

En þrátt fyrir að í breska Íhaldsflokknum hafi jafnan verið hávær hópur sem hefur barist fyrir því að BBC yrði einkavætt og Íhaldsflokkurinn farið einn með völd samtals áratugum saman, hefur flokkurinn aldrei látið verða af því að breyta eignarhaldinu á ríkisútvarpinu breska.

Væri þó vissulega mun auðveldara í krafti hagkvæmni stærðarinnar í landi með 150 sinnum fleiri notendur en er hér á landi, að einkavæða allt útvarp og sjónvarp í Bretlandi.

Þegar það liggur hvað efrir annað fyrir að mikill meirihluti Íslendinga er andvígur einkavæðingu Ríkisútvarpsins og að það nýtur mests trausts allra fjölmiðla, gegnir þrákelkni þeirra furðu, sem endalaust hafa horn í síðu RÚV og þrá að það verði selt.  


mbl.is Meirihluti andvígur einkavæðingu RÚV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stærsta askjan, líparít,- hrafntinnu,- háhitasvæðið.

Torfajökulssvæðið er öflugasta háhitasvæði landsins auk talsverðs vatnsafls. 

Askjan (caldera) er sú stærsta á landinu, mest af líparíti og hrafntinnu. 

Torfajökulssvæðið eitt og sér tekur Yellowstone, elsta og frægasta þjóðgarði fram.

Það eina sem Yellowstone hefur framyfir Torfajökulsssvæðið hvað varðar jarðfræðilegt gildi, eru goshverinn Gamli tryggur og hverasvæðið Mammuth Hot Springs.

Frægt hrafntinnuhraun í Yellowstone er ca 100 sinnum minna en Hrafntinnuhraunið íslenska. 

Í Yellowstone er enginn Ljótipollur, Jökulgil, Kýlingar, Frostastaðavatn, Rauðufossafjöll, Loðmundur, Torfajökull, Langisjór, Fögrufjöll, Veiðivötn, Eldgjá o.s.frv.

Á svæðinu milli Suðurjökla og Vatnajökuls eru öll þessi örnefni auk Lakagíga, og hvergi í heiminum er að sjá jafnmargar gígaraðir á þurrlendi, raunar er Ísland eini staðurinn með slíkum fyrirbærum.

Risagos eins og Torfajökull um landnám, Eldgjá um 930, Torfajökull um 1480 og Lakagígar 1783, verða með nokkurra alda millibil og því kominn tími á næsta.

Bárðarbunga er talin hafa stjórnað eldvirkni suður í Torfajökul og nú skjálfa bæði þessi fyrirbæri.  

Virkjanafíklar nota sumir þau rök að vegna þess að náttúran sé sífellt að breyta landinu sé sjálfsagt mál að menn geri það líka, - náttúran muni um síðir breyta mestu. 

Svona rök voru slegin út af borðinu í öðrum löndum fyrir hálfri öld en lifa enn góðu lífi hér. 

Um síðustu aldamót varð mikil eftirsókn eftir orku svæðisins í fjölmörgum virkjanatillögum um svipað leyti og verið var að keyra risavirkjanir við Kárahnjúka og á Hellisheiði í gegn.  

Annar eins stórhernaður á hendur náttúru Íslands hefur aldrei verið háður, enda mátti fjárvana náttúruverndarhreyfing sín litils gegn bandalagi ráðandi afla við svæsnustu alþjóðlegu stórfyrirtækin á þessu sviði, sem lofað var í betlibæklingi "lowest energie prizes", lægsta orkuverði heims með "sveiganlegu mati á umhverfisáhrifum."

Eftir að náttúrurverndarhreyfingin hafði verið króuð af í Kárahnjúkamálinu og lá eftir þann stóra slag nær örmagna tókst að smeygja Hellisheiðarvirkjun í gegn með blekkingum varðandi sjálfbærni og hreinleika þeirrar virkjunar og sviknum loforðum um að á meðan á Kárahnjúkavirkjun stæði yrði ekkert svipað aðhafst á Suðvesturlandi. 

Allt fram til ársins 2009 voru líkur á því að stóriðjusinnum tækist að sækja með tæki sín og tól inn á þetta einstæða svæði og virkja þar háhita og vatsnafl í stórum stíl. 

Það hefur að vísu slaknað á þeirri sókn í bili, en samt verður að halda vöku sinni. 

 


mbl.is Sá stærsti var 2,8 stig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. ágúst 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband