Innantóma blaðrið um "sátt við náttúruna."

Færeyingar hafa aukið fiskeldi sitt um 6,5% að meðaltali. Hér á landi upphefst hins vegar mikill harmagrátur ef ekki verður farið tíu sinnum hraðar og það í sjókvíaeldi, sem er á útleið í nágrannalöndum okkar vegna mistaka og slæmra umhverfisáhrifa.

 

Ég hvet fólk til að lesa grein Bubba Morthens í Fréttablaðinu um hina "ábyrgu framkvæmd", væntanlega "í sátt við náttúruna",sem fólst í því að sleppa út 160 þúsund seiðum á laun og að sjálfsögðu í leyfisleysi.  

Margsinnis hefur komið fram að laxveiðimenn hafa ekkert á móti laxeldi í landkvíum, en á slíkt mega sjókvíafíklarnir ekki heyra minnst.

Ævinlega þegar verstu framkvæmdir hér á landi varðandi umhverfisspjöll hafa verið á dagskrá, hefur verið sunginn söngurinn um að þetta sé gert "í sátt við náttúruna."

Nóbelskáldið skrifaði á sínum tíma fræga blaðagrein undir heitinu "Hernaðurinn gegn landinu."

Nú hefur þessi nýi æðibunugangur borist í sjóinn við landið í formi hverrar risa sjókvíahugmyndarinnar á fætur annarri.

"Lítil sátt yrði un lokun Djúpsins" segja eldisfíklarnir sem hyggjast tífalda eldið við Ísland á örfáum árum og beita öllu tiltæku afli fjár, aðstöðu og útþensluþrá norskra eldisrisa til þess að fara hamförum í stíl við bankabóluna og stóriðju- og virkjanaæðið á sínum tíma.  


mbl.is Lítil sátt yrði um lokun Djúpsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eftir standa koltvísýringsmagnið, súrnun sjávar og þurrð jarðefnaeldsneytis.

Ný tegund rökfærslu hefur litið dagsins ljós varðand spár um loftslagsbreytingar af mannavöldum:  Af því að veðurfræðingar eigi í erfiðleikum með að spá veðrinu upp á hár 5 daga fram í tímann geti þeir engu spáð um langtíma loftslagsbreytingar. 

Tökum hliðstæðu. Segjum að vegna hraðrar og mikillar fjölgunar vélhjóla sé spáð spáð fjölgun banaslysa á vélhjólum.  

Þá rísa upp efasemdarmenn sem segja að vegna þess að ekki sé hægt að spá fyrir um hvort það verði banaslys um næstu helgi, sé ekkert að marka líkindareikninginn varðandi lengra tímabil.

En hvað loftslagsmálin snertir, standa eftir óumdeilanlegar staðreyndir sem sjaldan er minnst á, af því að karpið um afleiðingar þeirra er teygt út og suður:  

Meira koltvísýringsmagn er nú í lofthjúpi jarðar en hefur verið í 800 þúsund ár og það heldur áfram að vaxa, óumdeilanlega mest af mannavöldum. . 

Jarðefnaeldsneyti er takmörkuð auðlind sem gengur til þurrðar á þessari og olíuöldin mun fjara út. 

Súrnun sjávar er vaxandi. 

Þegar sagt er að ekkert af þessu þrennu skipti máli hvað varðar það að mannkynið geti haldið áfram óbreyttum háttum sínum og meðferð sinni á auðlindum jarðar er verið að gera það sama og sagt var að strúturinn gerði, þegar hann sá hættu nálgast: Hann stakk höfðinu í sandinn.  

  

 


mbl.is Starfsmenn tali ekki um loftslagsbreytingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Sokkinn kostnaður" um verslunarmannahelgina?

"Öllum kom hann til nokkurs þroska" var sagt í fornsögum um Erling Skjálgsson, valmenni mikið sem aldrei hafði heyrt hugtakið "sokkinn kostnaður" um það þegar menntunarstarf hans virtist gefa misjafnan árangur. 

Af tilvitnuðu orðalagi má nefnilega ráða að sumum hafi verið lítið hægt að kenna og árangur mannbótastarfsins misjafn. 

Nú er lokið mestu óróa- og ólátahelgi ársins hér á landi með fyrirsögnum eins og "allt tiltækt lögreglulið kallað út", "yfirgengilegur sóðaskapur og sukk", "tugir teknir ölvaðir við akstur", "slagsmál og ofbeldisárásir" o. s. frv., kunnuglegar fyrirsagnir ár eftir ár og áratugi eftir áratugi. 

Hverjir voru að þarna að verki sem ollu því að allt tiltækt lögreglulið þyrfti til að skakka leik?  Hælisleitendur?  Útlendingar? Flóttafólk frá Afganistan?  Skærasta stjarna danska kvennalandsliðsins í knattspyrnu mátti vafalaust fyrrum flokka undir alhæfinguna "sokkinn kostnaður." 

Í áratugi, löngu áður en farið var að úthrópa hælisleitendur, flóttafólk, múslima og útlendinga sem mestu friðarspilla og ógn hér á landi, vorum við hinir "innfæddu og arfhreinu" orðnir fullfærir um að skapa það ástand um mestu ferðahelgar sumarsins sem krefst þess að "allt tiltækt lögreglulið sé kallað út".

Hvað um þann kostnað, sem þjóðfélagið þarf að borga vegna þessa? Hvað um þann kostnað sem fór í að mennta þetta fólk, sem skilur sums staðar útvistarsvæði eftir eins og vígvöll?

Var sá kostnaður í menntakerfinu "sokkinn kostnaður"? Ef svo er, af hverju er þetta hugtak fyrst nefnt þegar rætt er um menntun barna erlendra hælisleitenda?

Eins og gengur er misjafnt hvernig íslenskum námsmönnum gengur í námi erlendis. 

Sumum tekst ekki að klára námið. 

Hefur heyrst að í erlenda menntakerfinu, sem þetta fólk naut kennslu í, sé hugtakið "sokkinn kostnaður" aðeins notað um nemendur frá öðrum löndum, til dæmis frá Íslandi?


mbl.is Taka undir gagnrýni á Sveinbjörgu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Barnaleikir til16 ára aldurs. Raunveruleikir til æviloka.

Fyrir daga sjónvarps og síðar tölvuleikja voru börn og unglingar ekki í vandræðum með að leika sér jafnvel án nokkurra tækja eða leikfanga. 

Úrval leikjanna var mikið og tíminn leið ljúflega. 

Gamlar dagbækur sýna að í götunni, sem ég ólst upp í, Stórholtinu, var enn verið að "verpa eggjum" þegar komið var á 16. aldursárið, og þátttakendurnir orðnir svo stórir og öflugir, að gatan var orðin of mjó fyrir feril boltans. 

Hoppin í París eða Paradís voru orðin svo löng, að það varð að lengja Parísinn verulega til þess að hann stæði ekki alltof stutt yfir. 

Í nokkrum dægurlagatextum frá því fyrir rúmri hálfri öld eru ýmsir barnaleikir nefndir, svo sem fallin spýtan, stórfiskaleikur, að hlaupa í skarðið, kýlubolti, fimmaurahark, sipp, snú-snú, parís, þrautakóngur og að verpa eggjum, svo að eitthvað sé nefnt.

Þessir leikir kröfðust líkamlegrar færni og hollrar hreyfingar sem tölvuleikir nútímans eru flestir svo gersneyddir að ef ekki verður að gert, mun það verða hluti af mesta heilsuvandamáli 21. aldarinnar.  TF-RÓS og máninn

Leikir barna og unglinga eru mikilvægur þáttur í að búa sig undir að takast á við verkefni lífsins og hætta ekki að leika sér af því að maður verður gamall, heldur að sporna við því að verða gamall við að hætta að leika sér.

Það var ekki enn runnið af fullum mánanum í kvöld eftir verslunarmannahelgina þegar hann gægðist forvitinn upp fyrir eitt af fellunum suðaustan við Mosfellsbæ til að forvitnast um, hvað væri að gerast á Tungubakkaflugvelli í kvöld.  

Jú, gamall flugmaður var að halda sér við eins og hann hefur gert í rúma hálfa öld með því að láta helst aldrei líða meira en þrjár vikur á milli þess sem farið er í loftið til flugæfinga til að halda sér við. 

Og hafa í huga, að maður hættir ekki að leika sér vegna þess að maður verði gamall, heldur verður gamall vegna þess að vera hættur að leika sér. 

Í þetta sinn voru þrjú flugtök og þrjár lendingar á TF-RÓS innifaldar í því að leika sér í fullri alvöru til að ryðga ekki í fluglistinni, því næstbesta sem rekið hefur á fjörur hins gamla á ævi hans. 


mbl.is Afturhvarf til leikfanga fortíðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. ágúst 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband