Sérstök viðtalatækni.

Eftir að hafa fylgst með íslenskum stjórnmálum í útvarpi og sjónvarpi í bráðum 70 ár minnist ég þess ekki að neinn annar stjórnmálamaður hafi tamið sér "viðtalatækni" af því tagi sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur gert síðustu þrjú ár. 

Hún spratt fyrst fram í frægu viðtali Gísla Marteins Baldurssonar við hann þar sem SDG tók að sér að snúa viðtalinu við, ráða því hvaða spurningar væruu notaðar og hvort þeim væri svarað og snúa meira að segja hvað eftir annað taflinu við með því að gerast sjálfur spyrjandi og krefjast svara hjá spyrlinum. 

Viðtalatæknin komst á nýtt stig í viðtalinu heimsfræga í Ráðherrabústaðnum þar sem útgöngu var bætt við. 

Á tímabili virtist ætla að stefna í svipað í viðtalinu í Kastljósi í kvöld en spyrjandanum tókst að stýra því til farsælla loka og það var hægt að anda léttara í lokin. 

 


mbl.is Sigmundur: „sjanghæjaður“ í viðtal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vegna reynslunnar af gosunum 1982, 2010 og 2011.

Reynslan af afleiðingum eldgosanna í Eyjafjallajökli 2010, Grímsvötnum 2011 og í Indónesíu 1982 á flug farþegaþotna veldur því að menn eru í viðbragðsstöðu vegna yfirvofandi eldgoss í eldfjallinu Galonggung í Indónesíu. 

Þegar þota frá British Airways með 265 manns um borð var á flugi frá Löndon til Indónesíu og Ástralíu 24.júní 1982 flugu flugstjórarnir henni óafvitandi í blindflugi inn í gosmökk frá eldfjallinu með þeim afleiðingum að það drapst á öllum hreyflunum. 

Við tók svifflug á þotunni og lýst var yfir neyðarástandi. 

En þegar komið var niður í lægri loftlög olli hitabreytingin því að hægt var að koma hreyflunum í gang á ný. Að vísu slokknaði aftur á einum þeirra en engu að síður tókst að lenda þotunni klakklaust. 

Þegar Eyjafjallajökull gaus 2010 fór allt á hliðina í flugi í Evrópu og á Norður-Atlantshafi vegna varúðarrástafana, sem gripið var til í ljósi hins geigvænlega flugs 1982 og tölva í London látin ráða. 

Vegna skorts á mælingum á gosmekkinum urðu þessar truflanir margfalt meiri en hefði þurft. 

Í Grímsvatnagosinu 2011 gerðist hið sama aftur, en nú var búið á vegum Jónasar Elíassonar og Sverris Þóroddssonar að útbúa íslenska flugvél sérstaklega til að mæla magn gosefna í lofti, og með því að nota hana í einn sólarhring, þegar tölvan í London skipaði fyrir um að loka Keflavíkurflugvelli og Reykjavíkurflugvelli á sama tíma og ótakmarkað skyggni og heiðskír himinn var við Faxaflóa, tókst að sýna fram það með mæligögnum úr þessu mælingaflugi að vellirnir gætu verið opnir. 

Lítið hefur frést af frekari framförum í þessu efni síðan Jónas Elíasson prófaði mælingabúnað sinn í námunda við lítið gos í Japan fyrir fimm árum, og því gæti enn verið hætta á að menn fari í svipað far og í gösunum 2010 og 2011 og gengið að óþörfu of langt í því að loka fyrir flugumferð. 

Eftir að hafa fengið tækifæri til að læra af fjórum eldgosum síðan 1982 væri slæmt ef þau tækifæri hafa ekki verið nýtt. 

Núna er það Indónesia. Næst gæti það verið Ísland.  


mbl.is Viðbúin að snúa við öllum flugvélum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þotan, sem ógnar því að "Ameríka verði stórkostleg á ný."

Bandaríkjamenn eru að vísu tíu sinnum fjölmennari en Kanadamenn, en engu að síður hefði maður haldið að Kanadamenn væru Ameríkanar. 

En belgingurinn í "Kananum", það er, þeim Bandaríkjamönnum, sem eru að kikna undan stórlæti og hroka, er svo mikill, að að þeir einoka nánast alveg heitið "American." Bombardier,_BD-500_CSeries_CS300,_C-FFDK_(18777967098)

Krafa Trumps um að beita refsitollum og hvers kyns brögðum til þess að endurheimta hin stórkostlegu Bandaríki undir kjörorðinu "Make America great again" beinist, hvað mest að nágrannaþjóðunum tveimur, Mexíkóum og Kanadamönnum, er búa þó báðar í löndum sem tilheyra norðurhluta heimsálfunnar Ameríku. 

Og það er þotan, sem myndin er af, sem ógnar því að "Ameríka geti orðið mikilfengleg á ný."

Þegar Bandaríkjamenn hafa ekki getað keppt við Þjóðverja í gæðum bíla, talar Trump hástöfum um hve nauðsynlegt það væri að setja sérstaka refsitolla á þýska bíla. 

Það á að vera grundvöllurinn að því sem kallað er að gera Ameríku aftur stórkostlega og liggur beint við að finna gamlan andstæðing úr tveimur heimsstyrjöldum. 

En nú þarf að bæta öðrum Ameríkumönnum en Bandaríkjamönnum í hóp óvinanna, sem eru þess varla verðir að vera kallaði Ameríkanar.  

Þegar hallar á svipaðan hátt á hina einu sönnu Ameríkana í flugvélasmíði, eru 219 prósent refsitollar lágmark til þess að bægja óæskilegum kanadiskum flugvélum frá Bandaríkjunum og hrópa: "Let´s make America great again." 

Þegar skoðaðar eru hinar stórhættulegu þotur, sem Bombardier hefur hannað, svonefnda C-seríu, sem ógnar því að Ameríka verði aftur mikilfengleg, kemur í ljós að það er fyrst og fremst hugvitsamleg hönnun í samblandi við að finna ákveðinn markhóp, auk þess sem Pratt and Whitney hefur verið ein besti og farsælasti hreyflaframleiðandi heims í meira en hálfa öld, sem gerir Bombardier kleyft að bjóða upp á meiri þægindi fyrir farþega í þessum vélum en í smærri Boeing þotunum.

Sætin eru breiðari, af því vinstra megin í farþegarýminu eru aðeins tvö sæti í hverri röð en hins vegar þrjú hægra megin. 

Í Boeing-þotunum eru þrjú sæti beggja megin, en skrokkurinn gerir ókleyft að hafa þau eins breið og hjá Bombardier. 

Boeing-skrokkurinn situr nefnilega uppi með sömu breidd og var í fyrstu þotunum fyrir 60 árum, en fólk hefur stækkað síðan þá. 

Það hefur tekið Bombardier mörg ár að finna réttu lausnina og nú slær hún i gegn.

Í nýlegum skoðanakönnunum hefur komið fram að meirihluti Bandaríkjamanna skammast sín fyrir forseta sinn. 

Er það furða?


mbl.is Leggja 219% refsitolla á Bombardier
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fiat Tipo kom vel út í 2100 kílómetra reynsluakstri í sumar.

Þegar reynt var að finna ódýrasta möguleikann til að fara til brúðkaups í Suður-Frakklandi í sumar kom best út að fljúga til Brussel og aka þaðan til Lacoste og aftur til baka. 

Þar munaði mestu um tvennt, að gista tvær nætur á heimili sonar og tengdadóttur í Brussel og einstaklega hagkvæma skilmála við að nota bílaleigubíl.Fiat Tipo.

Fyrir tilviljun varð farkosturinn Fiat Tipo, bíll í millistærð, hagkvæmari en ef minnsti bíll hefði verið tekinn. Tiponn er í stærðarflokki sem erlendis er stundum kenndur við Golf og eina áhyggjuefnið var hve miklu meira hann myndi eyða en Fiat 500.  

En hann reyndist koma betur út en Fiat 500 sem við leigðum í hitteðfyrra, enda dísibíll. 

Og í fyrra eyddi Volkswagen Polo mun meira bensíni. 

Ég hef haft misjafna reynslu af eldsneytiseyðslu bíla, miðað við það sem gefið er upp, en Tipoinn kom mjög á óvart, eyddi aðeins um 5,6 lítrum á hundraðið í þessum langa leiðangri þar sem ekið var langtímum saman á leyfilegum 130 km/klst hámarkshraða á hraðbrautum. 

Og ekkert er að kvarta yfir hvað varðar togið, sem er 300 newtonmetrar og feykinóg. Með upptak 0-100 í kringum 10 sekúndur var heldur ekkert að kvarta yfir því, - fyllilega samkeppnisfært.

Svipað er að segja um innanrými, og stærð farangursgeymslunnar sem er stærri en almennt gerist í þessum stærðarflokki. 

Þegar leið á ferðina varð mér hugsað til þess að það gæti verið athugandi fyrir umboðið að bjóða þennan bíl heima, ef hægt væri að hafa verðið lágt og samkeppnisfært. 

Nú hefur það verið gert. 


mbl.is Einfaldur Ítali að allri gerð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. september 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband