Getur askan úr þessum mekki borist á móti vindinum?

Í dag hefur mátt sjá glögglega á vefmyndavél hvernig gosmökkinn úr Eyjafjallajökli hefur lagt til austurs eða til vinstri á myndinni, sem fylgir frétt mbl.is 529865b.jpg

Fylgt hafa fréttir af því, að af þessum sökum hafi hann borist til Færeyja og Írlands, en vegna þess að askan sé þyngri en fyrst í gosinu og ekki eins mikil, hafi hún ekki náð það hátt að stöðva flug í hærri hæðum yfir þessi lönd. 

Allt virkar þetta rökrétt og fólk skilur þetta. p1011507.jpg

En þá kemur það allt í einu upp í dag að flugbannsvæðið hér á landi hafi verið stækkað til vesturs frá gosstöðinni, í áttina á móti  stífum vestanvindi sem samkvæmt upplýsingum Veðurstofunnar hefur ríkt í 5000 feta, 10000 feta og 18000 feta hæð í allan dag. 

Mynd, sem ég er að setja inn í þennan pistli, er tekin frá Múlakoti klukkan átta í kvöld og sést að mökkinn leggur enn til austurs í austurátt frá Suðurlandsundirlendinu, en fólk austan við Suðurjökla, á svæðinu frá Vík og upp í Skaftártungu, hefur orðið vart við öskufall og það er vel skiljanlegt. 

Mökkurinn nær ekki einu sinni upp í 18 þúsund feta hæð heldur er hann mun lægri, og því er erfitt að sjá hvernig hann geti komist á móti hinum stífa vestanvindi sem þarna er. 

Bannsvæðið hefur náð allt vestur að Þjórsá eða 70 kílómetra upp í vindinn í þá átt, sem er til hægri á myndinni. Af þessum sökum féll allt flug niður til Vestmannaeyja í dag, en þær eru áveðurs frá gosinu og eiga Eyjamenn erfitt með að skilja þetta bann.

Það skýtur skökku við að gefnar eru mjög auðskildar skýringar á því hvernig askan berst til Færeyja og Írlands en hitt ekki útskýrt, hvernig aska geti borist með meira en 45 hnúta hraða á móti 35 hnúta vindi, en það er eina leiðin til þess að askan geti borist til vesturs. 

Úr því að verið er að hafa fyrir því að útskýra fyrir okkur Íslendingum hvers vegna askan berist þannig til Færeyja og Írlands að þar sé ekki hægt að fljúga í lægri hæðum heldur hærra uppi hefði maður að útskýra þyrfti hvers vegna flugbannsvæði hér á landi hefur verið stækkað í öfuga átt við það sem vindurinn ber öskuna. 

Hvernig kemst askan vestur að Þjórsá? 

 


mbl.is Kolsvartur mökkur frá gosinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnar Eiríksson

Er það ekki augljóst - það vinna 230 manns hjá Flugstoðum og þeim er kennt að hlýða en ekki að hugsa og því hlýða þeir breska  Volcanic Ash Advisory Centre í London (VAAC),   alveg út í eitt - enda bara stigsmunur á Írlandi og Íslandi, bæði á hausnum!

Ég geri ráð fyrir að þú hafir kannað vindstöðuna hjá Veðurstofunni og þá er þetta alveg glórulaust - vitlausara en tárum taki.

Ragnar Eiríksson, 4.5.2010 kl. 23:33

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Já, þetta er eitthvað öfugsnúið

Og varðandi aðra takmörkun á ferðum fólks, t.d. að Gígjökli. Ég er nokkuð viss um að hægt er að leyfa ferðamönnum að komast eitthvað í návígi við þessar hamfarir. Það hlyti að vera stórkostlegt aðdráttarafl að fá að heyra og sjá þessi undur.

Nú þegar er umtalsverður kostnaður af eftirliti á svæðinu. Því ekki að hafa eftirlitið við Gígjökul og hleypa ferðamönnum að vestari jökulgarðinum. Það væri jafnvel hægt að selja inn á svæðið til að standa straum af kostnaði við eftirlitið.

Þegar ég keyrði austur á Reyðarfjörð þann 25. apríl, tók ég ösku í krukku sem minjagrip. Hún var kolsvört í bleytunni sem var þá. Nú er hún þurr og ljósgrá og þegar ég hristi krukkuna er rykið í henni svo fínt að það virðist sem vatnsgufa.

Sjá myndir af þessu HÉR

Gunnar Th. Gunnarsson, 4.5.2010 kl. 23:56

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Haraldur Sigurðsson, eldfjallafræðingur er með athyglisverðan pistil á bloggi sínu," Má bjóða þér gos? Eldfjöll sem aðdráttarafl í ferðamennsku "

Lokaorðin í pistli hans eru: Leyfið fólkinu að koma til eldfjallsins.

Gunnar Th. Gunnarsson, 5.5.2010 kl. 00:04

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Færsla Haraldar er HÉR

Gunnar Th. Gunnarsson, 5.5.2010 kl. 00:05

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

4.5.2010 (í dag):

GOSMÖKKUR
:

Hæð í metrum yfir sjó:
Hæstu bólstrar náðu 5,8-6 km hæð (19-20 þúsund fetum) við Eyjafjallajökul, metið úr vél Landhelgisgæslunnar klukkan 10:40 og um kl. 15:30.

Gosmökkurinn sást einnig á veðursjá í Keflavík í 5,2-5,4 km hæð á milli klukkan 13:05 og 14.

STEFNA
:

Til austurs og suðausturs frá gosstöðvunum.
Skýr merki um mökkinn greindust í 300-400 km fjarlægð til austsuðausturs (léttskýjað) á gervihnattamynd NOAA frá klukkan 13:13.

LITUR
:

Síðla morguns létti til og fóru þá að sjást dökkir bólstrar upp úr gosstöðvunum á vefmyndavélum. Á milli klukkan 13:30 og 14 sást mökkurinn greinilega rísa og stefna til austurs. Neðar, yfir Gígjökli, risu gufubólstrar en þeir virtust minni en í gær.

Að auki mátti aðeins ofar yfir Gígjökli greina bláleita móðu eða gas stíga upp, líklega af hrauninu.

GJÓSKUFALL
:

Að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli var nokkurt öskufall í Álftaveri og Meðallandi
og ekki sást vel á milli bæja (fárra kílómetra skyggni).

Minnisblað Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands kl. 15 í dag

Þorsteinn Briem, 5.5.2010 kl. 01:35

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Já, Steini, allt ber að sama brunni. Öskuna leggur undan vestnorðvestanvindi til austurs og suðausturs, en ekki á móti vindinum til vesturs þar sem flugbann ríkir.

Ómar Ragnarsson, 5.5.2010 kl. 09:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband