Líst illa á gíginn núna.

Ég hef verið að fljúga yfir Eyjafjallajökul í dag og mér líst satt að segja ekki á gíginn. p1011550.jpgp1011544.jpg

Mér sýnist hann þrengri en hann hefur verið áður og stórvaxandi sprengingar í honum þar sem hundruð stórra hraunbjarga þeytast mörg hundruð metra upp í loftið og virðast svífa svo ógnarhægt af því að þeir eru svo stórir.

Sendi Sjónvarpinu og Morgunblaðinu myndir af þessu. Ef gígurinn er að þrengjast er auðskilið af hverju krafturinn í sprengingunum verður mun meiri en fyrr eins og sést vel á efstu myndinni.

Þess ber að geta að myndirnar eru aðeins af allra neðsta hluta makkarins og stærð bjarganna sem þeytast allt upp í 500 metra hæð hefur sést best af myndum teknum á jörðu niðri þar sem þau hafa komið niður. 

Það sem ég óttast er að komi gígurinn ekki nógu miklu af hraunkvikunnni frá sér muni kvikan skjóta sér annað og þá gjósa annars staðar.

Katla yrði ekki verst heldur ekki síður sigið, sem hlaupið í Svaðbælisá kom úr í upphafi goss.

Sá farvegur er nú barmafullur af aur og tekur ekki við neinni viðbót.

Afar sjaldgæft er að stíflun gígs endi með því að toppurinn springi af  fjallinu í heilu lagi eins og gerðir í Vesúvíusi og á eyjunni Martinique þar sem bæirnir Pompei, Herkulanum og St. Pierre eyddusty. Munu Snæfellsjökull og Öræfajökull vera hættulegustu eldfjöllin hér að þessu leyti og eyðingarmáttur hins síðarnefnda mikill í gosinu8 1362. 

Ég tel að viðbúnaði hafi verið öfugt háttað hvað varðar breytingar á gosinu fram að þessu. Hingað til hafa allir farið á límingunum þegar byrjað hefur að gjósa á nýjum stað með stórauknum boðum og bönnum en ég tel hins vegar að hættulegasta stigið sé þegar gos er að deyja út eins og gerðist á Fimmvörðuhálsi. 

Þá eiga menn fyrst og fremst að vera á tánum og hafa á sér djúpan vara. 

Ég get ekki komið myndum inn á bloggið hér fyrir austan þótt þær fari greiðlega héðan úr afgreiðslunni á Hótel Rangá til Reykjavíkur. Ef ég fer heim í kvöld til að slá á slæmt kvef, sem ég hef, skutla ég þeim inn. 


mbl.is Dökkur mökkur eftir skjálfta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Valsson

Hér talar maður sem vaktað hefur 21 gos á Íslandi. Vísindamenn ættu ávallt að hlusta eftir röddum fólks með reynslu og innsæi varðandi ýmsar breytingar og fyrirbæri í náttúrunni. Ekki síst þar sem jarðvísindin er skammt á veg komin en sífellt safnast í reynslu- og þekkingarsarpinn. Hættan er líklega mest þegar kvikan verður mjög seigfljótandi í gígtoppinum og myndar eins konar tappa, eins og þú bendir réttilega á.

Láttu þér batna öskukvefið

Júlíus Valsson, 10.5.2010 kl. 19:32

2 identicon

Langar að benda þér á þessa síðu Ómar. Það sem þessi maður hefur sagt fyrir um er ótrúlegt.

http://heilun.blogcentral.is/blog/2009/8/12/volvuspa/

Ragna Birgisdóttir (IP-tala skráð) 10.5.2010 kl. 19:47

3 Smámynd: ThoR-E

Endilega skelltu þessum myndum inn Ómar, þegar þú getur.

Flott að sjá stöðuna á jöklinum í dag.

Ætti maður að fara að undirbúa sig fyrir Kötlugos ... það líst mér ekkert á.

ThoR-E, 10.5.2010 kl. 19:51

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þetta gos hefur lagst illa í mig frá upphafi.

Sigurður Þór Guðjónsson, 10.5.2010 kl. 19:53

5 Smámynd: Óskar

Líklega stafar aukin jarðskjálftavirkni við toppgíginn einmitt af því að þrengra er orðið í gígnum.  Nú virðist enn eitt kvikuskotið hafa orðið úr möttlinum í dag sem væntanlega eykur ennþá þrýsting uppá við næstu daga.   Meðan kvika kemur að neðan, þá mun gjósa hvort sem það verður í jöklinum eða nágrenninu.  Þetta gos virðist frábrugði fyrri gosum í Eyjafjallajökli á sögulegum tíma, það er mun meira en fyrri gos.  

Ragna þessi síða sem þú vísar á er nú eitt mesta dómadagsrugl sem ég hef á ævi minni lesið.  Jújú, eitt og eitt atriði rétt hjá honum en 90% spáómanna rugl sem hefur ekki ræst.  Það er nú bara þannig að ef klukka er stopp þá er hún rétt tvisvar á sólarhring.  Ef þú "spáir" nógu miklu þá "rætist" alltaf eitthvað.

Óskar, 10.5.2010 kl. 19:57

6 identicon

Takk Óskar. Það er misjafnt hvernig fólk túlkar hlutina:) Ég les þetta og hef gaman af en það stjórnar ekki lífi mínu:)

Ragna Birgisdóttir (IP-tala skráð) 10.5.2010 kl. 20:02

7 identicon

Mjög athyglisvert og rökrétt hugsað finnst manni. Takk fyrir óbilandi kjark og elju! Það fylgjast mjög margir með því sem þú gerir og skrifar  þó ekki allir kvitti fyrir "innlitið". Áfram með smjörið og batni þér kvefið sem fyrst!

K.J.K. (IP-tala skráð) 10.5.2010 kl. 20:10

8 Smámynd: hilmar  jónsson

Fróðleg pæling hjá þér Ómar.

hilmar jónsson, 10.5.2010 kl. 20:31

9 Smámynd: Sólveig Þóra Jónsdóttir

Síðan sem þú bendir á Ragna finnst mér ekki raunhæf. Ég hef fylgst með þessum manni og hann eyðir út færslum hægri og vinstri eftir því hvað hentar.

Sólveig Þóra Jónsdóttir, 10.5.2010 kl. 20:36

10 Smámynd: Óskar

Varðandi pælingar um að toppurinn geti sprungið - þá er það rétt að slíkt er afar sjaldgæft hér á landi.  Tindfjöll voru eitt sinn nokkuð lögulegt eldfjall sem hreinlega splundraðist í gífurlegu gosi fyrir um 50.000 árum og því eru þau þyrping óreglulegra tinda í dag.  Líklega hefur stífla í gosrásinni orsakað sprenginguna.    Líklega er sprungukerfi og undirstöður Eyjafjallajökuls of gloppótt til að geta haldið miklum þrýstingi og gosið mun alltaf eiga tiltölulega greiða leið upp, ef ekki um toppgíginn þá annarsstaðar í fjallinu. 

Óskar, 10.5.2010 kl. 20:39

11 identicon

Sólveig! Fólk ræður því hvað það les og trúir. Það sem er verið að setja hér fram um að hitt og þetta geti gerst er nákvæmlega það sama.Við vitum aldrei.

Ragna Birgisdóttir (IP-tala skráð) 10.5.2010 kl. 21:11

12 Smámynd: Þórarinn Baldursson

Ómar! fáðu þér Vídamín sem heitir C 1000 það fæst í matvörubúðum,það er undra efni í sambandi við kvef. Þakka þér svo fyrir frábæra umfjöllun um öll gos sem þú hefur komið nálægt,og ekki síst fyrir þinn skerf í sambandi við Kárahnjúkabrjálæðið. Ég er uppalinn á Æsustöðum í Langadal,þannig að þú hefur verið í meiri nálægð við mig heldur enn flesta aðra landsmenn,sökum tengingar þinnar við Langadalinn þó langt sé nú síðan þá.

Þórarinn Baldursson, 10.5.2010 kl. 21:43

13 Smámynd: Sólveig Þóra Jónsdóttir

Sammála þér Ragna, við vitum aldrei. Ég get stofnað bloggsíðu fylgst með fréttum og uppdiktað gamlar færslur "sem btw voru í raun og veru aldrei til" og samræmt þær nýjustu fréttum. Minnsta mál í heimi.

Sólveig Þóra Jónsdóttir, 10.5.2010 kl. 22:07

14 identicon

Það verður spennandi að sjá hvað gerist... eða ekki.

Það ku vera gott við kvefi að taka fugl og slátra honum, setja blóðið í fötu og dýfa priki í blóðið... skvetta síðan blóðinu sjö sinnum um íbúðina.. og síðan sleppa öðrum fugli lausum.... gæti gagnast gegn eldfjöllum að auki.

Afsakið að ég skuli vera svona í biblískri heilsuráðgjöf, bara gert í takti við súperofurgaldrasíðuna hennar Rögnu

DoctorE (IP-tala skráð) 10.5.2010 kl. 22:26

15 identicon

Ég hef gaman af þessu DoctorE og les þetta mér til ánægju og yndisauka eins og sumir lesa stærðfræði. Við vitum ekkert hvað framtíðin ber í skauti sér og alllt sem sett er hér fram eru getgátur. En annars elska ég bækurnar um Harry Potter,sem fjalla um galdra og myrku öflin en greini þó á milli skáldskapar og veruleika Takk fyrir frábæra síðu Ómar.Þú ert einfaldlega frábær.

Ragna Birgisdóttir (IP-tala skráð) 10.5.2010 kl. 22:39

16 Smámynd: Njörður Helgason

Væri ekki rétt að láta Breta halda upp á 70 ára minningu hernámsins með því að sprengja norður úr toppgígnum.

http://www.flickr.com/photos/njordur/sets/72157623898290881/

Njörður Helgason, 10.5.2010 kl. 22:59

17 Smámynd: Kristján Logason

Vonandi batnar þér af kvefinu

hér má sjá myndir frá því í gær og í fyrradag

http://www.demotix.com/news/326935/increased-activity-eyjafjallajokull-volcano

Kristján Logason, 10.5.2010 kl. 23:25

18 identicon

Ertu ekki farinn að dramatisera óþarflega mikið núna Ómar? Þótt gígurinn byggist upp en enginn ástæða til að ætla að þrýstingurinn í honum verði "of" mikill. Billjónir og aftur billjónir tonna af grjóti komu ekki í veg fyrir að gysi einmitt þarna í toppgígnum og varla munu nokkrir tugir þúsunda tonna í viðbót skipta miklu til eða frá - hann blæs þessu úr sér eins og hverju öðru fiðri. Ég held að ef gos komi upp á öðrum stað í jöklinum þá verði það vegna aukins þrýstings að neðan. En hvað er maður svo sem að fimbulfamba ...

Jón Garðar (IP-tala skráð) 10.5.2010 kl. 23:49

19 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Ómar það sem þú ert að tala um hef ég sagt að myndi gerast! Búin að sjá þetta fyrir alveg eins og með Fimmvörðuháls og Eyjafjallajökuls tindinn vissi af báðum gosunum áður en þau byrjuðu, nú bíð ég eftir að fari að gjósa neðan við jökull sunnan og vestan við hann!

Sigurður Haraldsson, 11.5.2010 kl. 00:11

20 identicon

Sæll Ómar,, Þetta er afskaplega fróðlegt,, og ég mun fylgjast með, nú eins og alltaf þegar þú kemur með þína "natur" speki. Því það má reiknkna ymislegt út með fræðin að vopni, en þú ert með áratuga reynslu, sem ég ber mikkla virðingu fyrir.

 Þetta er í fyrsta skifti sem ég skrifa á bloggið þitt, en ekki það síðasta.

Gangi þér vel og farðu vel með þig, þetta kvef er bara þreyta Ómar minn.

Elsa Ólafsdóttir (IP-tala skráð) 11.5.2010 kl. 00:23

21 identicon

Tek undir með Jóni Garðari hér að ofan. Ætli það séu ekki frekar hreyfingar á kvikunni sem skýrir kraft og kraftleysi gosa, fremur en "stíflur" ofan frá? (En hvað veit maður svo sem?)

Nú er Ísland staður þar sem flekarnir eru að fjarlægjast og því ekki skrítið að gjósi,en af hverju eru ekki öll gos sprungugos frekar en eldfjöll sem hlaðast upp?Væntanlega þarf nýtt efni að koma alsstaðar en ekki bara þar sem eldfjöllin eru?

Ef þú ætlar að hafa áhyggur, Ómar, þá væri það frekar Bárðarbunga, og svo náttúrulega kvefið. ;-)

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 11.5.2010 kl. 07:17

22 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Ég held að þetta gos sé orði að stóru vandamáli. það er nokkuð ljóst að í síðustu viku opnaðist bein kvikurás af 30 km dýpi sem þýðir eiginlega að fóðrið sem jökullinn hefur er ekki lengur takmarkandi þáttur í gosferlinu. 30 km löng pípa sem flæðir hundruðum tonna á sekúndu býr alveg örugglega yfir nægu afli til að splundra öllu fjallinu og þar með hlýtur sú hætta að vera raunveruleg.

En hvort það eigi að rým eða loka svæðinu er annað mál. Ég held að það eigi bara segja frá þessari hættu og leifa fólki að meta sína hagsmuni. Það má vera hverjum manni ljóst að þarna er komið af stað ferli sem getur enda mjög illa þó það sé auðvitað alls ekki víst.

Guðmundur Jónsson, 11.5.2010 kl. 09:48

23 identicon

Gosið er vandamál, og nú berast fréttir af því að erlendir ferðamenn afpanti ferðir til Íslands í stórum stíl.  Kæri óMar mér datt í hug hvort þú gætir ekki búið til kynningarmyndband um gosið, sýna til dæmis hvar aska hefur fallið niður og spá veðurstofunnar hvar askan falli.  Þegar sýnt væri á heilu Íslandskorti hvar öskufallið er þá ættu allir að sjá að aðeins er öskufall á litlu frímerki af öllu landinu. aðeins tekur um það bil 1 klst að aka í gegn um allt öskusvæðið og það er mjög lædómsríkt að gera það. ekki er hættulegt að aka þarna í gegn.  Einnig mætti taka fram að ekki eru meiri truflanir á flugi á Íslandi en eru í evrópu.  Bara svon smá hugleiðing sem gæti hjálpað efnahag okkar.

Kristján Kristjánsson (IP-tala skráð) 11.5.2010 kl. 11:23

24 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Þessar gosmyndir eru alveg magnaðar þegar þær eru skoðaðar í fullri stærð. Í þeirri efri sést vel hversu svakalegir kraftar eru þarna á ferðinni.

Það væri annars forvitnilegt að sjá stöðu hraunsins í ísgjánni, en einhver hrauntaumur mun vera að renna þar ennþá.

Emil Hannes Valgeirsson, 11.5.2010 kl. 12:36

25 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hraunið er kyrrt og fer ekki lengra nema stóraukinn straumur þess fari að renna út úr gígnum ofan á hrauninu sem fyrir er.

Og þá ætti það samt eftir að bræða allan ísinn ofan af íshellinum undir neðsta haftinu til þess að komast niður á aurana þar sem Jökulsárlónið var. 

Ómar Ragnarsson, 11.5.2010 kl. 21:04

26 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Kristján Kristjánsson það er bara tilviljun ein sem ræður því að aska er ekki komin víðar um landið ríkjandi norðarn og vestan áttir hafa feykt öskunni og beint stróknum á haf út ef vindátt breytist í sunnan áttir þá er allt landið undir!

Sigurður Haraldsson, 11.5.2010 kl. 21:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband