Gullöld Laugarnesskólans. Minnisstæð hjón.

Því miður voru engin menntaverðlaun veitt um miðja síðustu öld. Á þeirri tíð voru kennarar mun betur launaðir miðað við aðra en nú er og það skilaði sér í frábæru starfi afburðafólks, sem valdist til kennslustarfa.

Dæmi um það var Laugarnesskólinn fyrstu áratugina eftir að hann var orðinn fullstór. Nöfn frumkvöðla og framúrskarandi kennara á borð við Skeggja Ásbjarnarson, Ingólf Guðbrandsson, Ingólf Jónsson frá Prestbakka, Þórarin Hallgrímsson og Dagmar Bjarnason koma upp í hugann. 

Gegnt skólanum, við Hofteig, risu íbúðarhús sem kennararnir reistu. Meðal þeirra sem þar bjuggu sér heimili voru Ingólfur Guðbrandsson og Inga Þorgeirsdóttir sem í hárri elli hafa nú kvatt þessa jarðvist að afloknu frábæru ævistarfi. 

Ég var svo heppinn að Ingólfarnir, Guðbrandsson og Jónsson, voru frændur mínir og systkinasynir foreldra minna, hvor í sína ættina. 

Meðal þess sem þeir gerðu var að Ingólfur Guðbrandsson gaukaði ljúfu jólalagi að nafna sínum og bað hann um að líta á það. Ingólfur Jónsson gerði ljóðið "Bjart er yfir Betlehem" og það varð brátt að einhverju besta jólalagi sem þjóðin á. 

Ég kom oft í heimsókn til þeirra ngólfs og Ingu, sem áttu glæsilega fjölskyldu, dætur, sem síðan hafa auðgað íslenskt tónlistarlíf svo um munar. 

Ég kynntist elstu dætrunum, Þorgerði og Rut einna best, einkum Þorgerði bæði fyrr og síðar. 

Hún erfði alla bestu eiglnleika foreldra sinna, tónlistargáfu og áhuga föður síns og ljúfmennsku og göfgi móður sinnar auk dugnaðar og kappsemi beggja. 

Það er erfitt að hugsa sér glæsilegra og göfugra ævistarf en starf Þorgerðar í Menntaskólanum við Hamrahlíð og frumherjastarf föður hennar í tónlist og ferðamennsku var einstakt. 

Inga skipar sérstakan sess í huga mínum sem einhver mætasta og besta manneskja sem ég hef kynnst. 

Annar eins grunnskólabekkur og frægasti bekkurinn sem Skeggi Ásbjarnarson kenndi, verður líkast til ekki uppi aftur á Íslandi. Ótrúlega margir af bekkjarfélögunum varð þjóðfrægt fólk. 

Ég man ekki öll nöfnin en þessi koma upp í hugann: Jón Baldvin Hannibalsson, Bryndís Schram, Halldór Blöndal, Styrmir Gunnarsson, Brynja Benediktsdóttir, Magnús Jónsson...

Það voru forréttindi að fá að vera nemandi í þessum frábæra grunnskóla. 


mbl.is Verðlaunuð fyrir gott starf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband