Fengu að valsa um í stóriðjuvímunni.

Það blasti við öllum almenningi hvernig stjórnendur Orkuveitu Reykjavíkur völsuðu um og gerðu fyrirtækið að einu allsherjar spilavíti á árum gróðærisbólunnar.

Reist var fáránlega stórt monthús sem auðvitað þurfti að gnæfa yfir öll önnur hús í borgarhlutanum og eytt í það sem svarar um tíu milljörðum króna á núvirði. 

Til að hagræða kostnaðartölum voru frágangur lóðar og framkvæmdir þar færðar sem viðhald en ekki stofnkostnaður og annað var eftir því. 

REI-málið sýndi í hnotskurn hvert menn voru komnir í takmarkalausri skammtímagræðgi sem hvergi hefur kristallast betur en í stóriðjustefnunni, sem nú hefur beðið algert skipbrot. 

Þegar þenslunni var hrundið af stað með framkvæmdum við Kárahnjúka lýstu stjórnvöld því yfir að ekki yrði gert neitt svipað annars staðar sem gæti aukið þensluna svo mikið að hún færi úr böndunum. 

En það var einmitt það sem gert var og ekki má gleyma borgarstjórnarfundinum fræga þar sem þrátt fyrir fjölmennustu mótmæli fram að því var það atbeini þáverandi borgarstjórnar Reykjavíkur sem réði úrslitum um að farið var af stað við Kárahnjúka. 

Ekki var farið að ráðum núverandi orkumálastjóra og tekið tillit til álits margra mætra vísindamanna og raka andstæðinga þessarar stefnu og finna marga smærri og betur borgandi kaupendur að orku og virkja síðan af öryggi og framsýni á þann hátt að ekki væri hætta á ofnýtingu og rányrkju á virkjunarsvæðunum. 

Hið þveröfuga var gert, öll orkan seld á niðursettu verði til stórs kaupanda og tekin erlend stórlán til að fjármagna þetta afbrot gagnvart komandi kynslóðum. 

Allt þetta lá fyrir meðan á því stóð en með skipulagðri þöggun á meginatriðum málsins, bæði hvað snerti virkjanirnar og fjármálin fengu menn að valsa um að vild í fílabeinsturninum í Ártúnshverfinu þar sem meira en þrjátíu manns vinna við almannatengsl. 

 

 


mbl.is Tveggja stafa hækkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sævar Helgason

"í fílabeinsturninum í Ártúnshverfinu þar sem meira en þrjátíu manns vinna við almannatengsl. "

Ef annað er eftir þessu hjá Orkuveitu Reykjavíkur-þá er ekkert smáræði sem hægt er að skera niður rekstarkostnað. Einn almanntengill nægir í svona fyrirtæki skyldi maður ætla...Allavega öll stóriðjufyrirtækin hafa einn svona aðila í starfi

Sævar Helgason, 23.8.2010 kl. 13:14

2 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Það þarf ekki mörg orð um þetta: Alfreð og framsókn, íhaldið samþykkti svo allt, kannski til að halda friðin.

Haraldur Bjarnason, 23.8.2010 kl. 13:33

3 identicon

Ertu ekki Ómar orðinn ráðgjafi Besta flokksins í þessum efnum? Ef ekki, farðu þá og leggðu inn umsókn um starfið. Hæfari mann er ekki hægt að finna.

Hólímólí (IP-tala skráð) 23.8.2010 kl. 14:13

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það er náttúrulega margt við þennan pistil að athuga.... en ég ætla að láta nægja að benda á þetta: "... afbrot gagnvart komandi kynslóðum." 

Komandi kynslóðir verða virkjanasinnar, svo það er ólíklegt að þeir kæri þessi meintu afbrot.

Gunnar Th. Gunnarsson, 23.8.2010 kl. 16:07

5 identicon

Ertu nú viss um að klausan um almannatenglana 30 sé sanngjörn?  Sbr. http://kaninka.net/stefan/2010/08/21/billegur-samanbur%c3%b0ur/

Þorvaldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 23.8.2010 kl. 18:50

6 Smámynd: Kristinn Pétursson

Hér gleymist pólitískt aðalatriði málsins:

VG ber mikla ábyrgð á þessari fjárfestingu OR og samningunum við Norðurál - á meintu niðursettu verði... þetta var gert og ákveðið undir valdstjórn R-listans - þar sem VG höfðu lykilaðstöðu til að stöðva málið - en gerðu ekki...

Allt var þetta rutt áfram  - í boði VG - án umhverfismats á borunum - röralögnum - og háspennu-línu-lögnum.

mig minnir að umhverfismat á línulögnum sé nýbúið - eða sendur það enn yfir??

 ....mörgum árum eftir framkvæmdina???

Gleymum svo ekki - að R-listinn ´hafði frumkvæði að "arðgreiðslum" frá OR til "eigandans"...

og R-listinn lét þannig ræna eigið fyrirtæki að innanfrá af lausu fjármangi -  með fáránlegum "arðgreiðslum" sem OR hafði aldrei efni á í raun -  með tilliti til langtímaskuldbindinga...

Enn var arðgreiðsla nýlega fyrir 800 milljónir minnir mig... til að tæma sjóði OR  enn betur... og stuðla að greiðsluþroti þessa fyrirtækis..... sem skuldað i ekki krónu - og átti milljarða í innistæðum - þegar Davíð Oddsson stjórnaði borginni - er það ekki rétt munað??? 

... nú er niðurstaðan fengin af þessu tvennu hjá R- listanum  - í boði VG....

allt komið á hausinn í boði VG....

og þá vaða menn áfram og öskra að þetta sé allt "í boði Sjálfstæðisflokksins"

Það gott "að hafa tungur tvær og tala sitt með hvorri"...

svo var linnualus áróðurinn í fjölmiðlum um þensluna ...

i "vegna framkvæmdanna fyrir austan"...

þó  þenslusprengjan kæmi aðallega frá þessum djöflagangi OR til að útvega Norðurál Rafmagn -  á  meintu niðurgreiddu verði - í boði VG - R lista...

Kristinn Pétursson, 23.8.2010 kl. 20:00

7 Smámynd: Ólafur Ingi Hrólfsson

Orkuveitan skuldar 240 milljarða króna. Langstærstur hluti þeirra skulda er til kominn vegna fjárfestinga fyrirtækisins í virkjunum og veitum, sem ákvarðanir voru teknar um á síðasta kjörtímabili R-listans 2002-2006.

 

Þegar Sjálfstæðisflokkurinn komst í meirihluta árið 2006 hafði fráfarandi meirihluti R-listans mótað stefnu um gífurlegar virkjanaframkvæmdir á Hellisheiði, gert bindandi orkusölusamninga og hafið byggingu Hellisheiðarvirkjunar. Ekki var annað að gera en klára virkjunina og standa við skuldbindingarnar. Stærstur hluti lánanna var því tekinn á síðasta kjörtímabili en ákvarðanir voru að mestu leyti teknar á valdatíma R-listans og undir borgarstjórum Samfylkingarinnar.

 

Á árunum 2001-06 áttu sér stað mikil uppkaup OR á veitum og dreifikerfi á Suðurlandi og Vesturlandi. Lítil arðsemi hefur verið af þessum veitum og sumar beinlínis reknar með tapi.

 

Bág staða OR skrifast því á R-listann - (Samfylkinguna ) sem hvergi segist hafa komið að málum.

Ólafur Ingi Hrólfsson, 23.8.2010 kl. 20:46

8 Smámynd: Andrés Kristjánsson

Ágætis skáldsaga Kristinn.  Þegar Sjálfstæðismenn afgreiddu 800 milljónir sem arð úr OR fyrir árið 2008 þá höfðu sett Sjallar Íslandsmet í tapi á einu ári.  En OR tapaði 70 milljörðum á árinu.  Þegar Skuldaukning OR er skoðuð þá fjórfaldaðist hún á árunum 2006-2009. (þeir reyna að fela sig bakvið ytri ástæður sbr landsmálin en Sjálfstæðismenn fóru einnig með efnahagsstjórnun landsins á þessu tímabili)

Það er ekki eina sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur á samviskunni.  Afgreiðsla þeirra á 45% eignarhlut Reykvíkinga í landsvirkjun er einhver ömurlegasti gjörningur í sögu borgarinnar.  En í skiptum fyrir 45% þá fengu reykvíkingar sama og ekki neitt en sátu uppi með veðin sem fíflagangurinn fyrir austan hafði verið þröngvað á okkur.  Reykvíkingar sitja uppi með veð uppá 100 milljarða króna vegna Kárahnjúkavirkjunar.  Ekki er því að skipta að bæir fyrir austan tóku á sig veðin, Fjarðarbyggð, Fljótsdalshérað eða fljótsdalshreppur.

Og þá kemur að stóra skáldskap.  Það er meintri ábyrgð VG á allri þessari vitleysu þegar veðum vegna Kárahnjúkavirkjunar var þröngvað uppá Reykvíkinga.  Þá reyndi á meirihluta, sem hrunamenn á þingi kölluðu óhefðbundin, það er  Framsókn, Samfylkingu og SJÁLFSTÆÐISFLOKK.  VG setti sig gegn veðsetningu borgarinnar gagnvart Kárahnjúkavirkjun.  Það sama átti við um áform vegna stækkunar norðuráls.  Einnig til að undirstrika þá flokka sem bera ábyrgð á þessum ódæðisverkum þá er gott að skoða afstöðu nefndar um erlenda fjárfestingu sem fóru yfir gjafargjörning Sjálfstæðisflokks og Framsóknar á HS orku til Magma.  AF fimm nefndarmönnum þá fóru einungis tveir fram á ógildingu samningsins það er VG og Hreyfingin 3 vildu kvitta undir gjöfina en það voru SJÁLFSTÆÐISFLOKKUR , Framsókn og Samfylking.

Annars væri ástæða fyrir ykkur austfirðinga Kristinn og Gunnar að leiða sveitarfélögin fyrir austan saman og koma okkur Reykvíkingum undan 100 milljarða ábyrgð vegna Kárahnjúkavirkjunar.  Því það veð veikir lánshæfi borgarinnar.

Andrés Kristjánsson, 23.8.2010 kl. 21:14

9 Smámynd: Kristinn Pétursson

Andrés  virðist typikal pólitískur "togari" sem snýr út úr.

Þessar 800 milljónir var það ekki bara svona "framhaldssaga" af þegar markaðri fjárhagsáætlun (í boði VG- R-lista) - erfitt að snúa þessari óheillaþróun við þegar skriðþunginn er kominn á fulla ferð....

Andrés vill ekki sjá og heyra - að hefði VG getað stöðvað þetta - eins og söluna á Magma -  og fleira - ef þeir hefðu bara viljað beita sér af ábyrgð

þegar það vær hægt....

Dæmigert  að - "vera á móti sölunni á Magma" 

....hálfu ári eftir að hægt var að gera eitthvað í málinu....

Andrés - viltu ekki taka strætó niðrí bæ - sem fór klukkan 2:25 15. febrúar s.l.

.. svo ef þú misstir af  þessum strætó...

heimtar þú að láta hann bakka til baka til 15. febrúar s.l....

Eru VG búnir að uppgötva að hægt sé að framkvæma "pólitískt tímaflakk" í Magma málinu - og vera á móti málinu í janúar  s.l.?

Kristinn Pétursson, 23.8.2010 kl. 21:44

10 Smámynd: Andrés Kristjánsson

Afhverju stöðvuðu B, D og S listi ekki gjörningin þegar þetta mál kom til kasta Alþingis? Þegar nefnd um erlenda fjárfestingu tók málið fyrir þá hefði þingið geta rift málið.   En  eftir að meirihlutinn sem saman stóð af hrunflokkum tryggði málinu brautargengis þá er næsta skref að knýja fram þjóðaratkvæði. Flokkar sem knýja málið áfram í skjóli þingmeirihluta bera ábyrgð á málinu. Einfalt.

Því næst er að skoða það hvernig sveitarfélögin brugðust þegar útrásarvíkingar í gegnum REI eignuðust hlut í HS orku og eignuðust næstum OR hefði Svandís borgarfulltrúi VG ekki stoppað það.  Magma gjörningurinn í gegnum Glitni(Íslandsbanka) með pólítískum stuðningi sveitarstjórnarmanna Framsóknar og Sjálfstæðisflokks hér á suðvesturhorninu ætti að rannsaka. Þorleifur Gunnlaugsson hefur farið fram á ítarlegri rannsókn á verkum sem tengjast Reykjavíkurborg og fyritækjum þess.  Sérstaklega þá Orkufyritækjum Borgarinnar.  Í hvaða flokki er hann? jú VG.  Hvaða flokkar draga lappirnar Sjálfstæðiflokkur, Samfylking og Besti flokkurinn.  Þar lyggur ábyrgðin.

Það er ekki óeðlilegt að eigendur fái arð frá fyritækjum sínum.  En að taka út tæpan milljarð þegar fyritækið tapar 70 milljörðum er ENRON-ismi.  Hver ber ábyrgð á slíkum vinnubrögðum? Sjálfstæðisflokkur og Framsókn.

Andrés Kristjánsson, 23.8.2010 kl. 22:09

11 Smámynd: Kristinn Pétursson

Ég er algerlega andvígur þvi að veitufyrirtæki greiði "arð" þar sem það bara hækkar verðið á þeirri þjónustu sem verið er að veita. Alveg sama hverjir stjórna.

Kjarni málsins er að þessi stefna var mörkuð af R- lista og kjarni málsins er að ákvarðanir um að  bora sundur Hellisheiðina eins og svissneskan ost - án umhverfismats - var tekin af R-lista með fulltingi VG. Punktur

Kristinn Pétursson, 23.8.2010 kl. 22:34

12 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Fjórflokkurinn í borgarstjórn á þessu tímabili bar meiri eða minni ábyrgð á þessu, ekki síst R-listinn. 

En þegar R-listinn klofnaði í Kárahnjúkamálinu komu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins Framsóknarmönnum til hjálpar þegar Samfylingin var klofin og VG á móti.

Aðeins F-listinn (Ólafur F. Magnússon og Margrét Sverrisdóttir) lagðist gegn þessu.

Ómar Ragnarsson, 23.8.2010 kl. 22:45

13 Smámynd: Ólafur Ingi Hrólfsson

Ómar

Sjálfstæðismenn vilja leysa skuldavanda OR þannig að sem minnstum hluta hans sé velt yfir á orkunotendur í Reykjavík. Þess vegna vilja sjálfstæðismenn að gjaldskrárhækkanir séu sem lægstar en einnig sé hagrætt í rekstri hjá fyrirtækinu og eignir seldar.

 

 Árið 2008 var loks farið að spara hjá Orkuveitunni og draga úr fjárfestingum. Hætt var við hugmyndir um að setja 11 milljarða króna í útrásarverkefni erlendis. Reynt var að draga úr virkjanaframkvæmdum eftir því sem hægt var og framkvæmdum við Bitru frestað um óákveðinn tíma. Túrbínur fyrir milljarða króna voru afpantaðar og hagræðingarátak sett af stað hjá fyrirtækinu. Þá voru skuldirnar komnar yfir 100 milljarða króna og þær tvöfölduðust þegar krónan hrundi.

 

Frá ársbyrjun 2008 hafa ekki verið teknar ákvarðanir um  nein ný fjárfrek verkefni hjá Orkuveitunni, þau verkefni sem eru fyrirtækinu erfiðar eru vegna ákvarðana R-listans 2002-2006.

 

Mikil vinna hefur átt sér stað hjá OR við að endurfjármagna skuldir fyrirtækisins og hefur sú vinna gengið vel miðað við aðstæður. Óskiljanlegt er að nýi meirihlutinn skuli nú setja þá vinnu í uppnám með því að reka forstjórann og ótrúlegum yfirlýsingum um að OR stefni í þrot.

Ólafur Ingi Hrólfsson, 23.8.2010 kl. 23:18

14 identicon

OR er búin að gefa upp gjaldskrárhækkanir, og fer skjálfti um fólk.

Þetta eru kannski ekki stórpeningar á hvert mannsbarn, og viðbúið að hækki eins og annað, þar sem ekki er arður af orkusölunni.

Gaman væri að fá upp á borðið tölur um t.d. rafmagn. Sjálfur þarf ég að borga ca 12-13 kr. á KWst, þar sem ég er dreifbýlisbúi. Bý reyndar beint undir byggðarlínu og bara 500 m. frá þorpskjarna.  Helmingurinn af upphæðinni er "dreifingarkostnaður", sem hlýtur að vera skelfilegur, þar sem heimtaug var endurnýjuð 1986 í stað fyrir gamla línu sem taka þurfti niður. Mig grunar að tölur á reikningum höfuðborgarbúa séu all-langt frá því KW verði, og væri glaður að sjá e.k. samanburð.

Hvað skyldi annars mikið af sukki fyrri tíma lenda á gíróseðlum framtíðarinnar? Er það ekki rökréttari spurning en akkúrat hverjum það var að kenna, eða hverjum það var að kenna að hafa ekki stoppað fíflaganginn fyrr? Og kannski lærist þar eitthvað af sögunni, því að "Komandi kynslóðir verða virkjanasinnar" (Gunnar)  væri þá staðfesting á þeirri gömlu fullyrðingu, að við lærum ekkert af sögunni annað en það en að við lærum ekkert af sögunni.....

Jón Logi (IP-tala skráð) 24.8.2010 kl. 18:23

15 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Gunnar skilur ekki ábyrgð okkar gagnvart milljónum Íslendinga sem eiga eftir að byggja þetta land eftir okkar dag.

Hann skilur líklega heldur ekki hugtakið "jafnrétti kynslóðanna". 

Þetta skilja aðrar þjóðir til dæmis Bandaríkjamenn. Þeir taka frá svæði á stærð við Ísland sem skilgreint er sem "Greater Yellowstone" og þar verða engar boranir eða virkjanaframkvæmdir leyfðar frekar en í sjálfu orkubúntinu, Yellowstone, þar sem er að finna mun meiri og auðvirkjanlegri jarðvarma en á hinum eldvirka hluta Íslands. 

Af hverju hafa þeir þetta svona?  Af því að með því er valdið óafturkræfum, neikvæðum umhverfisáhrifum án þess að komandi kynslóðir fengju neitt um það að segja. 

Jafnvel meðal svonefndra frumstæðra manna hefur orðið til máltækið: "Við eigum ekki landið heldur höfum það að láni hjá afkomendum okkar". 

Ef maður fær hefur hús eða íbúð á leigu umturnar maður henni ekki eða hvað? 

Ómar Ragnarsson, 24.8.2010 kl. 20:40

16 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Vantar tvö orð í eina setninguna sem á að vera svona:

"Af hverju hafa þeir þetta svona?  Af því að með því AÐ VIRKJA er valdið...."

Ómar Ragnarsson, 24.8.2010 kl. 21:38

17 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Á Íslandi eru margir girnilegir virkjunarstaðir. Við getum tekið einhver svæði frá og friðað þau, en ég vil helst ekki að angistarfullir vistkvíðasjúklingar hafi hönd í bagga með að ákveða hvað sé friðað og hvað ekki

Gunnar Th. Gunnarsson, 24.8.2010 kl. 23:12

18 identicon

"Vistkvíðasjúklingar"???

Er hægt að skilgreina þá öðruvísi en þá sem eru ekki meðvirkir? Nú eða þá sem hafa a.m.k. eitthvert vit í kolli og vilja ekki velta gluggabréfum inn á ófædd börn framtíðarinnar um áratuga skeið út af einhverju sem ekki rekur sig.

Ég veit að Reyðarál ræki sig ekki lengi ef það þyrfti að borga það sama dyrir strauminn og ég. En minn hóll er búinn að kaupa og borga fullt í meira en 70 ár....

Ég veit líka að ca 80% af orkusölunni fer til stóriðju....

En, veltan af orkusölunni er ekki 80% þaðan frá, og það má ekki blanda dreifingunni inn í það, því að hún er rukkuð sér.

Líklega er þetta allt bara vistkvíði

Jón Logi (IP-tala skráð) 25.8.2010 kl. 07:21

19 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Jón Logi, ástæðan fyrir því að þú ert að borga mun lægra raforkuverð en fólk í öðrum löndum, er vegna þess að hér hefur verið hægt að virkja hagkvæmt vegna stóriðjunnar. Auk þess er afhendingaröryggi orkunnar hér, vel yfir meðallagi. Hér eru aldrei skamtanir og ef bilanir verða þá vara þær mjög stutt.

Svo þarftu að uppfæra þekkingu þína á umræðuefninu, Jón Logi. "Reyðarál" er ekki að kaupa rafmagn af Landsvirkjun.

Gunnar Th. Gunnarsson, 25.8.2010 kl. 12:33

20 identicon

Ég skal uppfæra þekkinguna á smjörklípu þinni Gunnar, en prinsippið stendur. Reyðaráls-pirringurinn breytir ekki grundvallaratriðum, en ætti ég ekki bara að hætta að grínast og kalla þetta Fjarðarál. REYÐARfjörður er þó einhversstaðar til;)

En:

Heimili landsins borga margfalt meira orkuverð en stóriðjan. Sjáðu:

http://www.visir.is/article/20100416/VIDSKIPTI06/741875956

Það sem ég les út úr þessu er aðallega að:

Sá sem borgar miklu miklu hærra (ath að þar sem dreifing er rukkuð sér eins á landsbyggðinni er hún ca 50% af verðinu) er vart að niðurgreiða ofan í þann sem borgar miklu lægra.

Nú veit ég ekki hversu mikið menn á þessum þræði hafa leikið sér með útreikninga, en orkuverð til t.d. mín er stutt frá því sem myndi kosta að kynda á Dísel, og þá jafnvel viði. Það er með öðrum orðum næstum eins hátt og verjanlegt er.

Síðast þegar ég gáði gátu stéttarbræður mínir með smávirkjanir lagt inn á "netið", og er þá verðið 1 kr/Kwst.

Ódýrast væri líklega að smella upp vindrafstöð til rafhitunar, og er þar eini þröskuldurinn að útvega fjármagn. Hún myndi borga sig upp á ca 3 árum með vöxtum, sem eru reyndar allt of háir....

Næstbest er lífmassi til brennslu.

Maður hlýtur því að spyrja sig.....

Jón Logi (IP-tala skráð) 26.8.2010 kl. 06:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband