Formaður í nokkrar mínútur.

Fegurðardrottningar falla gjarna tár þegar lýst er yfir því að þær hafi hreppt hnossið og víst er grátlegt að missa titilinn eftir aðeins eina mínútu eins og fréttin, sem þetta blogg er tengt við, greinir frá.

Höskuldur Þórhallsson var yfirlýstur réttkjörinn formaður Framsóknarflokksins í nokkrar mínútur á landsþingi flokksins á sínum tíma með tilheyrandi lófaklappi, fagnaðarhrópum og faðmlögum, svo að atvik af þessu tagi eru ekki ný af nálinni. 

Enginn felldi þó tár, hvorki vegna gleði né vonbrigða þegar í ljós kom að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafði verið réttkjörinn. 

Sagan greinir frá mörgum tilvikum þegar menn hafa talið sig hreppa hin stærstu hnoss en orðið af láta þau af hendi.  Einkum hafa lyfjapróf síðustu áratuga orðið skeinuhætt íþróttastjörnum og er eftirminnilegasta dæmið líklega sigur Kanadamannsins Ben Johnson í Seoul 1988 þegar hann skaut Carl Lewis ref fyrir rass en þurfti síðan að láta gullið af hendi eftir að niðurstöður lyfjaprófs lágu fyrir. 

Frægt er einnig atvikið á Ólympíuleikum fyrir öld þegar örmagna hlaupari, sem kom langfyrstur að marki, riðaði og var, að því kominn að falla þegar nærstaddir hlupu til og studdu hann yfir marklínuna.

Hann var sviptur verðlaununum en fékk síðar, ef ég man rétt,  afhent gull, þar eð ljóst þótti að það var ekki hans sök að hann fékk stuðning og að miklar líkur hefðu verið á að hann hefði getað staulast yfir línuna þótt það hefði gerst hægar en með því að fá hinn ólöglega stuðning.

Ég held að miklar líkur séu á því að þetta hefði hann getað gert, því að eitt sinn varð ég vitni að því þegar Þórarinn Ragnarsson, millivegalengdahlaupari, fór að riða á fótum og missa stjórn á sér af örmögnun þegar hann var að koma út úr síðustu beygjunni í hlaupi, en byrjaði síðan á einhvern óskiljanlega hátt að fá máttinn aftur og þaut áfram sem elding í mark. 

Hann hefur líkast til fengið þarna nokkuð sem kallast á íþróttamáli "adreanalin-spark" eða "second wind".

 

 


mbl.is Fegurðardrottning í mínútu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband