Alltaf verið að pæla í plottum.

Athyglisvert er að lesa leiðara Morgunblaðsins í dag og um hugleiðingar Atla Gíslasonar í Fréttablaðinu þegar menn leita skýringa á því af hverju Geir einn verður dreginn fyrir Landsdóm en ekki aðrir.

Á báðum stöðum er það hugleitt í alvöru að það þekkist meðal þingmanna að taka ekki afstöðu til ákæru algerlega samkvæmt sannfæringu sinni varðandi hvern og einn fjórmenninganna, heldur er ýjað að því að þingmenn hafi margir hverjir allan tímann verið að reyna að ráða í stöðuna og hafa heildarúrslitin í huga frekar en mat, algerlega óháð öðru en málavöxtunum sjálfum. 

Í Morgunblaðinu er það sagt Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni til hnjóðs að hann hafi ekki stjórn á eigin flokki.  Samkvæmt þeirri hugsun hafa Bjarni Benediktsson og Steingrímur J. Sigfússon hins vegar stjórn á eigin flokkum og að þar marséri allir í takt eins og strengjabrúður.

Út úr þessu skín sú hugsun að betra sé að hinir gömlu tímar Davíðs og Halldórs renni aftur upp þar sem "sterkir" formenn stjórni með harðri hendi. 

Síðan er hinu bætt við að ákveðnir þingmenn Samfylkingar og Framsóknar hafi komið í veg fyrir að meint plott hafi gengið upp.

Með þessu er gefið í skyn að á bak við tjöldin hafi verið stefnt að því meðan málið var til meðferðar á þingi að búa svo um hnúta að enginn yrði ákærður og að lhugsanlegt og leynilegt heiðursmannasamkomulag hafi verið brotið af þeim þingmönnum sem hlupu út undan sér. 

Á bak við það liggur að ákveðnir þingmenn, jafnvel flestir,  hafi legið yfir stöðu refskákar allan tímann.

Bent er á að allir þeir sem áður voru ráðherrar í Hrunstjórninni og nú sitja á þingi hafi einróma hafnað því að ákæra fyrrum félaga sína í ríkisstjórn.

Þessar lýsingar á atburaðrásinni, sem nú koma upp, um "sterka" og "veika" formenn og svik á leynilegu ráðabruggi, sem nú koma upp,  eru dapurlegur vitnisburður um það hve rík sú hugsun er enn, þrátt fyrir Hrunið, að mestu skipti pælingar í leynilegum ráðagerðum, "plottum" sem ýmist ganga upp eða ganga ekki upp. 

Það gefur ekki góða mynd af stjórnmálalífinu, hvorki utan þings né innan. 


mbl.is Ískalt viðmót á þinginu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Stjórnmálalíf á Íslandi hefur aldrei verið öðruvísi. Og að nota orðið "heiðursmannasamkomulag" þegar stjórnmálamenn eru annarsvegar sýnir að þú hefur húmorinn ennþá. Þetta landráðapakk ætti allt að fara fyrir dóm, allir sem einn.

V. Jóhannsson (IP-tala skráð) 30.9.2010 kl. 12:14

2 identicon

Vel mælt Ómar eins og ævinlega. Heilbryggð skynsemi í fyrirrúmi.

Ingolfur Torfason (IP-tala skráð) 30.9.2010 kl. 12:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband