Staðreyndir um naglatrúna.

Gerð vetrarmynstra á hjólbörðum hefur farið mikið fram hin síðari ár. Í hverri rannsókninni á fætur annarri fæst nú svipuð niðurstaða: Negldir hjólbarðar taka góðum ónegldu hjólbörðum aðeins fram á rennblautu svelli.

Við allar aðrar hálkuaðstæður eru góð vetrardekkjamynstur best á ónegldum dekkjum.

Það hefur ekki verið rennblautt svell í Reykjavík í kvöld og raunar eru það aðeins örfáir dagar á hverjum vetri sem hálka er í Reykjavík því að salti er ausið á göturnar. 

Ég sé á bloggi einu að þess er krafist að allir verði skyldaðir til að vera með negld dekk á bílunum í Reykjavík að viðlögðum sektum. 

Þetta er alveg á skjön við staðreyndir málsins, sem eru þær að  nánast allan veturinn eru negld dekk gersamlega óþörf í Reykjavík. 

Í blogginu er fullyrt að það kosti mannslíf og slys ef ekki séu allir á negldum dekkjum. 

Þetta er sömuleiðis alveg órökstutt og grunar mig raunar að hið þveröfuga eigi við, sem sé það að sleip tjaran sem dekkin rífa upp úr götunum og úðast um allt, valdi fleiri óhöppum  og þar með meira tjóni en ímyndaður ávinningur af því að hafa dekkin negld. 

Þegar jeppamenn fara í jöklaferðir er það fyrsta verk þeirra þegar komið er nógu langt út fyrir borgina að þrífa þessa sleipu tjöru af dekkjunum því að hún gerir þau sleipari. 

Negld dekk eru bönnuð í Vestur-Þýskalandi og liggur þó allstór hluti landsins hátt uppi í fjöllum þar sem er snjór og vetrarríki mikið. 

Þau eru bönnuð í Osló og víðar í Noregi. Í hitteðfyrra ók ég á bílaleigubíl frá vesturströnd Noregs yfir hálendið í fljúgandi hálku, enda hitinn við frostmark. 

Ég undraðist hve gott grip hin ónegldu vetrardekk höfðu, en hafði af gömlum vana óttast mjög að fara á ónegldum dekkjum um fjallvegina þarna í svona færi, enda veðurlag mjög svipað á vesturströnd Noregs um háveturinn og er hér á suðvesturhorninu hjá okkur.

Raunalegt er að horfa á tugþúsundir bíla berja auðar göturnar í Reykjavík með nöglum og slíta þær upp og úða tjöruleðju á bílglugga og rúðuþurrkur vikum saman á hverjum vetri.

Eða þá að valda svifryki á þurrum dögum sem fer langt yfir öll mörk og valda auk þess hundraða milljóna króna óþörfum útgjöldum vegna viðgerða á götunum. 

Hér hefur lengi ríkt oftrú á naglana svo að líkja má við trúarbrögð frekar en vitneskju, sem byggð er á rannsóknum og staðreyndum. 


mbl.is 28 umferðaróhöpp í kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

ég bý í Mid West og það sjást ekki naglar hérna á veturna

í minni vinnu keyri ég stundum yfir 200 mílur á dag og er bara á það sem kallast  heilsársdekkjum

Loki (IP-tala skráð) 4.11.2010 kl. 00:24

2 identicon

Ómar, þetta er tómt blaður.  Þú veist betur.  Þarna er græna rétthugsunin að tala.

Ís  er hálastur nálægt frostmarki,  blautur eða ekki.  Á íslandi  og sérstaklega í Rvík er hitinn einmitt gjarnan við núllið. Aðeins nagladekk virka að viti. 

Ís verður hinsvegar stamur þegar frostið vex og öll dekk grípa, en viðvarandi mikið frost er aldrei í Rvík.

Þegar mannslíf eru undir eiga menn ekki að gráta slit á malbiki.  Nagladekk er mikilvægasti öryggisbúnaður sem hægt er að fá við vetraraðstæður á íslandi.

Gunnlaugur Ásgeirsson (IP-tala skráð) 4.11.2010 kl. 00:44

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

  Ja hérna,ég lét rífa naglana úr vetrardekkjum bilsins sem ég ek. Þar með kalla ég þau heilsárs. Ekki virðast allir sammála um kosti nagladekkja,en kýs að meta þau af minni tilfinningu fyrir menguninni sem þau valda,svo fremi að þau séu ekki skyldug á bílum. Ég þvæ þau úr perklór (þurrhreinsivökvi í efnalaugum)  þegar hálka er,þá eru þau aldeilis  fín. Kv.

Helga Kristjánsdóttir, 4.11.2010 kl. 01:14

4 Smámynd: Jens Guð

  Þegar ég fór fyrst til Færeyja,  fyrir 15 árum eða svo,  vakti athygli mína límmiðar í bílrúðum.  Þar stóð:  "Herferð gegn píkum".  Síðar komst ég að því að þarna var um baráttu gegn nagladekkjum að ræða. 

Jens Guð, 4.11.2010 kl. 01:27

5 identicon

Ég sá mynd frá Volvo einu sinni þar sem 2 bílum var ekið hlið við hlið á blautu svelli. Annar var með nagladekk, og hinn með naglalaus vetrardekk. Þeir bremsuðu á sama stað, höfðu sama hraða. Bíllinn með nagladekkin rann ca 50m leingra en sá utan. Sjálfur hef ég ekið naglalausum dekkjum í 25ár, og aldrei haft neitt vesen með það að komast leiða minna. Ég ek 50tonna vörubíl í Noregi og hann hefur bara venjuleg vetrardekk. Stundum þarf að nota keðjur þegar aðstæður krefjast.  Nagladekk eru eingöngu fölsk tilfinning hjá fólki. Burt með þau.

Gunnar (IP-tala skráð) 4.11.2010 kl. 06:30

6 identicon

Ég hef notað harðskeljadekk í nokkur ár, slíta götunum síður og eru með betra grip.

Eru menn ekki meðvitaðir um þessi dekk ?

Elías Guðmundsson (IP-tala skráð) 4.11.2010 kl. 07:14

7 identicon

Get skrifað undir rökstuðning Ómars að því tilskyldu að hætt verði að salta göturnar. Tjöruupplausnin sem verður vegna samspils salts og annarra aðstæðna húðar dekkin þannig að þau verða glerhál og illnothæf þegar komið er inn á ósaltað svæði. Þetta þekkja flestir dreifbýlingar sem eru á ferðinni á þessum árstíma.

Sverrir (IP-tala skráð) 4.11.2010 kl. 08:22

8 Smámynd: Skúli Guðbjarnarson

Ómar, það er ekki rétt að naglar séu hætulegir. Menn kaupa ekki nagla að gamni sínu. Þar sem bílar þurfa að hemla myndast fljótt svell sem er gjarnan blautt vegna stöðugs núnings við ísinn á yfirborðinu. Við þær aðstæður þarf nagla. Þú stoppar ekki þungan bíl á leið niður brekku þar sem margir bílar hafa bremsað áður nema að hafa nagla. Þar sem margir bílar bremsa er venjulega hætta. Þess vegna verða margir að nota nagla. Þungir bíla bílar án abs og bílar sem eru á þéttbýlissvæðum þar sem ekki er hægt að stóla á að það sé saltað.

Salti menn alltaf í tæka tíð horfir málið öðruvðisi við.

Ég bjó í Bergen þegar það varð keðjuslys vegna þess að það gleymdist að salta aðalbraut þar sm var snarbratt. Naglanotkun hafði minnkað mikið vegna tilmæla stjórnvarda. Við þetta óhapp fór naglanotkun úr 40% í 60% á einni viku.

Skúli Guðbjarnarson, 4.11.2010 kl. 08:46

9 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það þýðir ekkert annað en að vera með nagla á fólksbíladekkjum á Reyðafirði og nágrenni. En ég hef mjög lengi verið þeirrar skoðunar að þau séu óþörf í Reykjavík.

Gunnar Th. Gunnarsson, 4.11.2010 kl. 09:19

10 identicon

Það verður nú að taka tillit til þeirra sem keyra meira en bara í þessari blessaðri óttaborg.. mikið af fólki keyrir keflavíkurveginn á hverjum degi í óttaborgina.. einnig frá selfossi og fleiri stöðum.

Að bera þýska eða norska vegi við niðurskurðarvegi hér á landi finnst mér alls ekki við hæfi.. enda trúi ég ekki að sömu blöndur séu notaðar í malbik hér og erlendis.. enda eru flestir vegir hér á landi stórhættulegir vegna hjólfara sem eru gljúp og í þau safnast mikil bleyta sem getur eins og þú veist Ómar sem reyndur ökumaður haft verulega slæm áhrif á heilsuna lendi maður utanvega eða framan á næsta bíl.

Jóhannes Jóhannesson (IP-tala skráð) 4.11.2010 kl. 11:01

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Allar rannsóknir sem ég hef kynnt mér síðustu ár varðandi vetrardekk eru á eina lund: Bestu vetrarmynstri á ónegldum dekkjum duga best í öllum hálkuskilyrðum nema á rennblautu svelli, líka í hálku við frostmark.

Á auðum götum, sem eru hér í Reykjavík í 95% tilfella að vetrarlagi, hemla negldu dekkinn verr. 

Það er alveg makalaust þegar menn byggja dóma sína á löngu úreltum forsendum þegar mynstrin voru ekki eins góð og naglarnir nýlunda. 

Rök mín gegn negldum dekkjum hafa raunar ekkert með "græna" stefnu að gera, þótt vitanlega væri gott að losna við hið hvimleiða svifryk af þeirra völdum.

Rök mín varð mest kalda peningahagsmuni og það einnig það að slys og óhöpp eru líkast til fleiri frekar en færri af völdum naglanna. 

Hjólför vega og gatna hér á landi eru einmitt fljótari að myndast vegna óhóflegra notkunar negldra dekkja og þar er fyrir hendi aukin slysahætta af þeirra völdum. 

Umferðartafir og óþægindi vegna viðgerða á götunum er einnig fylgifiskur notkunar negldra dekkja. 

Ómar Ragnarsson, 4.11.2010 kl. 19:09

12 identicon

Ég er einn af þeim, sem trúi á negld vetrardekk. Það er mín bjargfasta skoðun að  saltpækillinn á götunum sé meiri skaðvaldur fyrir malbikið en naglarnir. Saltið leysir upp malbikið og veldur því að tjörudrullan sest á dekk og gerir þau flughál.

Þegar þannig hefur árað að saltnotkun hefur verið mikil í Reykjavík, hafa sumar götur oft verið illa farnar af stórum holum í malbikinu þegar kemur fram undir vor. Varla eru það naglarnir, sem grafa slíkar holur. Ég vil a.m.k frekar kenna saltinu um.

Á Akureyri hefur það löngum verið venja að nota sand en ekki salt á göturnar og eftir því sem ég best veit hefur tjara á dekkjum ekki verið að angra bíleigendur þar. Leiðréttið mig ef ég fer með rangt mál hvað þetta varðar. Aukinheldur hefur það löngum þótt vænlegt að kaupa notaða bíla að norðan því þeir ryðga síður en bílar á Suðvestur horninu, sem eru vel saltaðir eftir hvern vetur.

Saltið skemmir!

Sigurbjörn H. Magnússon (IP-tala skráð) 4.11.2010 kl. 21:25

13 identicon

Það má líka benda á að margir eru ekki einu sinni á vetrardekkjum.  Má leiða líkum að því að nokkrir af þesum 28 hafi verið að spara við sig dekkjagang sem ætti auðvitað að vera mun hærri sektargreiðsla en að vera með nagla á sumrin.

Valgeir Guðmundsson (IP-tala skráð) 7.11.2010 kl. 21:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband