Fyrir ofan Belgíu, Danmörku og Spán.

Það eru ekki góð tíðindi að Ísland skuli hafa fallið úr 1. sæti niður í það 17. á nýjasta þróunarlista S.Þ.

Heyra má mikil ramakvein út af þessu. Þegar nánar er skyggnst í listann sést þó að Belgía, Danmörk og Spánn eru næstu þjóðir fyrir neðan Íslendinga á listanum. 

Er svona hræðilegt að eiga heima í þessum löndum? 

Tvennt getur skýrt þetta.

1. Útkoman getur ráðist af forsendum sem gera listann ekki hóti betri en þær eru, það er, máltækið "garbage in - garbage out", ef þú setur hæpnar forsendur inn færðu hæpnar niðurstöður. 

2. Íslendingar voru aldrei í efsta sæti. Græðgisbólan 2007 var að mestu tilbúningur, blekking og bókhaldsbrellur, allt frá hundraða milljarða gróða með kaupum og sölum á fyrirtækjum með tilheyrandi stórhækkandi og tilbúinni viðskiptavild til tilbúinnar þenslu sem gerði gengi krónunnar 30-40% hærra en það hefði átt að vera. 

Íslendingar eiga enn stærsta, eyðslufrekasta og mest mengandi bílaflota á Vesturlöndum, búa í stærri íbúðum og húsum, eiga stærri og flottari sumarhús og njóta enn byltingar eignarhalds flatskjáa og tækja, sem þeir eignuðust með því að fjórfalda skuldir heimila og fyrirtækja. 

Kaupmáttur er hér enn svipaður og hann var 2002 og á því ári minnist ég ekki annars en að við hefðum haft það býsna bærilegt, höfðum raunar aldrei haft það eins gott.

Út af stendur skuldavandi heimilanna, sem er nánast eina alvarlega meinsemdin, því ef allar þessar skuldir gætu horfið, væri bara býsna gott að búa á Íslandi fyrir alla. 

Í staðinn hafa tugþúsundir fólks orðið illilega fyrir barðinu á Hruninu á sama tíma og tölur sýna, að þúsundir sem eiga eignir yfir 100 milljónir króna, hafa það betra en nokkru sinni fyrr. 


mbl.is Ísland lækkar á lífskjaralista
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

Það er ekkert að marka þennan lista frekar en aðra af sama meiði, sem eiga að mæla lífsgæði, hamingju eða hvað annað. Allt byggist þetta á hagfræðisma, þar sem peningar eru settir í beint samhengi við líðan fólks. Eins og aðrir hlutir skipti ekki máli en krónur og aurar.

Brjánn Guðjónsson, 4.11.2010 kl. 23:35

2 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Sæll Ómar   við vorum reyndar í 3ja sæti 2007 á eftir Norðmönnum og Áströlum.

Það eru ótal breytur á bak við þessa vísitölu, þ.m.t. langlífi, læsi, morð, fátækt, internetnotkun, sparnaður, atvinnuleysi, jafnrétti, heilsa,  menntunarþátttaka, koltvísýruútblástur,  auk þessara hefðbundnu fjármálafaktora, þjóðartekjur, þjóðarframleiðsla,  neysla  og fleira og fleira.

2007 voru allir fjármála faktorar upplásnir af lofti, eins og allir Íslendingar vita og því hefur minna verið að marka stöðuna þá.  

Þegar þessi skýrsla er skoðuð grannt, tel ég að Íslendingar megi samt prýðilega við una.  Það eru ca 50 lönd í heiminum sem eru talin á hæsta þróunarferli í lífskjörum og þar er Ísland í 17.sæti.    Það yrði hins vegar áfall ef við færum að falla enn neðar á listanum á næstu árum.

Þessi linkur sýnir helstu niðurstöður og hægt er að skoða hvaða breytur (GI) eru notaðar og hver útkoman (GO) er.  Hef trú á því að gögnin séu eins trúverðug og hægt er, enda örugglega fengin frá hagstofum og opinberum stofnunum.

http://hdrstats.undp.org/en/countries/profiles/ISL.html

Jenný Stefanía Jensdóttir, 5.11.2010 kl. 00:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband