Enn einu sinni spurt: "hver?" - en ekki "hvað?"

"Getur nokkuð gott komið frá Nazaret?" var spurt forðum tíð þegar fréttist af manni frá þeirri borg, sem væri markverður.

Þessi spurning snerist ekki um það hvað maðurinn hefði fram að færa heldur hver hann væri. 

Íslensk stjórnmál og umræðan í þjóðfélaginu hafa verið einstaklega lituð af þessu viðhorfi. Aðalatriðið er hver stendur að málinu, ekki málið sjálft. 

Af því að Jóhanna Sigurðardóttir glæptist til þess að leggja fram frumvarp um stjórnlagaþing 1994 og stóð síðan að því nú ásamt fleirum að koma því á koppinn er Stjórnlagaþing dæmt óalandi og óferjandi af pólitískum andstæðingum Jóhönnu og hlakkað yfir lítilli þátttöku í kosningum til þess. 

Þótt fyrir liggi að Alþingi hafi mistekist æ ofan í æ í 66 ár að efna það opinberlega loforð og stefnu sína að heildarendurskoðun færi fram á stjórnarskránni, hafa menn haldið því fram fullum fetum að engin ástæða væri til að hrófla við henni. 

Ályktun Þjóðfundar, sem valinn var með slembiúrtaki, um að ráðast til dæmis gegn því misvægi atkvæða sé 2,5 falt á milli íbúa á Akranesi og á Hvaleyrarholti í Hafnarfirði og að Reykjavík sé klofin að endilöngu í tvö kjördæmi þykir ekki að neinu hafandi. 

Allt eigi að vera sem fyrr og allt sem Jóhanna Sigurðardóttir kemur nálægt er að engu hafandi. 

 


mbl.is Kosningaþátttakan áfall fyrir Jóhönnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Undirritaður kaus alla vega 25 konur og karla í öllum stjórnmálaflokkum til setu á stjórnlagaþingi, þar á meðal Ómar Ragnarsson.

Þorsteinn Briem, 28.11.2010 kl. 23:19

2 Smámynd: Ómar Valdimarsson

Þetta er rétt hjá þér, nafni. Þessi "hver-en-ekki-hvað" siður er óþolandi og í raun ekki bjóðandi meðal siðaðs fólks. Svo vona ég að mér sé óhætt að óska þér til hamingju með að hafa verið kjörinn á Stjórnlagaþingið. Það getur varla hafa farið á annan veg!

Ómar Valdimarsson, 28.11.2010 kl. 23:48

3 Smámynd: Kjartan Sigurgeirsson

Getur ekki verið að kjósendur hafi ekki treyst sér til að velja úr þessum 523 frambjóðendum með svo skömmum tíma til kynningar.  Það er næsta víst að þetta fyrirkomulag gengur ekki nema með því að fjölmiðlar kynni frambjóðendur.  Þegar þeir eru 523 tekur 5 mínútna kynning RÚV 2.615 mínútur eða 43,5 klst.  Hefur einhver trú á að stór hluti kjósenda gefi sér 43 og hálfa klst á 5 dögum til að kynna sér frambjóðendurna, það er yfir 8 klst á dag.  Þetta gengur augljóslega ekki og ég gæti best trúað því að yfir 90% kjósenda hafi haft litla sem enga þekkingu á stefnumálum sem í boði voru og bara kosið kunnugleg andlit.  Margur hefur eflaust hugsað með sér að betra væri byrja jólahreingerningarnar snemma og sleppa því að kjósa.

Ég tel að fjölmiðillinn okkar allra RUV hafi ekki getað sinnt því hlutverki sínu að kynna frambjóðendur þar sem tími til þess var allt of knappur.

Kjartan Sigurgeirsson, 29.11.2010 kl. 11:11

4 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Auðvitað er lítil þáttaka í kosningunni ekki einstakling að kenna Ómar. Það er hinsvegar spurning hvort um er að kenna málefnnu eða lélegri kynningu. Ekki ætla ég að dæma það.

Það er ljóst að sá tími sem var frá því að framboð komu fram og þar til kosið var, var allt of skammur. Sá bæklingur sem gefinn var út til að kynna frambjóðendur var ekki að skila því sem til var ætlast. Flestir höfðu sömu mál sem forgangsmál. Því var nánast útilokað að nýta hann til að velja frambjóðendur. RUV, sem er útvarp landsmanna tók seint við sér og það sem þá kom var vart til að bæta úr. Í sjónvarpi var einungis um sömu upplýsingar að ræða og í fyrrnefndum bækling og úyvarpið fór af stað með sína kynningu allt of seint og með þeim hætti að útilokað var að nýta sér það. Þarna brást RUV skildu sinni.

Hvort þetta sé orsökin fyrir lélegri mætingu á kjörstað, eða sú staðreynd að stjórnlagaþing mun einungis leggja fram tillögu til breytinga á stjórnarskrá til alþingis, sem svo getur gert þær breytingar sem því sýnist, ætla ég ekki að dæma um. Trú fólks á þingmönnum er þó ekki upp á marga fiska um þessar mundir og ljóst að margir kjósendur treysta þeim ekki til að taka tillögur stjórnlagaþings og leggja þær óbreyttar fyrir þjóðina.

Enn ein skýring gæti verið að rúm sextíu prósent þjóðarinnar telji ekki rétt að eyða peningum í þessa vinnu nú, þegar skorið er niður í velferðarkerfinu.

Gunnar Heiðarsson, 29.11.2010 kl. 11:59

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Aðdragandinn var allt of skammur og ekki nógu vel notaður. Þar að auki eru stórmál í gangi einmitt núna sem draga athygli og áhuga frá, svo sem skuldavandi heimilanna.

Ég er alls óviss um það hvort ég næ kjöri og er aldeilis pallrólegur yfir því, - yrði í raun léttir að komast ekki inn, því að Stjórnlagaþingið myndi taka dýrmætan tíma frá manni, upp fyrir haus í verkefnum, sem eru unnin í kapphlaupi við hina sterku mulningsvél ásóknarinnar í að æða áfram á hraðlest orkubruðlsins og stórfelldra náttúruspjalla, sem stóiðjan krefst.

Ég hafði hins vegar tilfinningu fyrir því að Hrunið og málefnin, sem tengjast núinu, gætu valdið því að hagsmunir milljóna afkomenda okkar myndu gleymast, en fyrir slíkum hagsmunum er séð í sérstökum stjórnarskrárákvæðum felstra annarra Evrópulanda.

Eftir að framboðsfrestur rann út kom í ljós að þessi ótti minn var á rökum reistur, því aðeins 15 af frambjóðendum nefndu þetta í kynningunni, sem send var landskjörstjórn. 508 voru annað hvort ekki með þetta eða létu það mæta afgangi.

Ég hefði ekki getað horfst í augu við það að hafa ekki að minnsta kosti reynt að hafa áhrif, frekar en að sitja hjá og taka áhættuna af því að svona ákvæði kæmust ekki inn í stjórnarskrána.

Dæmi eru um það erlendis, svo sem í Finnlandi, að ákvæði af þessu tagi urðu til þess að fresta áformum um virkjanir og stóriðju, sem áætluð voru í örvæntingu Hrunsins þar upp úr 1990.

Frestunin varð til þess að þessi áform voru slegin út af borðinu, því engum myndi detta í hug að framkvæma þau í dag. 

Ómar Ragnarsson, 29.11.2010 kl. 14:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband