Gagnsleysi 5% þröskuldsins.

Eitt af fjölmörgum málum, sem athuga mætti á komandi Stjórnlagaþingi, er það óréttlæti að hægt sé að ræna allt að 7500 kjósendum þeim rétti að fá fulltrúa sinn kjörinn á þing. Þetta samsvarar því að rúmlega 7000 kjósendur Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi hefðu ekki fengið neinn fulltrúa kjörinn.

Þetta kemur upp í hugann þegar opinber er ágreiningur sem jaðrar við klofning í VG, því að hinum óréttláta þröskuldi er ætlað að koma í veg fyrir of mikla flokkadrætti og sundrungu á Alþingi. 

Nefna má ótal dæmi um það að ákvæði af þessu tagi virki ekki. Þannig klofnaði Borgarahreyfingin á mettíma eftir síðustu kosningar og meðal annars lýsir það sér í því að varamaður Þráins Bertelssonar myndi líkast til taka aðra afstöðu til ríkisstjórnarinnar en hann. 

Borgaraflokkurinn klofnaði á sínum tíma og sömuleiðis þingflokkur Bandalags jafnaðarmanna eftir að á þing var komið. 

Þingflokkur Alþýðuflokksins klofnaði 1938 og síðan aftur fyrir kosningarnar 1956 og enn á ný fyrir kosningarnar 1995. 

Sama gerðist hjá þingflokki Samtaka frjálslyndra og vinstri manna á kjörtimabilinu 1971-74 eftir að þeir fengu fyrst kjörna þingmenn, Framsóknarflokkurinn klofnaði fyrir kosningarnar 1934 og þingflokkur Alþýðuflokksins klofnaði 1938. 

Þingflokkur Sjálfstæðismanna klofnaði 1944 og aftur 1980 gagnvart stjórnarmyndunum þessi ár en náði síðan saman aftur. Þingflokkur Sjallanna klofnaði líka og leiddi af sér sérframboð bæði Jóns G. Sólness og Eggerts Haukdals, og Stefán Valgeirsson sagði skilið við Framsóknarflokkinn 1987 og komst af eigin rammleik á þing. 

Og ekki má gleyma stofnun Borgaraflokksins 1987 í kjölfar klofnings þingflokks Sjálfstæðismanna. 

Í flestum tilfellum voru það einn eða tveir þingmenn sem klufu sig frá þannig að til urðu "flokksbrot" sem voru oft vel neðan við 5% kjósenda á bak við þingmennina. 

Sá tilgangur 5% þröskuldsins að vinna gegn sundrungu á þingi er óþarfur, því að þingflokkar klofna og fylkingar riðlast hvað eftir annað eins og dæmin hér að ofan sýna.


mbl.is Átökin mest um ESB-stefnu VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Hver er afstaða þín til ESB, Ómar?

Gunnar Th. Gunnarsson, 4.1.2011 kl. 23:53

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Já, það væri fróðlegt að fá svar Ómars við spurningu Gunnars Th.

En Ómar, þú veizt það eins og ég – sem hef verið mikill samherji þinn einmitt í þessu máli sem þú skrifar hér um – að ástæðan fyrir þessu er sú, að stærstu stjórnmálaflokkar hér hafa kosið að vera eins konar ræningjaflokkar. Þeir ræna 1300 milljónum króna úr vösum skattborgara á hverju kjörtímabili í flokkssjóðina, og þeir hika ekki við að ræna lýðræðislegum rétti fólks til áhrifa með ranglátu kosninga- og kjördæmakerfi.

Menn geta gúglað skrif mín um þau mál eða notað leitarapparatið á minni bloggsíðu, ég hef ekki tíma hér í meira í bili.

Jú, eitt enn: Af hverju gekkstu þá í einn þessara ránsflokka, Ómar minn?

Jón Valur Jensson, 5.1.2011 kl. 00:12

3 Smámynd: Björn Ragnar Björnsson

Þetta ákvæði (5% þröskuldur) er fjarri því að vera gagnslaust.  Það þjónar prýðilega raunverulegum tilgangi sínum sem er að festa ráðandi flokka rækilega í sessi, en ekki að koma í veg fyrir sundrung á þingi. Rétt er að fjölmargir Íslendingar eru sviptir þingfulltrúum, því smáflokkar (óánægjuframboð) eru með þessu ákvæði dauðadæmdir. "fjórflokksmenn" hamast svo á þingliði óánægjuframboða til að sundra þeim, og verður oftast vel ágengt.

Að lágmarki er nauðsynlegt að gefa kjósendum kost á að kjósa án þess að eiga á hættu að glata atkvæði sínu. Þetta má t.d. gera með því að leyfa mönnum að ráðstafa atkvæði sínu með líkum hætti og gert var í kjöri til stjórnlagaþings. Það er: kjósa einn lista og annan til vara o.s.frv.

Björn Ragnar Björnsson, 5.1.2011 kl. 03:38

4 identicon

Ja, gagnslaust er það ekki, - fyrir fjórflokkinn þ.e.a.s.

Ég sé nú ekki annars annað, en að þing vort sé nokkuð vel sundrað, og stýrt hafi verið nokkuð vel útfrá mottóinu "meirihlutinn ræður hversu naumur hann er, og allar tillögur andstæðinga eru þar með ónýtar". Það er því ágætis bremsa á nauman meirihluta að geta ekki treyst á framgang hvers sem er, sem er þá oftast það sem andstaðan er nokk sammála um, og fer fyrir brjóstið á sumum stjórnarliðum líka.

Og glötuð atkvæði....þau eru mörg, og verða alltaf....

Jón Logi (IP-tala skráð) 5.1.2011 kl. 09:44

5 identicon

Eitt er það sem ég vildi að yrði breytt, þ.e. að EF þingmaður segir sig úr flokki sem hann hefur verið kosinn til  þingsetu, þá eigi hann skilyrðislaust að láta af þingstörfum og næsti maður á lista að taka hanns sæti. Segjum ef ég kysi t. d.samfylkingu og þingmaður yrði óánægður út í störf flokksins, segði sig úr þingflokknum og gengi til liðs við  annann flokk þá finnst mér  sá sem ég hefði kosið vera að svíkja mig.

Margrét (IP-tala skráð) 5.1.2011 kl. 11:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband