Er hægt að fresta byltingu?

Mubarak Egyptalandsforseti veifar því sem líklegum möguleika að hann geti setið á forsetastóli áfram í meira en hálft ár, áður en hann lætur af embættinu.

Hann virðist ímynda sér að allir mun fallast á þetta svo að honum "gefist ráðrúm" til þess að hefja þær "tafarlausu umbætur," sem Obama Bandaríkjaforseti hefur ráðlagt honum að hefja og að egypska þjóðin muni fallast á þetta sem skynsamlegan kost, því að ella verði valdaskiptin hættulega tvísýn og óundirbúin.

Hugurinn leitar aftur til þess tíma þegar ráðamenn í Íran 1979, og Austur-Þýskalandi, Rúmeníu og fleiri kommúnistalöndum áratug síðar stóðu frammi fyrir svipuðum uppreisnum  og mótmælum í sínum löndum.

Engum þeirra var gefinn slíkur frestur til umbóta, enda eru nöfn Mubaraks og þeirra það sem uppreisnarmenn og mótmælendur setja efst á breytingalista sinn.

Mubarak hefði á þrjátíu ára alræðisvaldatíma sínum getað gert þær umbætur og breytingar, sem hann biður nú um að fá frest til að gera.

Hætt er við að það sé orðið of seint úr því að hann þekkti ekki sinn vitjunartíma.


mbl.is Aukin harka í Kaíró
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Alveg sammála að fyrst honum dugðu ekki 30 ár til þess að gera þessar umbætur sé of vel gert við manninn að leyfa honum að sitja undir stýri þegar skipt er um átt.  Hins vegar getur maður haft áhyggjur af því sem getur farið af stað ef of snöggt er snúið og allir ósammála um hvert skal haldið.  Eins og í Íran og Írak gæti ég bætt við.  Kannski er ekki hægt að fresta byltingu en er hægt að biðja hana um að ganga hægt inn um gleðinnar dyr?

Jón Gunnar Ákason (IP-tala skráð) 3.2.2011 kl. 15:52

2 identicon

Það veit ekki heldur Úrak núverandi óstjórn sem er að mergsjúga ískenskab almenning. Fyrir þig Ómar, barði ég saman, eða þetta kom til mín, þessi limra um undirokun okkar kallagreyana:

Ein valkyrja sagðist rétt vona

menn vissu að Guð væri kona!

Þá búskussinn þagði,

því næst hann sagði:

„Nú þa‘ ba‘ sona!“

Leirskáldi (IP-tala skráð) 3.2.2011 kl. 19:22

3 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Nú hitnar í kolunum á Egyptalandi enda mörgum heitt í hamsi.

Áður fyrr var sagt að byltingunni á Íslandi hafi verið þrásinnis verið frestað, - vegna veðurs! Til að bylting lukkaðist þurfti langan undirbúning og svo þegar átti að framkvæma byltingaáformin, þá var komið kolvitlaust veður! Þess vegna var henni frestað trekk í trekk, ótímabundið. Svo var haft eftir Birni Þorsteinssyni sagnfræðingi sem kenndi m.a. í MH fyrir 40 árum og síðar HÍ.

Líklegast voru Íslendingar næstir því að bylting væri yfirvofandi í því ástandi sem átti sér stað í svonefndum Gúttóslag 7. nóv. 1932. „Gúttó“ var hús góðtemplara og stóð milli þinghússins og Tjarnarinnar. Þar fóru fundir bæjarstjórnar Reykjavíkur fram um nokkurra ára skeið. Það var rifið fyrir rúmum 40 árum. Í Gúttóslagnum slógust verkamenn við lögregluna og voru allir lögregluþjónar lúbarðir og særðir sumir alvarlega. Sagt var að Brynjólfur Bjarnason síðar þingmaður og menntamálaráðherra, hafi horfið skyndilega af vettvangi til að kenna í MR. Sögðu nemendur hans síðar að kennslustundin hafi verið stutt og laggóð og hvarf Brynjólfur strax aftur og sagður ætla að leiða áfram byltinguna. En þá voru flestir horfnir af vettvangi, hugsuðu sem svo, fyrst Brynjólfur hafði látið sig hverfa, þá væri engin bylting meir á dagskrá!

Líklega hefir samviskusemi menntaskólakennara komið í veg fyrir byltingu á Íslandi, - ásamt veðrinu. Óskandi er að Íslendingar beri þá gæfu að aldrei verði þörf á byltingu hér á landi eins og nú virðist raunin á Egyptalandi.

„Byltingin etur börnin sín“ var sagt um einhverja af byltingunum í Frakklandi.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 3.2.2011 kl. 20:28

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Mönnum var afar heitt í hamsi við þingrofið 1931 og Héðinn Valdimarsson hrópaði: "Niður með konunginn...!" í þingsal.

Háværar raddir voru hjá Alþýðuflokksm önnum og Sjálfstæðismönnum í fyrstu að hunsa þingrofsúrskurð konungs og halda áfram þingstöfrum.

Þegar á hólminn var komið skorti Sjálfstæðisflokk og Alþýðuflokk eitt atkvæði í annarri deildinni til þess að koma saman meirihluta í báðum deildum, og var það þingmaður Rangæinga, Gunnar á Selalæk, sem ekki vildi taka þátt í þessu. 

Heitustu Alþýðuflokksmennirnir ásökuðu Sjálfstæðismenn um hugleysi og að þeir "skytu sér á bak við Gunnar á Selalæk." 

Lögfræðiprófessoarar deildu um lögmæti þingrofsins, en síðar meir hölluðust menn heldur að því að það hefði verið löglegt, og það varð endanlega ljóst í þingrofinu 1974. 

Það var mikið velt vöngum yfir þessu þegar ég var í lagadeild og ég var í hópi þeirra sem töldu það hafa verið löglegt og að skynsamlegt hefði verið að rasa ekki um ráð fram 1931. 

Ómar Ragnarsson, 3.2.2011 kl. 21:29

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ath.semd: Gunnar á Selalæk var utan flokka, það féll niður hjá mér hér að ofan.

Ómar Ragnarsson, 3.2.2011 kl. 21:31

6 Smámynd: Páll Jónsson

Mikið vona ég nú að þessi bylting leiði ekki Egypta úr öskunni í eldinn líkt og raunin varð með Írani. 

Páll Jónsson, 4.2.2011 kl. 00:35

7 identicon

Þessi bylting er annars eðlis, enda samfélagsstrúktúrinn öðruvísi. Í Íran tóku við heittrúaðir öfgamenn, í Egyptalandi minnir þetta frekar á stúdentabyltingu. Kannski heldur Mubarak að þetta geti farið hjá honum eins og á torgi hins himneska friðar, en ég er ansi hræddur um að hann eigi enga undankomu nema að hann gefi afsagnardagsetningu.

Og Ómar, - Gunnar á Selalæk var svona heimagangur þar sem ég bý (náttúrulega ekki sama húsið, bara lögbýlið). Hann átti það til að koma í tómt hús, éta kandísinn úr sykurkarinu, og leggja sig svo í stofunni.

Héðni hefði ekki leyfst þetta. Vissuð þið hitt að Hermann Jónasson rak honum á kjaftinn í Alþingishúsinu?

Jón Logi (IP-tala skráð) 4.2.2011 kl. 08:21

8 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Gunnar á Selalæk ver mikill brandarakarl og sankaði að sér safaríkum sögum sem hann gaf út unrir ritröðinni Islensk fyndni. Fyrirkomulagið var að 100 brandarar og skemmtisögur voru í hverju hefti auk 50 ferskeytlna þar sem fyndni kom við sögu. Áður en yfir lauk voru heftin orðin 25, kannski fleir og voru eftirsótt meðal safnara áður fyrr.

Þá kom Gunnar þessi við sögu innflutning loðdýra á sínum tíma sem betur hefði verið látin liggja enda vor þau einhver afdrifaríkustu mistök í atvinnusögu þjóðarinnar. En menn vissu ekki gott betur.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 5.2.2011 kl. 09:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband