"...hafa talað megavöttin upp úr jörðinni..."

Setningin sem höfð eru eftir Svandísi Svavarsdóttur í tengdri frétt, eru mergurinn málsins í þeim hluta virkjanamálanna, sem snýr að jarðvarmavirkjunum. "Menn hafa talað megavöttin upp úr jörðinni eins og þeir viti hvað undir liggur", sagði hún.

Það er viðurkennd staðreynd úr þessum fræðum, að um ágiskun er að ræða, þegar gefnar eru upp áætlaðar orkutölur af jarðvarmasvæðum, því að það kemur ekki í ljós fyrr en í áranna rás, hve lengi svæðið afkastar þeirri orku sem giskað var á.

Hvað snertir jarðvarmasvæðin á Suðvesturlandi giska menn á að orkan endist í 50 ár. Það er að sjálfsögðu allt of skammur tími til þess að það standist kröfur um sjálfbæra þróun. Að tæma auðlind á þennan hátt heitir rányrkja á íslensku.

Doktor Bragi Árnason rannsakaði Nesjavalla- Hellisheiðarsvæðið á sínum tíma og dró af þeim rannsóknum þá ályktun, að miðað við þau afköst, sem menn ætla sér að ná á þessu svæði, dvíni orkan eftir 50 ár og að þá þurfi að bíða án orkuöflungar í 100 ár eftir því að svæðið fari aftur að afkasta orkunni.

Af þessu er hægt að draga tvær ályktanir:

Annað hvort, að aðeins verði virkjaður þriðjungur þeirrar orku sem giskað var á eða að barnabörn okkar standi frammi fyrir því eftir 50 ár að svipast um eftir 600 megavatta orku annars staðar og síðar 50 árum þar á eftir að svipast um eftir 600 megavöttum á þriðja svæðinu.

Framferði af þessu tagi er græðgi og yfirgangur gagnvart komandi kynslóðum auk þess sem logið er að okkur sjálfum og öllum heiminum að um "endurnýjanlega orku og sjálfbæra þróun" sé að ræða.  

Við Íslendingar eigum alveg eftir að skipuleggja þessi mál af yfirvegun til framtíðar í anda jafnréttis kynslóðanna og haga okkur á ábyrgan hátt í stað þess rányrkjuhugsunarháttar sem ræður ferðinni í vikjana- og stóriðjumálum.

Hvenær ætlum við að fara að haga okkur eins og siðað fólk í þessum efnum?


mbl.is Deilt um megavött á Alþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú ættir að skoða nýútkomna skýrslu um stækkun gufuöflunarsvæðis Hellisheiðarvirkjunar.

Hellisheiðarvirkjun er upphaflega kynnt þannig að hún hefði óveruleg áhrif á umhverfið! Fjálglega var fjallað um fá borplön og umfangsmiklar skáboranir. OR var sigurviss og gufuöflun þótti trygg.

Fljótlega var þó komið annað hljóð í strokkinn. Allt í einu var komin vegur uppá og útum allt Skarðsmýrarfjall og þar eru núna 5 borplön og ca 16 borholur. Þetta var gert í leyfisleysi, var kært og verkið stöðvaðist í e-h mánuði á með OR aflaði framkvæmdaleyfa.

Sú saga er vel þekkt en merkilegt er að fyrirtæki í eigu sveitarfélaga hagi sér með slíkum hætti.

Nú þegar búið er að bora fjölda djúpra hola hefur komið í ljós að þær hugmyndir sem OR hafði um jarhitakerfið stóðust engan vegin. Þeir áætluðu að hitinn ætti rætur undir miðjum Henglinum en í ljós hefur komið að rætur hitans eru mun dreifðari og sunnar. Árangur af gríðarlega kostnaðarsömum borunum á Skarðsmýrarfjalli er rýr og þar fæst einungis gufa á eina 45 MW vél.

OR þarf því að fara víðar til að afla gufu til að knýja þessa 300MW virkjun og hefur nú lagt fram til kynningar nýtt gufuöflunarsvæði, sunnan þjóðvegar, við Gráuhnjúka.

Það lætur nærri að gufuöflunarsvæði Hellisheiðarvirkjunar verði tvöfallt stærra en upphaflega var áætlað og kynnt fyrir almenningi og skipulagsyfirvöldum. Kostnaður við gufuöflunina er sem því nemur meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Hefði virkjunin verið byggð á lengri tíma hefði mátt komast hjá miklu af þeim mistökum sem gerð voru við boranir þar sem allt þurfti að gerast í drulluhvelli.

Þessi flumbrugangur á Hellisheiðinni sýnir í hnotskurn áhættuna við að selja fyrirfram mikla raforku úr ófundinni gufu.

Það er alveg sama hvað stendur í rannsóknarskýrslum sem byggja á ófullkomnum rannsóknum, ágiskunum og líkindum.

-Orkuver er aldrei tilbúið fyrr en raforkan er komin í strengina.

Stormur (IP-tala skráð) 15.4.2011 kl. 09:15

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þakka góða athugasemd um það hvernig þessi mál eru keyrð áfram og hafa verið keyrð áfram í hálfan annan áratug.

Ómar Ragnarsson, 15.4.2011 kl. 20:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband