TAKMARKIÐ: FJÖLGUN GRÆNNA ÞINGMANNA

Í áttblöðungi sem ég gaf út s.l. haust taldi ég nauðsynlegt að breikka fylkingu umhverfisverndarmanna á Alþingi, - nú hrúgast leikmennirnir vinstra megin á völlinn, svo notuð sé samlíking við handbolta, en vantar leikmenn hægra megin. Ég lýsti eftir bræðraflokki vinstri grænna og þeirra þingmanna Samfylkingar sem eru andvígir stóriðjustefnunni.

Allar götur síðan þá hef ég einnig sagt að nýtt mið-hægri-umhverfisframboð yrði að leiða til þess að fjölgun þingmanna þeim megin yrði meiri en sem næmi þeim þingmannsefnum, sem myndu falla vinstra megin.

Í fréttum er nafn mitt oft nefnt sem frambjóðanda. Ég er nú 66 ára og þarf að huga vandlega að því hvernig ég ætla að klára þau stóru verkefni á sviði umhverfismála, kvikmyndir og annað, sem ég á ólokið. Ég verð að forgangsraða verkefnum. Að sitja á þingi á kafi ofan í margskyns frumvörpum og þingstörfum varðandi önnur mál en umhverfismál er ekki á forgangsröðunarlista mínum.

Ég tel mig hafa hlutverki að gegna á hinni almennu baráttu umhverfisverndarfólks. Í vetur hef ég eftir bestu föngum reynt að laða saman og líma krafta umhverfisverndarfólks. Það tel ég höfuðhlutverk mitt. Í samræmi við orð mín í áttblöðungnum vil ég liðka fyrir öllum hugmyndum um fjölgun grænna þingmanna svo að ekki verði sagt eftirá að ekki hafi verið reynt að finna leið til þess.

Ég hef í allan vetur sagt að ég muni láta skipa mér til verka í baráttunni framundan þar sem kraftar mínir nýtist best. Kosningarnar 2007 verða einstakar að því leyti að aldrei áður og sennilega ekki síðar verður kosið um málefni sem skipta milljónir ófæddra Íslendinga máli. 2011 verður það of seint.

Því aðeins mun ég verða beinn aðili að einu umhverfisframboði fremur en öðru að það verði betra fyrir málstaðinn í heild. Það er ekki enn komið að slíkri ákvörðun hjá mér, - ég þarf betri upplýsingar um vígstöðuna en nú liggja fyrir. 

Á ferli mínum sem flugmaður hef ég oft orðið að leggja upp í erfiðar ferðir þar sem öðrum hefur sýnst ófært, kannski oftar en nokkur annar flugmaður. Ævinlega hef ég vandað til slíkra ferða eftir bestu föngum og langoftast komist á leiðarenda, enda reynt að hafa fleiri en eina leið tiltæka til þess.

Það má orða þetta svona: Ég hef sennilega oftar lagt af stað í slíkar ferðir en nokkur annar, - en ég er líka örugglega sá íslenskur flugmaður sem oftast hefur snúið við, - í tíma. Annars væri ég ekki þar sem ég´er í dag.  

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Áslaug Sigurjónsdóttir

Blessaður Ómar.  Þú ert að segja að þú ætlir ekki á þing, það hentar þér ekki.  En þá er að fá  einhvern stjórnmálaflokk og einstaklinga innan flokksins sem áhuga hafa á umhverfisvernd.  Hvað flokk sem er.  Ég hef oft hugsað dálítið klikkað, en hef spáð í ef eins og einhverjir segja að við endurfæðumst aftur, kanski eftir 100 - 200 ár, þá spyr ég " hvernig vilt þú að landið okkar sé þegar þú kemur til baka, þ.e. fullt af virkjunum og álverum eða fallega Ísland ".  ?

Áslaug Sigurjónsdóttir, 9.2.2007 kl. 12:18

2 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Þetta vissum við sem höfum verið að flögra.  Kaldir flugmenn verða það nefnilega KALDIR.

Ég er enn að böðlast við, að hafa áhrif á minn Flokk, í þá veru, að setja lífríkið í ákveðinn forgang.  Lífríkið sem ég hef einbeitt mér hvað mest að, er það sem á sér formælendur fáa, -nefnilega hafsbotninn.  Það er lífsvæði, sem enginn sér og er því afar lélegt til vinsælda að móast gegn rányrkju, eða kanske frekara sagt gegn því að farið sé ránshendi um það svæði, því þeir yrkja svosem afar lítið trollararnir.

Komdu aftur í Flokkinn minn og hjálpaðu mér til að við Hægri grænir náum hlustum þeirra sem er þar í forsvari.  Landsfundur er vetvangur, sem brúka má.

litlu flokkarnir eru svosem ágætir en ef horft er yfir sviðið, hafa þeir haft spélítil áhrif á ákvarðanir.  Virðast frekar stofnaðir til þess, að einhverjir komist áfram á launaða setu á Alþingi.

Sjálfstæðisflokkurinn gæti verið sá flokkur sem dygði til að gera eitthvað.

Bestu kveðjur

bjarni

Miðbæjaríhald

Bjarni Kjartansson, 9.2.2007 kl. 13:20

3 identicon

Ágæti Ómar.

 Ég er einn af þessum fjölmörgu sem gekk niður Laugarveginn með þér á síðasta ári til að sýna andstöðu mína við Kárahnjúkavirkjun.  Ég vissi sem var að atburðurinn var táknrænn og mundi um engu breyta þeirri ákvörðun að lónið yrði fyllt örfáum dögum síðar en ákvað að senda skilaboð um að nú væri mál að linni, að mótmæla því að ekki yrði farið í slíkar framkvæmdir aftur gegn vilja þjóðarinnar.

Eitt hefur plagað mig síðan ég hitti þig í Ferðamálaskólanum og eftir að þú ákvaðst að koma fram sem andstæðingur þessara framkvæmda.  Ég spurði þig beint að því hvort að þú værir andstæðingur þessara virkjanna (sem var auðvitað augljóst) og af hverju þú viðurkenndir það ekki opinberlega.  Þú barst því við að þú værir fréttamaður sem værir að vinna vinnuna þína.  Mörgum mánuðum síðar lætur þú verða að því sem ég spurði þig um, opinberar megna andstöðu þína við þessa virkjannaframkvæmdi og berst á móti henni með kjafti og klóm en ó svo allt of seint Ómar!!

Þetta er mál sem þú brennur fyrir, augljóslega en af hverju kviknaði "opinberi"eldurinn þinn svona seint??

Með bestu kveðju,

Jón Gunnar Benjamínsson
Ferðamálaráðgjafi

Jón Gunnar Benjamínsson (IP-tala skráð) 9.2.2007 kl. 13:50

4 Smámynd: Haukur Nikulásson

Sæll Ómar,

Miðað við að þingið vann ekki nema 181 dag á síðasta ári sýnist mér að þú myndir hafa miklu rýmri tíma til að sinna þínum eigin málum heldur en nú er.

Mér finnst þú vanmeta vígstöðuna MEÐ ÞIG INNANBORÐS. Þú getur ekki horft á einhverja "vígstöðu" og verið svo sjálfur fyrir utan taflborðið. Sumir telja nefnilega að þú gætir orðið hin pattaralegasta drottning á taflborðinu ef þú lætur slag standa að bjóða þig fram. Það kemur mér eiginlega á óvart að þú skulir ennþá efast um það hvað sé næsta stóra hlutverk þitt í lífinu. Þó þú farir á þing (eða jafnvel í umhverfisráðuneytið) færðu áfram tíma til að fljúga, fíflast, flytja kvæði og framleiða myndir. Á sama tíma geturðu haft jákvæð áhrif á þjóð og náttúru. 

Haukur Nikulásson, 9.2.2007 kl. 13:57

5 identicon

"Kosningarnar 2007 verða einstakar að því leyti að aldrei áður og sennilega ekki síðar verður kosið um málefni sem skipta milljónir ófæddra Íslendinga máli. 2011 verður það of seint."

 Þetta eru orð að sönnu Ómar - og hvorki þú né hinn kornungi Andri Snær getið skorast undan á þessari stundu.

Komdu fram með með trúverðugt fólk á framboðslistum og skýr stefnumál  - en láttu eiga sig að skilgreina hvar framboðið liggur milli hægri og vinstri. Láttu stefnumálin segja það sem segja þarf.

Hjörtur Hjartarson (IP-tala skráð) 9.2.2007 kl. 16:17

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Kæri Jón Gunnar Benjamínsson. Í mars 2003 var ég tilbúinn með aðgerð sem miðaði að því að vekja alheimsathygli á því sem ætti að fara að gera við Kárahnjúka. Til þess að það heppnaðist nægði hins vegar ekki að ég gerði þetta einn. Svo fór hins vegar að ég stóð uppi einn með þessa aðgerð og ekki varð af henni.

Ég hélt að öflug upplýsing gæti gert mest gagn jafnframt öflugri baráttu umhverfisverndarfólks. Hvort tveggja brást. Vinstri grænir felldu tillögu um andstöðu við Kárahnjúkavirkjun vorið 2003. Umhverfisverndarfólk var í sárum eftir harða baráttu við Eyjabakka sem tók burt frá því allt fjármagn.

Á þessum tima hefði það verið einmana maður sem hefði gengið niður Laugaveg í mótmælaskyni, - ómögulegt hefði verið að fá 15 þúsund manns til að ganga á móti virkjuninni. Ég hélt að ég gæti vakið athygli erlendis með því að gera mynd með enskum texta.

Hún hlaut verðlaun á kvikmyndahátíð á Ítalíu og svipuð mynd Páls Steingrímssonar verðlaun á tveimur kvikmyndahátíðum. En lengra fór það ekki, - engin sjónvarpsstöð erlendis vildi kaupa þessar myndir til sýningar enda hafði ég hvorki  fjármagn né tíma til að fylgja því eftir.

Næsta skref hjá mér var að skrifa bók um málið, "Kárahnjúkar - með og á móti". Hið sama gerðist þar og um kvikmyndirnar, - íslensk fyrirtæki þorðu ekki að koma nálægt neinu sem ég var að gera. JPV útgáfan bjargaði því að bókin yrði gefin út.

Bókin var þannig skrifuð að með því að lesa allar blaðsíður í henni sem eru hægra megin fær fólk aðgang að öllum helstu rökum gegn stóriðjustefnunni. Ég taldi nauðsynlegt að búa þannig til vopnabúr fyrir umhverfisverndarfólk. Það olli mér vongbrigðum hve lítið var gert af því.

Árið 2005 var ljóst að ekki  yrði frjármagn til að gefa bókina út erlendis. Aðgerðin frá 2003 var enn möguleg en eins og fyrri daginn var ekki hægt að fá með sér nauðsynlegt samverkafólk.

Kannski hefði ég á þessum tímapunkti átt að stíga fram en ég var enn svo barnalegur að halda að upplýsingin bæri mestan árangur, enda enginn annar um þá hitu ef undan eru skildar frábærar bækur Guðmundar Páls Ólafssonar og ljósmyndir okkar bestu ljósmyndara.

Ég efast þó um að 15 þúsund manns hefðu gengið í gegnum Reykjavík á þessum tíma. Það verður þó aldrei sannað né afsannað.

Að snúa við á braut stjórnlausrar virkjanafíknar er eins og að snúa risaskipi. Ég hafði eftir fremsta megni reynt að leggjast á þetta stýri með þeim ráðum sem voru helst á mínu valdi, - með upplýsingu sem hafði sárlega vantað.

Loks kom árið 2006 og stórkostlegur liðsauki í bók Andra Snæs Magnasonar. Risaskip virkjanfíknarinnar var loks að byrja að snúast.  Í hönd fór sumar með mikilli umræðu um Kárahnjúkavirkjun og ég fyrir mitt leyti reyndi að halda þeim dampi uppi með því að ögra ráðamönnum landsins til að koma með mér um virkjansvæðið.

Ég reyndi mikið til að hrinda á flot aðgerðinni frá 2003 en hún er aðeins framkvæmanleg að vetrarlagi og aftur vantaði meðreiðarfólk. Loksins fór þó svo að aðgerðin sveigðist í þá átt sem birtist í göngunni og fundinum 26. september sl. en allt sumarið hafði ég verið að reyna að hrinda aðgerðinni af stað. Það tókst ekki fyrr en þetta, því miður.

Ég efast um að gangan hefði orðið svona stór ef ekki hefði verið búið að kynda undir henni á þann hátt sem gert hafði verið síðastliðið sumar af stjórnmálamönnum og fjölmiðlum. Ég efast líka um þegar litið er yfir síðustu ár að það hefði tekist að koma í veg fyrir Kárahjúkavirkjun.

Þeir sem að henni stóðu voru einfaldlega svo miklu öflugri að völdum, áhrifum, fjármagni og aðstöðu en útkeyrð samtök umhverfisverndarfólks.

Ég vona að þetta úskýri hvers vegna þetta æxlaðist allt til á fyrrgreindan hátt. Í upphafi göngunnar var ég viðbúinn þessum sömu 700 og höfðu komið á samkomur umhverfisverndarfólks í Borgarleikhúsinu. Ég játa að ég gat alls ekki séð fyrir hvernig þetta fór.

Það voru kannski mestu mistök mín öll árin að velja baráttuaðferðir sem skiluðu ekki nógum árangri. Héðan af er engin leið að sanna neitt um það til eða frá. Nú er það framtíðin sem bíður úrlausnar og sem fyrr er það vandasöm ákvörðun hvað skuli gera. 

Ómar Ragnarsson, 9.2.2007 kl. 17:18

7 Smámynd: Púkinn

Púkinn er fylgjandi öllum þeim aðgerðum sem geta gert Alþingi Íslendinga blágrænt, enda Púkinn grænn að innan, þótt hann sé blár á yfirborðinu.

Púkinn myndi ekki hika við að kjósa hægri-grænan flokk - enda liggja stjórnmálaskoðanir Púkans sjálfs einmitt þar.  Hins vegar vill Púkinn eindregið hvetja Ómar til að fara sjálfur fram í kosningunum.

Það er nefnilega þannig að stundum þarf maður að gera hlutina sjálfur til að þeir gerist.

Púkinn, 9.2.2007 kl. 17:39

8 identicon

Já, það tekur langan tíma að snúa olíuskipi, það er á leiðinni í höfn en ekki komið þangað enn, Ómar. Skafl beygjattu skalli, þótt skúr á þig falli.

Eiríkur Kjögx (IP-tala skráð) 9.2.2007 kl. 17:55

9 Smámynd: Sveinn Ingi Lýðsson

Ómar, mér finnast hugmyndir þínar um hægri - græna mjög spennandi.  Eitthvað sem lætur vel í mínu hægra heyra.  Ég heyr verr með vinstra.  Framtíðarlandið sé sem þverpólitíska fjöldahreyfingu umhverfissinna.  VG vil ég ekkert hafa með þar sem þröngsýni og afturhald ræður ríkjum.  Ég hef lesið allt sem frá þér hefur komið og nú er þitt tækifæri til að snúa skipinu - því verður að snúa.  

Ég er tilbúinn til að leggjast á árarnar - til að snúa skipi. 

Sveinn Ingi Lýðsson, 9.2.2007 kl. 18:20

10 identicon

Sæll Ómar.

Í athugasemd nr. 8 verða þér á undarleg mistök þar sem þú segir: "Vinstri grænir felldu tillögu um andstöðu við Kárahnjúkavirkjun vorið 2003." 

Er þig nokkuð að dreyma? Eða ertu að rugla einhverjum saman? Vinstri græn hafa aldrei nokkurn tíma kvikað í langri og harðri baráttu sinni gegn umhverfisspjöllunum skelfilegu vegna Kárahnjúkavirkjunar.

Kristín Halldórsdóttir (IP-tala skráð) 9.2.2007 kl. 21:30

11 identicon

hægri grænt er flott hugmynd ... ég mundi heldur betur skoða það

Kleópatra Mjöll Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 10.2.2007 kl. 00:08

12 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Kæra Kristín. Ég hef ávallt hrósað vinstri grænum fyrir það að vera sá flokkur á Alþingi sem hefur staðið langbest vaktina í umhverfismálum. Fyrir það á hann skilið ómælda þökk og ég trúi því að það verði skráð með gullnu letri í sögubækur framtíðarinnar.

Ég var hér að ofan að reyna að skilgreina hvað fór úrskeiðis hjá mér í baráttu minni fyrir íslenskri fjölmiðlun og hvað fór úrskeiðis hjá andófsfólki.

Klukkan er það margt núna að ég verð að láta bíða til morguns að kynna mér hvers vegna Kristján Hreinsson gekk úr VG þegar landsþingið felldi tillögu um að ítreka andstöðu við Kárahnjúkavirkjun eftir að búið var að ákveða að fara út í hana og álver á Reyðarfirði.

Ég er svo sem ekkert að álasa VG fyrir að gera þetta í ljósi þess hvaða hugarástand ríkti hér á landi fyrst eftir að búið var að ganga frá öllum hnútum varðandi álverið og virkjunina. Þá var í gangi mikil viðleitni í þjóðfélaginu til að hætta öllum umræðum og deilum um virkjunina, - það væri bara tímasóun.

Ég nefndi þetta dæmi bara til þess að varpa ljósi á það hve lemstruð við lágum öll eftir hinn mikla ósigur á þessum útmánuðum 2003 og hversu erfitt var að halda eldi á kyndlinum.  

Ég sá þá ekkert ráð til að synda á móti þessum straumi en að halda áfram við heimildamyndagerð um virkjunina og skrifa um hana bók. En það var erfitt, -  á þessum tíma hefði verið afar erfitt að "koma út úr skápnum" og hætt er við að fáir hefðu farið í göngu niður Laugaveginn.

Ómar Ragnarsson, 10.2.2007 kl. 00:22

13 identicon

Hér er að finna nánari upplýsingar um það sem Ómar er að rifja upp:

 http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=772116

Hjörtur Hjartarson (IP-tala skráð) 10.2.2007 kl. 01:08

14 identicon

Kæri Ómar.

Þakka svarið. Nú átta ég mig á að þú ert að vísa til atviks sem varð á landsfundi VG haustið 2003. Kristján Hreinsson lagði þar fram drög að ályktun gegn Kárahnjúkavirkjun, en hún var reyndar hvorki rædd né felld, heldur var hún meðal þeirra sem ályktanahópurinn lagði til að yrði vísað frá. Rökin voru illskiljanleg, en ef ég man rétt voru þau líklega var ástæðan á svipuðum nótum og þú lýsir, fólk lemstrað eftir átökin og ósigurinn í Kárahnjúkamálinu og ekki til í að klappa steininn. Þessi málsmeðferð var einfaldlega klúður og eðlilega var félagi Kristján ekki par ánægður með það. En líklega er hann búinn að fyrirgefa þetta, altént bauð hann sig fram í forvali VG síðast og lýsti þar sjálfum sér í kynningarbæklingi á sinn einstaka hátt: "Ég er sanngjarn, vinnusamur, sáttfús, réttsýnn o.s.frv. og ég er yfirleitt fylgjandi öllu - nema því sem ég er algjörlega mótfallinn."  

Kristín Halldórsdóttir (IP-tala skráð) 10.2.2007 kl. 15:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband