"Til að koma raforku til notenda."

Sá sem ræður orðavalinu ræður ferðinni.  Þetta hefur óspart verið gert í stóriðjumálunum. Í hálfa öld er búið með síbylju að gylla orðin "orkufrekur iðnaður" sem það jákvæðasta, sem til er.

Hann einn "bjargar þjóðinni."

Þeir sem hafa eitthvað maldað í móinn hafa verið sakaðir um "að vera á móti rafmagni", "vilja fara aftur inn í torfkofana" og "vera á móti framförum og atviinnuuppbyggingu."

Nú er sagt að allar hinar mikilfenglegu hugmyndir um háspennulínur þvers og kruss um landið verði að hrinda í framkvæmd koma til þess að hægt sé "að flytja raforku til notenda" og "skapa viðunandi öryggi."

Sem sagt: Ef þetta verði ekki allt gert fáum við ekki rafmagn á heimili okkar og / eða eigum á hættu að það verði rafmagnslaust hjá okkur.

Skoðum háspennulínurnar og einfaldar staðreyndir.

Um leið og búið er að segja "orkufrekur iðnaður"  sem æðsta keppkefli okkar fylgir því að nú þegar fer 80% af raforkuframleiðslu landsins til álvera, stefnan er að koma þessari tölu yfir 90% og háspennulínurnar sem þarf til að flytja öll þessi ósköp verða margfalt hrikalegri og lengri en annars væri.

Allt tal um að með þessum yfirgengilegu framkvæmdum sé verið að tryggja hinum almenna borgara að hann hafi ljós og hita er blekking.

Til þess að gera það þarf aðeins brot af þessum háspennulínuskógum og miklu minni og lægri línur þar að auki.


mbl.is Deilt um línur í lofti og á láði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Sem betur fer átta sig æ fleiri sveitafélög á því að hér sé að valsa yfir þeirra land á skítugum skóm með því að leggja háspennulínur þvers og kruss. Og allt einungis til þess að skapa stóriðjunni sem ódýrustu orku sem skilur lítið eftir í landinu nema mengun og spjöll.

Úrsúla Jünemann, 7.2.2012 kl. 21:57

2 identicon

220KV raflína er ekki einusinni þörf til að flytja raforku til Höfuðborgarsvæðisins. auknum orkuflutningum til almenningsrafveitna verður eingöngu mætt með jarðstrengum með allt að 132KV spennu, jafnframt því að eldri og lágspenntari loftlínum er skipt út fyrir jarðstrengi

Allar nýjar loftlínur eru eingöngu til að þjónusta stóriðju og eðlilegt að óskyldir aðilar forðist skaðann af starfsemi sem er þeim óviðkomandi. Eignarnámsákvæði raorkulaga eru því ekki viðeigandi þar sem þessar línur þjóna ekki almannahagsmunum, heldur einungis stökum einkafyrirtækjum sem telja má á fingrum annarar handar

sigurður sunnanvindur (IP-tala skráð) 7.2.2012 kl. 23:25

3 Smámynd: Kristinn Pétursson

Miðað við niðurskurð fiskveiða - og að enginn orkufrekur iðnaður væri í landinu - þá værum  þjóðin nú nánast gjaldþrota  Ómar.

Auðvitað er takmörkuð fegurð í svona háspennulínum. En það er sama hvar þú kemur í heiminum - það er alls staðar raforkuframleiðsla og háspennulínur.

Það far líka fólk sem var vitlaust út af símastaurunum 1906.

Eftir 100 ár verður mest af þessu komið í jörð - en enn vantar upp á tæknina - þetta er enn of dýrt.

Kristinn Pétursson, 8.2.2012 kl. 00:52

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það á að segja sannleikann, Kristinn, um háspennulínurnar og líka um bruðlið með orkuna og fórnirnar vegna þess.

Þótt öll orka landsins yrði sett í álver og náttúruverðmætum fórnað í samræmi við það myndu aðeins 2% vinnuaflsins fá störf í álverunum og jafnvel þótt menn margfölduðu með 3-4 í afleiddum störfum yrði útkoman aðeins 6-8% vinnuaflsins.

Og það er svo skemmtilegt að þessi margföldun vegna "afleiddra starfa" er aldrei notuð nema í tengslum við stóriðjuna, rétt eins og aðrar atvinnugreinar hafi engin afleidd störf.

Setjum upp einfalt dæmi hjá einhverri þjóð með ímynduðum tölum, þar sem talsmenn fjögurra atvinnugreina myndu allir margfalda störf í sinni grein með fjórum:

Stóriðja:  2% x 4  =  8% vinnuaflsins.

Iðnaður:  20% x 4 = 80%    "

Landbúnaður: 20% x 4 =  80%  "

Sjávarútvegur:  20% x 4 =  80%  "

Ferðaþjónusta:  20% x 4  =  80%

SAMTALS      82% x  4   =   328% !!

Ómar Ragnarsson, 8.2.2012 kl. 11:30

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"Skotbyrgishugarfar" (e. bunker mentality) er nýyrði og á vel við málflutning þinn, Ómar.

Orkufrekur iðnaður er hvorki það jákvæðasta sem til er né það eina sem horft er til þegar atvinnuuppbygging er annars vegar. Orkufrekur iðnaður er einfaldlega eitt af fjölmörgu sem kemur til greina og reynslan hefur sýnt, eins og með Alcoa á Reyðarfirði að þetta var mjög góður og raunhæfur kostur.

Eitt sem ég hef lengi ætlað að leiðrétta hjá þér Ómar, er að fullyrðing þín um að Kárahnjúkavirkjun sé "eyland í orkukerfinu", er tómt bull hjá þér. Ég trúði þér á sínum tíma, kom reyndar af fjöllum og fannst þetta mjög skrítið. En með því að trúa þér án fyrirvara, braut ég prinsipreglu sem allir ættu að viðhafa og það af marg gefnu tilefni, en það er að fullyrðingar verndunarfíkla ber að líta á sem rangar, þar til annað kemur í ljós.

Gunnar Th. Gunnarsson, 8.2.2012 kl. 14:39

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þessi orð, "eyland í orkukerfinu" eru ekki uppfinning mín, heldur tekin beint úr lýsingu lögfræðings Landsvirkjunar á eðli virkjunarinnar í álitsgerð hans um fjárkröfur landeigenda vegna vatnsréttindanna.

Ómar Ragnarsson, 8.2.2012 kl. 19:14

7 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þú sagðir frá þessu í því samhengi að rafmagnið frá virkjuninni væri ekki tengt Landsneti og því ekki hægt að að nýta Kárahnjúka (t.d. umframorku) í neitt annað en Alcoa. Það er ekki rétt.

Það að einhver lögfræðingur hafi sagt þetta, bendir til að orð hans hafi verið slitin úr samhengi og túlkuð eftir hentugleikum.

Gunnar Th. Gunnarsson, 8.2.2012 kl. 20:42

8 identicon

Altso, er Kárahnjúkavirkjun á landsnetinu eða ekki? Mig minnir að það hafi fundist víða um land þegar bræðslan var keyrð upp í upphafi.

Jón Logi (IP-tala skráð) 8.2.2012 kl. 23:44

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Lögfræðingur Landsvirkjunar er ekki "einhver lögfræðingur".

Lýsing hans á virkjuninni var gerð fyrir Landsvirkun og send landeigendum sem opinbert plagg.

Fyrir liggja áform um stórar háspennulínur þvert yfir norðurhálendið rétt sunnan við Herðubreiðarlindir og vestur um til Suðurárbotna sem ég hef heyrt sérfræðinga Landsvirkjunar tala um sem "nauðsynlegt öryggisatriði" , einmitt vegna þess að Kárahnjúkavirkjun sé "eyland í raforkukerfinu."

Á ÍNN nýlega barst þetta í tal í viðtali Yngva Hrafns við forstjóra LV.

En kannski er ekki að marka það sem "einhver forstjóri" segir.

Ómar Ragnarsson, 9.2.2012 kl. 00:01

10 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Kárahnjúkavirkjun ER tengd inn á Landsnetið. Er hægt að flækja það mál?

Gunnar Th. Gunnarsson, 9.2.2012 kl. 01:18

11 identicon

Það var rætt í fullri alvöru að aftengja Reyðarál og meirihluta Kárahnúkavirkjunar frá landsnetinu vegna truflana sem 600MW framleiðsla og notkun olli á raforkuneti sem einungis hefur 150MW flutningsgetu til suðurs og vesturs frá virkjuninni.

Kárahnúkavirkjun er því ekki hreinræktað eyland, -líkist meira Gróttu þars sem tenging er um "150MW granda" sem er byggðarlínan.

Agnar Ólsen þáverandi yfirverkfræðingur LV skrifaði ýtarlega grein í fréttabréf Landsvirkjunar ca 1996, þar sem hann færir rök fyrir því að stóru orkuveri í Fljótsdal fylgi óhjákvæmilega stór raflína að Þjórsárvirkjunum, -"óháð því hvort afhendingarstaður orkunnar er Keilisnes, Reyðarfjörður eða Evrópa".

Búið var að mæla fyrir þessari línu um ægifagurt land norðan Dyngjufjalla um sk Vikrafellsleið, en sú línuleið og tengivirki sunnan Svartárkots hafa verið lögð til hliðar og væntanleg tenging Kárahnúkavirkjunar mun fylgja byggðarlínu að Kröflu, þaðan áfram til NV og byggt verður tengivirki vestan Gæsafjalla og þaðan kvíslast lína norður til Húsavíkur, önnur suður Sprengisand að Vatnsfellsvirkjun og sú þriðja vesturum til Blönduvirkjunar.

Þessar línur munu hafa 400 - 600 MW flutningsgetu en til samanburðar ber byggðarlínan uþb 150MW.

Byggðarlínan dugar feykivel til að flytja orku til almenningsrafveitna og t.a.m. er hámarksaflþörf stæstu almenningsrafveitu landsbyggðarinnar, Norðurorku á Akureyri, aðeins rúm 20MW. Þessar nýju línur hafa þann tilgang einan að tengja stórvirkjanir og stórnotendur sem í dag skerða verulega afhendingaröryggi almenningsrafveitna vegna stórvarasamrar samtengingar inná byggðarlínukerfið sem ekki er byggt fyrir það ofurálag sem myndast ef e-h fer úrskeiðis stóriðjumegin.

Grein Agnars frá 1996 gerir heiðarlega grein fyrir þessari samtengingarþörf en ákveðið var að frysta alla umræðu um málið þar til storma lægði um virkjunina.

Nú þegar búið er að nauðga stofnlínukerfi almenningsrafveitnanna með þessum virkjunum og orkunotendum sem eru kerfinu ofviða, -á að selja okkur þá hugmynd að við þörfnust þessa 400 - 600 MW línuskrímslis til þess að tryggja okkur sæmilega stöðuga raforku!

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 9.2.2012 kl. 02:34

12 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Afhendingaröryggi orku á Íslandi er með því besta sem þekkist í veröldinni, þökk sé stóriðjunni. Fyrir daga Straumsvíkur og Búrfells var öryggið frekar lítið og fólk sem komið er yfir miðjan aldur man vel þá tíma.

Gunnar Th. Gunnarsson, 9.2.2012 kl. 02:53

13 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Reiknað er með að Alcoa Fjarðaál kaupi nánast alla orku Kárahnjúkavirkjunar, a.m.k. næstu 40 árin, svo varla er reiknað með 600 mw in á landskerfið þaðan.

Einhver mw munu þó vera afgangs, því virkjunin skilar meiru afli en bjartsýnustu menn þorðu að vona. Því umfram rafmagni er hægt að veita auðveldlega inn á Landsnetið.

Gunnar Th. Gunnarsson, 9.2.2012 kl. 02:58

14 identicon

Gunnar, Búrfellsvirkjun var mjög ótryggur orkugjafi allt þar til Sultartangastífla var byggð og var alls ekki til að bæta raforkuöryggið. LV neyddist meira að segja til að byggja olíuknúið neyðarorkuver í Straumsvík svo ekki storknaði í kerjum þegar Búurfell klikkaði dögum saman.

Sigurjón Rist hafði gert grein fyrir þessum ágalla virkjunarinnar áður en bygging hófst en þær aðvaranir voru hunsaðar. Það átti nefnilega að gera þetta "hvort sem er".

Ágallar Búrfellsvirkjunar fólust í því að inntakslónið rúmar einungis vatn til 4 klst reksturs virkjunarinnar og Þjórsá var opin allt upp að jökli og flutti með sér gríðarlegt magn af seti og krapa sem átti til að stöðva orkuframleiðslu. Einnig var virkjunin hönnunð útfrá rennslismælingum áranna 1940-1960 sem voru mun hlýrri og úrkomumeiri en aldarfjórðungurinn eftir 1960. Ekki náðist að sprengja úttak þórisvatns í fulla dýpt og því náðist lengi vel hvorki að fylla né tæma miðlunarlónið. Saga LV er því mörkuð óraunsæi og ábyrgðarleysi, bæði verklega, samfélagslega og hagfræðilega.

Skortur á upplýstri og opinni umræðu og stefnuleysi í auðlindamálum hefur því lengi skaðað fyrirtækið og eigendur þess. Þessi málaflokkur hefur verið keyrður áfram af pólitískri rétthugsun, sérhagsmunum stjórnmálamanna og hreppapólitík. Málflutningur þinn Gunnar er angi af þeim meiði.

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 9.2.2012 kl. 03:18

15 identicon

Er ég þá ekki að skilja það rétt að fyrst að meginhluti Kárahnjúkavirkjunnar fer beint til Fjarðaráls og svo standi til, þá ætti byggðarlínan að duga úr þessu?

En eru menn ekkert að spekúlera í jarðstrengjum? Kaplarnir nýjustu, þótt dýrir séu, hafa minni útleiðslu en línurnar. Sæstrengirnir nýjustu niður í 3% á 1.000 km muni ég rétt.

Jón Logi (IP-tala skráð) 9.2.2012 kl. 13:56

16 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"Saga LV er því mörkuð óraunsæi og ábyrgðarleysi, bæði verklega, samfélagslega og hagfræðilega", fullyrðir maður sem þorir ekki að standa við orð sín undir eigin nafni.

Þetta er óráðsbull sem einungis öfgafólk í náttúruvernd styður.

Gunnar Th. Gunnarsson, 9.2.2012 kl. 14:19

17 identicon

Mér fannst nú efnistök Sigurðar vera nokkuð þétt, þó að kennitöluna vanti. Áttu ekkert betra Gunnar?

Jón Logi (IP-tala skráð) 9.2.2012 kl. 15:50

18 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ef þú skoðar sögu LV, þá getur þú ekki komist að sömu niðurstöðu og nafnleysinginn. Annarleg náttúruverndarsjónarmið sem lituð eru pólitík, ráða greinilega áliti hans.

Gunnar Th. Gunnarsson, 9.2.2012 kl. 16:02

19 identicon

Ekki ætla ég að elta ólar við ávirðingar Gunnars. Vil þó leiðrétta klausuna um Búrfellsvirkjun: Í upphafi var það ekki einungis Þjórsá sem var galopin allt inna að jökli og bar fram gríðarlaegt magn af seti krapa og ís sem olli vandræum í litlu intaksmannvirki Búrfellsvirkjunar, -þetta giltil einnig um Tungná, allt þangað til Sigöldustífla var reist og Krókslón fór að safna í sig föstum efnum úr efri hluta árinnar. Sultartangastífla var gerð einum 15 árum á undan samnefndri virkjun og hafði þá engöngu það hlutverk að safna í sig seti og ís sem annars rann nær óhindrað að inntaki Búrfellsvirkjunar.

Starfsmenn Búrfellsvirkjunar stóðu oft í ströngu við "Musteri Óttans" sem var ísskiljubúnaðurinn sem hafði það hlutverk að fleyta ís framhjá Bjarnarlóni. Þessi ísskolun var vatnsfrek og olli því að oft var ekki til vatn til að knýja allar vélar virkjunarinnar.

Þessi vandræðagangur var reglulegt fréttaefni á þessum árum og jafnvel Gunnar ætti að vera fær um að fletta þessu upp á timarit.is

Gamlir Landsvirkjunarjálkar kunnar magnaðar sögur af þessari baráttu. Óvíst að þeim líki að menn austur á Reyðarfirði afneiti þessu sem þvættingi!

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 9.2.2012 kl. 16:57

20 identicon

Hér er auðgúgglað efni um ísamál við inntak Búrfellsvirkjunar:

http://www.landsvirkjun.is/starfsemin/virkjanir/burfellsstod/nr/829

http://www.google.is/webhp?rlz=1C1GGGE_enIS358&sourceid=chrome-instant&ix=hea&ie=UTF-8&ion=1#sclient=psy-ab&hl=is&rlz=1C1GGGE_enIS358&site=webhp&source=hp&q=musteri+%C3%B3ttans+b%C3%BArfell&pbx=1&oq=musteri+%C3%B3ttans+b%C3%BArfell&aq=f&aqi=&aql=&gs_sm=3&gs_upl=5206l8593l0l9135l8l8l0l0l0l0l303l1428l0.6.1.1l8l0&fp=1&ix=hea&ion=1&biw=1440&bih=809&bav=on.2,or.r_gc.r_pw.,cf.osb&cad=b

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 9.2.2012 kl. 17:02

21 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég afneita engum af þessum vandræðasögum. Virkjanasagan er vörðuð vandamálum sem verkfræðingar hafa þurft að glíma við. Í dag býr verkfræðingastéttinn yfir gríðarlegri þekkingu á þessum málum og jafnvel talað um að þessi mannauður verði mikilvæg útflutningsgrein í framtíðinni.

Gunnar Th. Gunnarsson, 9.2.2012 kl. 17:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband